Í gær birti DV pistil eftir rithöfundinn Guðberg Bergsson þar sem hann hæðist að Hallgrími Helgasyni kollega sínum fyrir að hafa stigið fram og sagt frá nauðgun sem hann varð fyrir þegar hann var 22 ára gamall. Grínið snýst í stuttu máli um að Hallgrímur sé ljótur karl sem engum dytti í hug að nauðga.
Pistill Guðbergs er ógeðfelldur en endurspeglar um leið hversu óvön við erum að karlmenn tjái sig um kynferðisofbeldi. Viðbrögð Guðbergs eru taugaveiklunarviðbrögð gamals karls sem sér heimsmynd sína hrynja.
Segjum að þjóðþekkt kona hefði stigið fram og opinberlega sagt frá því í fyrsta skipti að hún hefði orðið fyrir grófu kynferðisofbeldi þegar hún var ung. Í kjölfarið hefði önnur þjóðþekkt kona skrifað pistil þar sem hún dregur frásögn fyrri konunnar í efa, ýjar að því að konan sé ekki nógu falleg til að vera nauðgað, gerir almennt grín að þolendum kynferðisofbeldis og dregur að lokum þá ályktun að hér sé sennilega um sölubragð að ræða sem beinist að veiklyndri þjóð með heimsfræga samúð.
Hverjum dytti í hug að skrifa slíkan pistil? Hvaða fjölmiðill hefði keypt hann og birt? Þessi atburðarás er of fjarstæðukennd. Engum hefði dottið í hug að saka Vigdísi Grímsdóttur um lygar og sölubrellur þegar hún skrifaði Dísusögu: Konuna með gulu töskuna. Enginn fjölmiðill hefði birt pistil eftir gamalt skáld sem segði Thelmu Ásdísardóttur of ljóta til að nauðga. Enginn. En af því að hér er um karlmann að ræða þá er hlýtur það að vera í lagi. Þeir kunna að taka djóki. Ekki satt?
Karlmönnum ekki nauðgað
Guðbergur hæðist ekki einungis að Hallgrími í pistlinum - hann kvengerir hann. Sveskjusteinninn, myndlíkingin sem Hallgrímur notar í viðtali við Fréttatímann, hafi ekki gengið niður úr sálinni heldur földu móðurlífi í einskonar hommaskáp. Alvöru karlmenn geti þannig ekki orðið fyrir nauðgun, einungis konur eða hommar. Að lokum segir Guðbergur að Hallgrími yrði sennilega tekið opnum örmum í Konukoti þar sem hann gæti „unnið í sjálfum sér“. Það eru því einungis viðkvæmar, tilfinningasjúkar konur sem leita sér aðstoðar í kjölfar ofbeldis - karlmenn eru yfir það hafnir.
(Konukot er reyndar næturathvarf fyrir heimilislausar konur og því ólíklegt að Hallgrímur geti leitað þangað.)
Þessi umræða er svo sorglega skammt á veg komin. Ríkjandi hugmyndir um karlmennskuna eru enn á þann veg að fullorðnir karlmenn ættu að geta barið frá sér, komið í veg fyrir ofbeldið. Skömmin og reiðin yfir því að hafa ekki haft stjórn á ofbeldismanninum gerir karlmönnum þannig erfiðara að viðurkenna, fyrir sjálfum sér og öðrum, að ofbeldið hafi átt sér stað.
„Karlmenn verða að fá sama rými og konur til þess að ræða með einlægum hætti um kynferðisofbeldi án þess að eiga á hættu að bitrir, gamlir karlar fái óáreitt að skjóta þá niður og gera gys að þeim.“
Það er þess vegna ekki á hverjum degi sem þjóðþekktur karlmaður stígur fram og segir frá kynferðisofbeldi sem hann varð fyrir á fullorðinsárum. Í fljótu bragði man ég ekki eftir neinum öðrum. Það er ekki þar með sagt að karlmönnum sé ekki nauðgað. Hallgrímur sagði til dæmis frá því í viðtali við Stundina á laugardag að sama dag og viðtalið í Fréttatímanum kom út hafi maður faðmað hann að sér á ljóðakvöldi og þakkað honum fyrir að opna á umræðuna. Hann búi nefnilega yfir sömu reynslu.
Umræðan skiptir máli. En umræðan verður líka að vera uppbyggileg. Karlmenn verða að fá sama rými og konur til þess að ræða með einlægum hætti um kynferðisofbeldi án þess að eiga á hættu að bitrir, gamlir karlar fái óáreitt að skjóta þá niður og gera gys að þeim.
Vegið að tjáningarfrelsinu
Mikil umræða skapaðist um pistil Guðbergs á samfélagsmiðlum í gær og kölluðust þar á tvö sjónarmið. Annars vegar voru margir sem töldu að fjölmiðlar ættu ekki að birta jafn ósmekkleg skrif. Aðrir töldu hins vegar að virða ætti tjáningarfrelsi einstaklinga og að fjölmiðlar ættu ekki að ritskoða pistla. Eins og Atli Fannar Bjarkason, ritstjóri Nútímans, skrifaði á Twitter í gær: „Skelfileg skrif. En ef ég væri fastur pistlahöfundur á DV og pistill yrði stoppaður vegna innihalds myndi ég tryllast.“
Ritstjórar eiga ekki að ritskoða pistla. Því er ég sammála. En ritstjórar geta aftur á móti sett pistlahöfundum ákveðinn ramma - og þeir gera það. Þeir gefa pistlahöfundum til dæmis fyrirfram ákveðið pláss, takmarkaðan orðafjölda, sem höfundar þurfa að virða. Er það þá ritskoðun? Að sama skapi gæti ritstjóri sagt pistlahöfundi að hann hafi algjört frelsi í efnistökum, en að pistlar sem innihalda hatursáróður, ærumeiðingar eða niðrandi ummæli í garð þolenda kynferðisofbeldis verði ekki birtir. Ætti kannski að segja sig sjálft.
„Fastir pistlahöfundar fá greitt fyrir skrif sín og það er ritstjórnarleg ákvörðun að ráða pistlahöfunda til vinnu.“
Fastir pistlahöfundar fá greitt fyrir skrif sín og það er ritstjórnarleg ákvörðun að ráða pistlahöfunda til vinnu. Ritstjórar hljóta að kynna sér fyrri skrif höfunda áður en þeir eru fengnir til liðs við fjölmiðilinn og ættu því að hafa einhverja hugmynd um efnistök þeirra.
Áður en Guðbergur var ráðinn til DV hafði hann til dæmis skrifað mjög umdeildan pistil þar sem hann sagði femínisma vera „meyjarhaftavörn“ og konur sem kæra nauðgun vera með „stelpupussulæti“. Samt var hann kynntur til leiks sem einn af „skarpskyggnustu“ höfundum þjóðarinnar.
Athugasemdir