Um daginn las ég grein eftir ágætan erfðagreiningarmann. Greinin sú arna fékk mig til að hugleiða siðfágun og lesti minnar yndislegu þjóðar. En í greininni er sagt að Íslendingar séu gott fólk. Þessi fullyrðing er fullkomlega sönn og svo er hún einnig rétt. En engu að síður hlýtur maður að setja spurningarmerki við siðvit þjóðar sem er þannig saman sett að um það bil 30% hennar er fólk sem kýs flokk sem verndar hagsmuni þriggja prósenta sömu þjóðar. Og svo hafa um það bil 20% kosið flokk sem nær einvörðungu gætir hagsmuna þeirra sem sitja á þingi fyrir þann flokk og svo dregur hann að vísu taum örfárra bænda.
Við erum annars vegar að tala um flokk sem prýddur er leiðtogum sem eiga peninga í skattaskjólum, flokk sem á menn einsog Árna Johnsen, Illuga Gunnarsson og annað stórmenni. Hins vegar erum við að tala um flokk sem sættir sig fyllilega við að losna við sinn gáfaðasta þingmann, Vigdísi Hauksdóttur. Við erum að tala um flokk sem státar af leiðtoga sem laug svo miklu í einu sjónvarpsviðtali að hann vissi ekki sjálfur hvort hann hefði verið hluti af viðtalinu eður ei. Svo sagði hann þjóðinni að hann hefði verið blekktur til að ljúga. Sá maður mun fyrr eða síðar neyðast til að sætta sig við það að siðblinda kemur mönnum í koll. Hann áttar sig kannski á því smátt og smátt að ekki ríða allir menn jafn spikfeitum hesti frá svallvelli stjórnmálanna og hinn saklausi maður Finnur Ingólfsson (sem við erum öll að rembast við að reyna að gleyma).
„Ungt fólk með nýjar hugsjónir og nýja stjórnarskrá mun vinna þau verk sem erfðagreinirinn segir í grein sinni að menn hefðu með réttu átt að hafa unnið fyrir langalöngu.“
Ungt fólk með nýjar hugsjónir og nýja stjórnarskrá mun vinna þau verk sem erfðagreinirinn segir í grein sinni að menn hefðu með réttu átt að hafa unnið fyrir langalöngu. En hann er alltaf að fjasa um heilbrigðismál og er viss um að okkar ágæta þjóð geti gert betur en aðrar í þeim efnum. Fyrst og fremst vegna þess að við erum svo gott og hjartahreint fólk.
Með grein sinni tjáir erfðagreinirinn okkur að enn sé til gæska á Íslandi. Og það er auðvelt að fyrirgefa honum nokkrar litlausar rangfærslur, einsog þær að kenna vinstrimönnum um ófarir í heilbrigðiskerfinu. Ef hann hefði ekki komið þessum rangfærslum á framfæri þá hefði bara einhver annar gert það. Og þótt hið rétta sé, að það hafi yfirleitt verið samantekin ráð hjá hinu alræmda helmingaskiptaveldi að einkavæða og velta öllum kostnaði yfir á sjúklinga, þá er sú staðreynd ekki meira virði en hver önnur.
Með hlýhug hugsa ég ávallt til allra Íslendinga. Reyndar hugsa ég með hlýhug til allra manna og allra lífvera. Ég sé enga ástæðu til að dreifa þeirri hugsun að mörlandinn sé eitthvað spes. Ætli það sé ekki svo í öllum löndum að menn fyllist almennt einhvers konar sigurvegarahollustu. Og þjóð sem segist vilja jöfnuð en treystir einkahagsmunapoturum fyrir völdum, hlýtur ávallt að verða að átta sig á því að sannleikur stjórnmálamanna er bundinn við teygjanleg hugtök.
Heiðarlegir menn lofa jafnan ekki meiru en því sem þeir geta hugsanlega náð að svíkja. En stjórnmálamenn hafa þann háttinn á að svíkja jafnvel löngu áður en þeir gefa loforðin. Það fólk sem reynir að komast hjá því að svíkja aðra, ætti að hafa þann háttinn á að líta annað slagið í eigin barm og skoða hvenær það er að stunda sviksemi við eigin hugsjónir. Við vitum það öll innst inni að siðfræði er okkur öllum í hag. Siðgæði og fágað siðvit fegra manninn. Og jafnvel þótt til séu gildi sem við gefum persónulegt mat, þá eru til dygðir sem við hljótum að skoða sem ásættanlegan útgangspunkt.
Þú sem hugans virkjar vé
vilt mig á það minna
að allt hið rétta og sanna sé
í siðfræði að finna.
Athugasemdir