Stundum finnst mér einsog íslenskar illdeilur eigi sér rökrétt framhaldslíf og að hversdagsþruglinu verði ekki afstýrt frekar en innantómum umræðum um veðurfar. En mig grunaði það strax í barnæsku að Guð hefði skapað veðrið svo Íslendingar hefðu um eitthvað að tala.
Ekki bætir það stagl hvunndagsins að við virðumst alltaf velja versta fólkið til að stýra landinu. Þessi álög eru hreinlega með ólíkindum. Það virðist loða við þessa þjóð að henni sé og verði um aldur og ævi stýrt af þöngulhausum og þrasgjörnum lyddum; mannleysum sem aldrei munu hæfar til annars en að vernda eigið skinn. En þessu fólki skal það sagt til hróss, að það hefur einstaka hæfileika til að gæta þess fjár sem ættir þess hafa sankað að sér með klókindum, auk þess sem þetta fólk lifir og hrærist í þeirri guðs blessun að vera fastheldið á eigur annars fólks og einstaklega gjafmilt á annarra manna fé.
„Það virðist loða við þessa þjóð að henni sé og verði um aldur og ævi stýrt af þöngulhausum og þrasgjörnum lyddum; mannleysum sem aldrei munu hæfar til annars en að vernda eigið skinn.“
Þeir sem láta vitleysingja stjórna lífi sínu, munu með einum eða öðrum hætti ramba í foraðið, lenda í ógöngum og jafnvel brenna þær brýr sem nauðsynlegastar þykja til farsællar framgöngu.
En það er til önnur leið. Við getum látið visku færa okkur farsæld og við getum treyst okkur sjálfum til að gera samfélagið betra en það er. Og þá er fyrsta regla okkar fólgin í því að hætta að leyfa misvitru stórmenni að etja okkur saman einsog hýenum sem berjast um bráð. Við eigum nefnilega þann kost að semja; gera með okkur samning sem tryggir öllum betra líf. En í stað þess að setja alltaf upp leiksýningu illdeilna, t.d. með því að láta stjórnvöld stýra óánægjunni og halda hverjum einstaklingi í greipum gremju og ótta, getum við neitað að trúa því að klisjur hins pólitíska kjaftæðis séu einhvers virði. Ef við viljum, þá getum við samið um hámarkslaun og lágmarkslaun. Við getum byggt upp samfélag þar sem ánægja kemur í stað óánægju. Pólitík er samsæri gegn siðmenningu. Þjófar, lygarar og aðrir misyndismenn hafa þar völd. Og það er auðvelt að fyrirgefa þeim fíflalætin öll, vegna þess að þeir vita bara ekki betur.
Í stað þess að leyfa hinni heimsku hjörð að stýra hugsunum okkar til illdeilna á markaði atvinnulífsins (sem er í raun og veru skrúðmælgi sem merkir „lífsvon“), þurfum við kjark. En lífsvon okkar er í raun og veru bundin trúnaðarsambandi sem tengir einstaklinga við aðra einstaklinga og myndar þannig samfélag. Lífsvon okkar er kölluð ýmsum nöfnum undir merkjum orðhengilsháttar. En þetta er gert til þess að skipa fólki í andstæðar fylkingar. Staðreyndin er hins vegar sú, að við erum öll í sama félaginu – samfélaginu. Við eigum í raun og veru aðeins einn kost; að setjast niður og hefja rökræður. Við verðum að gleyma morfísbullinu, loka eyrunum fyrir áróðri sundrungar og byggja okkur betra líf, þar sem lífsvonin sjálf er grunnur einhvers sem við seinna getum kallað samfélagssáttmála.
Á líðandi stundu er sjálfið hin sígræna hrísla
ef sættir fá framtíðarótti og gremja sem var
því sannleikans vindar fá eilífum orðum að hvísla
til allra sem vilja í núinu finna sitt svar.
Athugasemdir