Sú orðaafbökun sem í titlinum birtist, er kannski nýyrði á prenti en ég held samt að ég hafi notað þetta orð áður. Það hefur beina vísun í „katastrófu“ en minnir um leið á það sem kallað hefur verið „að smala köttum“ eða eitthvað í þeim dúr.
Engri kattastroffu þarf að flagga þegar við fögnum nýjum forseta. Enda segir mér svo hugur að Guðni Th. muni standa sig með stakri prýði í embætti. Hann mun rita hér góða sögu lands og þjóðar. Eitt var það þó í innsetningarræðu hans sem fékk mig til að setja af stað þankaröð í anda sagnfræðinnar. Ekki er við forsetann að sakast. En það var þegar hann nefndi kosningar í haust. Og það er þetta loforð um kosningar sem er eflaust að flækjast fyrir fleirum en mér.
Nú verð ég að gauka að ykkur stuttum aðdraganda: Þannig er að ótíndir stjórnarherrar, með einhvers konar forsætisráðherra í fylkingarbrjósti, lofuðu æstum lýðnum kosningum í haust. Þetta var sem sagt eftir hávær mótmæli á Austurvelli. En í téðum mótmælum var þess krafist að þinglið vort færi heim án tafar. Enda sýndi sagan að þrotabú þankanna væri komið á ystu nöf þar á bæ.
Núna er þetta loforð skyndilega háð því að ótilgreindur verkefnalisti og samþykktir gjörninga ríkisstjórnarinnar liggi því til grundvallar. Nú ætlar ríkisstjórn spillingarinnar að smala köttum og gefa þjóðinni langt nef. Það sem hangir á spýtunni er að vinna tíma. Já, vinna tíma. Tími er það dýrmætasta sem menn eiga þegar köttum skal smalað. Það þarf að vinna tíma til að fá fólk til að gleyma, það þarf að vinna tíma til að reyna að koma í veg fyrir að þau öfl sem breyta vilja stjórnarskránni og skapa hér réttlátara samfélag fái ekki allt það fylgi í kosningum sem skoðanakannanir hafa lofað. Það þarf að vinna tíma til að sópa leiðindum og falsi undir mottur. Það þarf að fela slóð þeirra ráðherra sem enn burðast með óhreint mjöl, vinna tíma til að segja góðar sögur af afrekum þeirra.
Reyndar er það nú svo í ríki kattastroffunnar, að óhreint mjöl, siðblinda, svindl, lygar, fals, blekkingar, þjófnaður og annað slíkt er fyrirgefið í formi afskrifta og menn eru fljótir að njóta lýðhylli ef þeir hafa náð að fela fé og gera skattgreiðendur að þrælum. Kattastroffa okkar er ekki hengd um háls þingmanna og ráðherra, hún er af sjálfviljugri þjóð hengd um háls allra sem líta upp til þeirra sem sagðir eru ríkir. Smeðjuhátturinn sem virðist vera inngróinn og húðflúraður á heilabörk hins íslenska þræls er fremur í ætt við eðlishvöt en áunninn löst.
Ef ég þekki okkur rétt þá munum við mótmæla einhverju. En svo munum við kyngja því litla sem eftir er af stoltinu. Og umvafin himneskum bláma fánans munum við fyrirgefa og sætta okkur við þá klafa sem á okkur eru lagðir.
Ávallt þykist þjóðin frjáls
sem þráir góðar sögur,
hún hengir ól um eigin háls
svo æðrulaus og fögur.
Athugasemdir