Flest þeirra orða sem við segjum eina stundina að séu í tíma töluð verða innantómt gjálfur örskömmu síðar og hafa þá bæði misst vængi og stél. Og við sem vorum svo heimsk að spá þeim eilífu flugþoli.
Um daginn hitti ég konu. Þetta var í Kolaportinu. Reyndar minnist ég þess ekki að hafa spurt um líðan hennar eða hagi. Og þegar ég skoða hug minn allan þá man ég ekki hvernig hún var klædd. Ég er ekki einu sinni viss um að ég muni eftir útliti hennar. Ég held þó að ég muni það að kona þessi hefur fallega rödd. Allavega man ég margt af því sem hún sagði. En það er vegna þess að hún eyddi nær öllum ræðutíma sínum í að mæra mig. Í fyrstu talaði hún fallega um ljóð mín, þá ræddi hún um að ég ætti að fá Fálkaorðuna og svo hafði hún orð á því að ég ætti að bjóða mig fram í embætti forseta Íslands. (Reyndar man ég það núna að konan var í svartri regnkápu og á henni voru hvítar, hringlaga doppur). En ég rifja upp orð konunnar til að benda á veikleika mína. (Reyndar skilst mér að ég sé ekki alveg einn um þann svokallaða löst sem hér um ræðir). Og ég rifja einnig upp orðin vegna þess að nú er komin fram enn ein horgusan sem sýnir okkur mátt tjáningarfrelsisins. En nú er það ekki hommafóbían sem tröllríður öllu heldur gagnrýni á umtal karlmanna af reynslu sinni af misnotkun.
„En nú er það ekki hommafóbían sem tröllríður öllu heldur gagnrýni á umtal karlmanna af reynslu sinni af misnotkun.“
Auðvitað á forsagan sér upphafsreit í átökum einfrumunga eða í árekstri agna – ef hægt er yfir höfuð að tala um nokkuð upphaf. En í seinni tíð hefur ýmiskonar gjamm verið afar áberandi. Og það fer þannig fram, að menn sem í mestu hógværð hafa hugsað sér að leysa vind, eru búnir að drulla uppá þak áður en þeir vita af. (Þetta subbulega orðalag er hér notað sem dæmi). En í og með eru menn ávallt að keppast um að fá athygli og í þeirri athyglisþörf er oftar en ekki falin krafa um meðaumkun, samúð, hlýhug, vorkunn eða önnur fögur gildi. Þannig höfum við ýmist verið dregin á asnaeyrunum að því að vorkenna sjómannalagahöfundi sem ekki þolir að sjá krúttleg rassgöt í skrúðgöngu, eða teymd að því að vorkenna krúttlegum rassgötum í skrúðgöngu sem ekki þola grenjandi sjómannalagahöfund. Í leit að frægð hótar stelpukjáni nauðgun með tjaldhæl og netheimar blómstra einsog bakteríugróður á yfirborði holræsis. Við höfum verið dregin að þarmopum íslenskrar tungu, að haugsugum heimskunnar, að hátindum hrokans og að Mímisbrunnum munnræpunnar. Og allt er þetta gert til þess að við – saklausir borgarar – getum áttað okkur á því að tjáningarfrelsið er manninum nauðsynlegt. Öll flóra piss- og prumpbrandara er sönnun þess að við erum á réttri leið.
Orð í tíma töluð eru einsog orðin sem rituð voru í Tímann, málgagn þjófafélags Framsóknar, orð sem fólk reynir að gleyma sem allra fyrst.
Við erum kannski fyrst og fremst sköpuð til að velta okkur uppúr botnfallinu. Að leita að hinum seku er leiðin sem við förum um leið og við reynum að komast hjá því að virða það sem vel hefur verið gert. Og við getum verið viss um það að öll orð okkar munu gleymast. Vegna þess að ekkert varir að eilífu nema eilífðin sjálf.
(Kannski var regnkápan hvít með svörtum doppum. Eða kannski var konan ekki í neinni regnkápu. Ég man þó allavega eftir inntaki orðanna).
Orðsnilldin er söm við sig,
sífellt magnast gengi
og þeir sem vilja mæra mig
mega tala lengi.
Athugasemdir