Einn góðan veðurdag sat ég hjá deyjandi manni sem hafði tamið sér hógværð, hann var orðvar og vandaður í allri framgöngu. Þetta var reyndar nokkrum dögum áður en hann dó.
Stundum er óþarfi að muna nöfn og rifja upp setningar sem geyma djúpstæða visku og einhvern kjarna sem virðist gefa lífinu meira gildi en okkur tekst að höndla í amstri dagsins. En viskan sem þessi maður lét okkur í té með einu orði eða jafnvel með langri þögn, er meira virði en öll þau orð sem falla af vörum manna sem kaupa sér virðingu með loforðum sem eru svikin áður en þau eru sýnd.
„Stundum langar okkur að hitta einhvern, bara einhvern, sem getur sagt okkur að við séum einhvers virði.“
Ég veit það, að þessi vitri maður mun fylgja mér hvert fótmál, ég veit að gæska hans mun reyna að finna sér stað í hjarta mínu og ég veit að sú leið sem hann varðaði mun reynast okkur öllum greið þegar við áttum okkur á því að hún er hin eina rétta.
Núna þegar þessi maður er dáinn og grafinn, verður mér hugsað til alls hins einmana fólks um veröld víða, fólksins sem þjáist og virðist ekki eiga hina daufustu vonarglætu. Mér verður hugsað til alls þessa fólks sem hefur verið neytt til að hlusta á hjóm hinna misvitru herra sem troða fagnaðarerindum sínum í sálir sem einungis þurfa vatn, brauð og visku.
Á meðan ég sat við skrifborð mitt og var að velta því fyrir mér hvernig mér mætti takast að rita örfá orð um einn göfugasta mann sem ég hef kynnst, þá hringdi til mín kona ein. Saga hennar er þess eðlis að ég get vart hugsað um hana ógrátandi. Kona þessi hringir stundum til mín og leyfir mér að frétta af raunum sínum, leyfir mér að heyra af manni sem skildi hana eftir í eymd og volæði, manni sem braut allar reglur, sniðgekk allt réttlæti og kramdi það hjarta sem vildi einungis sýna blíðu. En þennan dag fékk þessi kona mig til að hugleiða það hvernig við höfum lært að reyna að láta dauða og myrkur eyða þeim þrótti sem er þó þess eðlis að honum fær ekkert grandað. Tenging okkar við náttúruna er með þeim ólíkindum, að hún er og verður. Ekkert mun fá henni grandað, svo lengi sem hin smæsta tíra titrar í brjósti. Það er í okkar verkahring að átta okkur á gildum lífsins.
Stundum er einsog eitthvað vanti, einsog við þráum einhvern sem eytt getur einsemdinni, stundum langar okkur að hitta einhvern, bara einhvern sem getur sagt okkur að við séum einhvers virði. Okkur langar að sitja í kyrrð hjá lygnu sálardjúpi og heyra fögur orð, okkur langar að skynja það sem lokuð augu sjá.
Allt sem reynist ekki rétt
mun eld þinn láta dvína
en það sem gerir lífið létt
er ljós sem fær að skína.
Athugasemdir