Það er nú svo merkilegt, þetta með læsið. Við kennum börnum landsins lestur. En svo kemur í ljós að einhverjir einstaklingar eru nánast ólæsir þegar skólaskyldu lýkur. Já, er þetta ekki merkilegt?
Gefum okkur að þetta sé satt. Segjum sem svo að nokkrir nemendur í hverjum árgangi komist í gegnum skyldunámið án þess að ná fullri færni í lestri. Ef þetta er rétt og þeir nemendur sem þannig er ástatt um eru ekki lesblindir eða finna til annarra krankleika sem koma í veg fyrir að þeir geti tileinkað sér þá færni sem krafist er, þá bendir allt til þess að eitthvað vanti. Kannski höfum við ekki farið rétt að, ekki fundið réttu lausnirnar.
Annað atriði sem má segja að kannski sé í ólestri – ef eitthvað er að marka þá sem best til þekkja – er sú staðreynd samskiptahæfni virðist í sumum tilvikum vera af skornum skammti hjá ungviði landsins. Þetta kemur t.d. fram í einelti, ókurteisi og ólund af ýmsum toga. Og kemur kannski gleggst fram í óhróðri og ömurlegu orðavali sjálfskipaðra álitsgjafa, sem láta fávisku sína skína á öldum ljósvakans. Þeir eiga oftar en ekki margt ólært sem lýtur að íslenskri tungu og almennri kurteisi.
Gefum okkur að þetta sé bæði satt og rétt
Ég er viss um að skólakerfið á Íslandi sé í flestum atriðum nánast fullkomið. En þó sýnist mér að benda megi á brotalamir. Og það sem meira er; hér má benda á leiðir til úrbóta. Og lykilorðið er „heimspekikennsla“. En í þessu efni hef ég fyrst og fremst eina leið í huga. Sú leið felst í því að byrja heimspekikennslu strax í leikskóla. Síðan þarf að kenna ungviði siðfræði, frumspeki og þekkingarfræði; kenna þeim að spyrja spurninga, rökræða og leita svara. Með slíkri kennslu öðlast börn þá grunnþekkingu sem síðan er rétt að byggja á. Og það sem byggja skal næst er tungumálanám. En um leið og færni talaðs máls er að verða viðunandi er rétt að kenna lestur og stærðfræði. Og þegar kemur að lestri er auðvitað réttast að leggja áherslu á skilning. En einnig þarf að gefa hrynjandi og gildi orða vægi. Stærðfræðinámið á síðan í fyrstu einkum að snúast um það að kenna börnum aðferðir og hugtök sem nýtast þeim sem huglæg mælitæki.
„Þá er spurning hvort viskuástin, hið fegursta gildi mannlegrar hugsunar, sé ekki örugglega réttasta leiðin.“
Ég hef hugsað þessi mál lengi og rætt þessi atriði við fjölda manns sem lætur sig varða hag þjóðarinnar, fólk sem skoðar hið mennska sem mikilvægasta þátt okkar en gefur lítið fyrir hin svokölluðu veraldlegu gæði þegar kemur að því að gefa lífinu einkunnir. Við verðum að hlú að börnunum okkar. Og þá er spurning hvort viskuástin, hið fegursta gildi mannlegrar hugsunar, sé ekki örugglega réttasta leiðin. Að kenna heimspeki sem grunn; að gefa lífinu gildi strax frá fyrsta skrefi hlýtur að vera réttasta ferlið sem í boði er og sú aðferð sem brúklegust hlýtur að reynast.
Það er ekki til neins að stilla barni upp framan við tölvu og ætlast til þess að menntun og mannleg gildi verið til af vélrænum hreyfingum fingra á lyklaborði eða snertingu við tölvuskjá. Heimur hins mennska kemur ekki til okkar í gegnum sýnd sem gerir fátt annað en eyða þeirri reynd sem veruleiki okkar birtist í. Hið mennska býr í visku og snertingu við heiminn.
Leyfum börnunum að læra heimspeki og bönnum þeim það ekki.
Vísdóminn má varla spara
er virkja börnin huga sinn
og heimspekin er, held ég bara,
hérna besti kosturinn.
Athugasemdir