Það er víst til siðs þessa dagana að taka virkan þátt á samfélagsmiðlum. Þar er nauðsynlegt að sýna hvað maður er að gera og sjá hvað aðrir aðhafast. Það er einsog alltaf sé verið að segja okkur að við séum að missa af einhverju, að líklega hefði verið betra að vera þar en hér. Við sem erum skáld og höfum fátt annað en bundið mál að flíka verðum að sætta okkur við að vera til hlés í fárinu öllu. En ef maður á því láni að fagna að vera heimspekilega þenkjandi, setur maður dæmið upp með þeim hætti að annaðhvort geti maður aldrei misst af neinu eða þá að maður sé í raun og veru alltaf að missa af öllu nema því sem maður tekur þátt í hverju sinni. Ég er þá að missa af öllu sem er að gerast nema akkúrat því að sitja við tölvu og skrifa pistil. En ef ég væri að gera eitthvað annað þá myndi ég missa af því að skrifa það sem ég set á blað hér og nú.
Það sem ég er að fara með þessu er kannski langsótt fyrir þá sem ekki þekkja til mín. En svo eru þau hin sem átta sig á því hvert ég er að fara. Heimsmyndir okkar virðast hverfast um ímyndir, fullkomna líðan og lýtalaust útlit. Dýrkun hins óaðfinnanlega manns er afar einkennandi fyrir þær myndir sem við sýnum af okkur og sjáum af öðrum. Hér er ég að reyna að alhæfa ekki, nefni bara þennan áberandi rauða þráð sem við okkur blasir. Og þá kem ég mér að kjarna málsins.
Af mér birtast myndir og fólk veitir því eftirtekt sem á myndunum birtist. Þannig að ef ég er grannur og flottur á einni myndinni þá fær myndin helling af lækum og fólki líkar við það sem það sér. Og svo koma komment: –Helvíti er skáldið orðið slank!
„Svo koma komment: – Helvíti er skáldið orðið slank!“
Svo koma spurningar og ég svara þeim. Ég er spurður út í mataræði og hreyfingu, hvar ég fari í ræktina og hvernig próteindufti ég mæli með. En þegar kemur að öllu þessu fræðilega varðandi heilsufar, líkamsdýrkun og útlitsupphafningu, þá er ég einsog umbúðalaus aukabúnaður. Ég hef akkúrat enga tilfinningu fyrir því sem þetta snýst allt um. En satt er það að ég léttist í fyrra og það gerðist með afar einföldum hætti.
Hér verð ég að vísu að taka fram að ég hef áður ritað um mataræði mitt en í það skipti sem mér er hugstæðast ritaði ég um að minnka matarskammta.
Það sem ég ákvað að gera fyrir um það bil ári síðan var að hætta að drekka mjólk, hætta að drekka djús, hætta að borða brauð og minnka sykurneyslu allverulega. Og við þetta hef ég staðið.
Ég hef kannski aldrei náð því að vera verulega vambsíður en krúttlegri bumbu hef ég náð að ota að ókunnugum sem og þeim sem eitthvað vilja við mig kannast. En það er þetta með vömbina sem fær mann til að hugsa annað veifið. Og þessar pælingar fá mann til að taka eftir því sem skrafað er. Þannig að eftir áralanga glímu við aukakíló erum við öll uppfull af fróðleik um óhollustu og við getum öll sem eitt vitnað í spekúlanta sem segja að brauð sé hættulegt, að sykur sé eitur og að kók sé hollara en mjólk. Við getum bent á rannsóknir sem sýna að sykur sé einsog fíkniefni, að neysla sykurs margfaldi lyst okkar og auki matarþörf. Við getum öll sem eitt bent á fólk sem hleypur tugi kílómetra í viku hverri, fer í ræktina fimm sinnum í viku, en er engu að síður að burðast með brauðklafa, djúsbelg og mjólkurskvap.
Nú hafa gárungarnir ákveðið af yndislegri gamansemi að kalla þennan kúr minn Kristjáns-kúrinn. (Bandstrikið er nauðsynlegt til að leggja áherslu á stuðlunina og svo eins til þess að ekki verði talað um Kristjánsskúrinn). Þessi kúr segir mér að ég þurfi helst að ganga nokkrum sinnum í viku, en að öll meiriháttar brennsla sé fullkomlega óþörf. Ég get áfram fengið að láta kenningar mínar um nauðsyn letinnar njóta vafans. En það er fæðið sem þetta snýst um: Ég borða ekki brauð, ég drekk ekki mjólk, ég forðast ávaxtasafa og aðra sykurleðju og ég reyni að forðast hvítan sykur og yfirleitt allt sem inniheldur sykur í óhófi.
Þetta er alveg skelfilega einfalt. Svo einfalt er þetta að ég léttist um 16 kíló á nokkrum mánuðum og það sem meira er, ég léttist um nær fimm kíló yfir jólin í fyrra. Og skar þó neyslu ekki við nögl.
Kúrinn minn er fyrir fólk,
flestar lífsins vikur:
Ekkert brauð og engin mjólk,
ekki djús og sykur.
Athugasemdir