Rúanda er lítið land í austurhluta Afríku. Þangað var mér boðið að fara í janúar 2016 með samtökum sem heita á íslensku Tónlistarfólk án landamæra en þau sérhæfa sig í að vinna í tónlist með fólki sem býr við erfiðar aðstæður eða í samfélögum þar sem ríkt hafa styrjaldir.
Í þessu tilfelli fórum við til þess að hitta fólk frá Búrúndí – sem býr í flóttamannabúðum í Rúanda. Hlutverk okkar, sem fórum á vegum þessara samtaka, var að veita ráðgjöf og aðstoð varðandi tónlistarkennslu í flóttamannabúðunum, sem gerir daglegt líf barna sem þar búa örlítið bjartara.
Snyrtilega Kigali
Höfuðborg Rúanda, Kigali, er líklega ein af snyrtilegri borgum sem ég hef komið til í Afríku og ein af þeim snyrtilegri sem ég hef yfirleitt komið til. Allt skipulag virðist til fyrirmyndar og stjórn landsins hefur lagt mikið upp úr því að byggja landið upp eftir þjóðarmorðin sem áttu sér stað árið 1994. Þessi útlitslega fegurð borgarinnar og einstaka kurteisi fólksins er einlæg tilraun til að vinna sig út úr þessum atburðum. Þó varð mér fljótlega ljóst að sárin eru langt frá því gróin, samfélagið flókið, og að fréttir um atburðina sem bárust til okkar í vestræna heiminum eru einhliða og ekki allur sannleikurinn og fékk fullt af upplýsingum sem ég annars hefði aldrei fengið.
Það er mikið af uppbyggilegum verkefnum í gangi í borginni og ljóst að flestir vilja gleyma og horfa fram á við þótt það sé afar erfitt í ljósi þess að stutt er liðið og allir eiga sögu tengda þessum atburðum.
Fyrir utan Kigali, nálægt landamærum Tansaníu, er lítið þorp. Þangað fórum við sem störfuðum á vegum samtakanna, til þess að hitta hópinn frá Búrúndí.
Hláturinn úr flóttamannabúðum
Ég vissi ekki á hverju ég átti von en bjó mig undir að hitta fólk sem þurfti uppörvun og hvatningu – innblástur. Þegar ég fyrsta morguninn beið eftir að bílarnir með fólkinu kæmu til okkar heyrði ég tónlist úr fjarska, söng og hlátrasköll. Ég var ekki fyrr búin að átta mig á því, að hljóðið barst frá bílunum sem flutti fólkið til okkar, en fólkið hópaðist út úr bílunum, dansandi og hlæjandi og gaf okkur öllum hlýtt og þétt faðmlag. Þannig var þetta á hverjum morgni í viku. Þau tóku með sér orku sem maður upplifir sjaldan.
Dagarnir einkenndust af tónlistarvinnu og verkefnum sem allir einbeittu sér að 100%. Virkilega var gaman að sjá hversu mikið allir kunnu að meta hver annan og kunnu að meta þá vinnu sem unnin var. Engin mörk voru á milli okkar – engu máli skipti úr hvaða aðstæðum fólk var að koma – allt snerist um samvinnu. Enginn spurði spurninga um hver þú værir, hvaðan þú kæmir eða hver þinn bakgrunnur væri. Við komum þarna saman, unnum að verkefnunum og nutum tónlistarinnar og vinnunnar saman. Allir lærðu af öllum. Að vinnudegi loknum kvaddi fólkið á sama hátt og það kom, með innilegu orkumiklu faðmlagi. Þau sungu og hlógu þar til þau voru úr augsýn.
Allt aðrar aðstæður fólksins
Einn daginn ákváðum við að fylgja hópnum heim. Við keyrðum á eftir þeim og vildum fá hugmynd um hverjar þeirra aðstæður væru og heimsækja þeirra heimaslóðir. Þegar við nálguðumst sáum við reipi við enda vegarins sem afmarkaði flóttamannabúðirnar. Við vissum að það væri lokað, en að koma þangað og sjá aðstæðurnar var undarlegt. Hver og einn af okkar samstarfsfólki frá Búrúndí skráði sig inn í búðirnar og var eins og númer á blaði – eða eins og fangi – en ekkert af okkur hinum, sem unnum fyrir samtökin, fengum að koma nálægt. Vinir okkar máttu ekki bjóða okkur „heim“ til sín.
Allt í einu voru komin skýr mörk á milli okkar. Við tókum mynd af vinum okkar í hugsunarleysi en þá komu tveir lögreglumenn hlaupandi að og þvinguðu okkur til þess að eyða þessum myndum. Allt þetta eru reglur sem þarf að lúta en þetta var í eina skiptið þar sem einhver landamæri skildu okkur að.
Næsta morgun var þó hægt að leggja allt til hliðar og einbeita sér að því að vinna saman aftur og deila tónlist, deila innblæstri og hugmyndum, með því að einbeita okkur að því sem tengdi okkur saman og sameinaði okkur.
Samvinna óháð aðstæðum og uppruna
Það er magnað að upplifa það að fólk sem býr við svo ólíkar aðstæður, eins og við gerum, geti unnið svo náið saman að sameiginlegu markmiði, áhyggjulaus, með gleði og umburðarlyndi.
Lokahluti námskeiðsins var sá að aðstoða samstarfsfólk okkar við tónlistarviðburði inni í flóttamannabúðunum. En þar sem við fengum ekki leyfi til þess að fara inn í búðirnar þurftum við að finna nýja leið til þess að halda þennan viðburð. Það er ekki hægt að segja annað en að vinir okkar frá Búrúndi hafi tekið málin í sínar hendur. Þau fóru út í þorpið þar sem við gistum, tóku útvarp, þau örfáu hljóðfæri sem við höfðum og alla sína orku, dans og söng og söfnuðu saman 100 börnum og unnu með þeim allan morguninn fram yfir hádegi að þeim verkefnum sem þau höfðu skipulagt. Að sjá þessa samvinnu og staðfestu að láta hlutina ganga upp, með gleðina og orkuna að vopni, var aðdáunarvert. Allt gekk eins og í sögu og er óhætt að segja að börnin í þorpinu hafi einnig upplifað eitthvað einstakt. Það var með trega að við næsta dag kvöddumst og afhentum samstarfsfólki okkar áfangaskírteini.
Vinir okkar fóru til bakaí hinar erfiðu aðstæður sem þeir búa við – en halda ótrauðir áfram að vinna að tónlist í flóttamannabúðunum og lífga upp á tilveruna þar. Það er ekki annað hægt en að dást að kraftinum, hæfileikunum og þrautseigjunni sem fólkið býr yfir og því hvað tónlist og máttur hennar getur gert – að efla andann og sameina fólk.
Athugasemdir