Við römbuðum inn á eitt subbulegasta kaffihúsið í Ninh Binh, Víetnam. Klósettið var skítugt, veggirnir gráir og hver kaffisopi eins og að sleikja sígarettustubb. Þjónninn yppti bara öxlum þegar við reyndum að útskýra fyrir honum að kaffið væri ekki drykkjarhæft; hann skildi ekki ensku. Við leituðum á náðir google translate og þá brosti hann út að eyrum og svaraði því til að kaffið væri „gómsætt“. Samt lét hann okkur aðeins greiða fyrir tvo bolla í stað fjögurra.
Þegar út var komið settumst við upp á vespurnar tvær sem við höfðum leigt út daginn. Vanalega deildu pör hjóli, en nú ákváðum við, eflaust hálfrugluð eftir misheppnaða hressingu á kaffihúsinu, að ég sæti aftan á hjá vinkonu minni og kærastarnir okkar deildu hjóli.
Við höfðum ekki ekið langt þegar við sáum mann bruna glæfralega á móti okkur. Umferðin var svo þétt að það var hvorki hægt að beygja til hægri né vinstri. Eina leiðin til að koma í veg fyrir árekstrur var að nauðhemla. Ég flaug af hjólinu en vinkona mín festist undir vespunni. Þegar ég rankaði við mér fann ég fyrir stingandi verk í mjöðminni. Strákarnir hömuðust við að draga vespuna af fæti vinkonu minnar, sem orgaði og æpti af sársauka. Fólk flykktist saman í kringum okkur og starði líkt og við værum dýr í sýningarbúri. Maðurinn sem hafði ekið á móti umferð leit á okkur, uppglenntum augum, og flúði svo af vettvangi – við sáum hann aldrei aftur. Það fossblæddi úr fæti vinkonu minnar og sjálf engdist ég um af sársauka. Strákarnir kölluðu: „Call for an ambulance!“ en enginn skildi orð í ensku. Eina ráðið var því að „stökkva“ upp í leigubíl sem átti leið hjá.
„Strákarnir reyndu að bjarga málunum en við vinkonurnar lágum vankaðar á grjóthörðum járnbörum og störðum upp í loftið sem var þakið mygluskán.“
Við fengum bókstaflega engar móttökur þegar við komum loks á næsta spítala. Kannski var um einhvers konar „sjálfsafgreiðsluspítala“ að ræða? Strákarnir tóku að sér hlutverk sjúkraliða og sóttu börur fyrir okkur. Eins og vænta mátti skildi enginn neina ensku. Strákarnir reyndu að bjarga málunum en við vinkonurnar lágum vankaðar á grjóthörðum járnbörum og störðum upp í loftið sem var þakið mygluskán. Eftir um tveggja tíma bið kom í ljós að sauma þurfti í hnéð á mér og í ökklann á vinkonu minni. Við vorum heldur órólegar og þá sérstaklega í ljósi þess að læknirinn virtist ekki skilja einlæga ósk okkar um að fá deyfingu. Enn var síminn dreginn upp og þýðingar google nýttar. Varð læknirinn þá loks við óskum okkar um deyfilyf. Hann hafði litla sem enga hæfileika þegar kom að því að sauma fyrir sár og brýndi ítrekað fyrir vinkonu minni, skælbrosandi, að hún yrði að „fara sem allra fyrst til lýtalæknis“ til að láta lagfæra þessi skelfilegu vinnubrögð hans. Eftir talsverð öskur og óp vorum við fluttar í herbergi með nokkrum járnrúmum og skildar þar eftir í algjörri óvissu.
Strákarnir skutust út að sækja mat handa okkur og því biðum við einar og ráðalausar. Við hugsuðum um hlýju rúmin okkar heima á Íslandi. Í herberginu var gluggi án gluggatjalda svo að annað fólk spítalans gat fylgst með okkur – sem og það gerði. Á innan við tíu mínútum safnaðist saman hópur forvitinna manna sem góndu blygðunarlaust inn um gluggann hjá okkur. Slasaðar, hvítar stelpur voru greinilega gott skemmtiefni á sunnudagssíðdegi.
Þegar við höfðum legið þarna í rúma klukkustund birtust tvær hjúkkur með risastórar nálar. Hvorug talaði ensku og því fengum við engar upplýsingar um innihald sprautanna. Ég fékk vægt taugaáfall, sem leiddi til þess að önnur hjúkkan sótti símann sinn og leyfði mér að skrifa inn í þýðingarforritið hvað það væri sem angraði okkur. Þannig fengum við skýringar á sprautunum sem innihéldu varnir gegn stífkrampa og HIV en einnig sýkla- og verkjalyf. Þegar hjúkkurnar höfðu skilað í æðar okkar innihaldinu úr fjórum sprautum birtist læknirinn og krafðist þess að við borguðum fyrir allar þessar fínu sprautur. Enn bólaði ekkert á kærustunum okkar, sem höfðu tekið alla peningana okkar með sér. Það var ískalt í herberginu og við fengum hvorki teppi né aðrar ábreiður. Þegar strákarnir sneru loks aftur fengum við góðar og slæmar fréttir ... Vespunni (sem við skildum eftir á vettvangi slyssins) hafði verið stolið!
Eigandi hótelsins okkar var svo almennilegur að bjóðast til að annast okkur næstu daga, á meðan sárin greru, eða um leið og við losnuðum af spítalanum. Það varð ekki strax. Hjúkkurnar, eða „vélmennin“, eins og við kölluðum þær, héldu áfram að ganga inn til okkar vélrænum skrefum og sprauta okkur fjórum sinnum á dag. Það var eina þjónustan sem við fengum. Og svo birtist læknirinn skömmu síðar, ákveðinn á svip, og krafðist þess að fá borgað fyrir sprauturnar. Sprauturnar komu okkur alltaf í hálfgerða vímu og því gerðum við lítið annað en að hlæja eða sofa!
Læknarnir gáfu okkur varla nein önnur svör en þau að við yrðum að vera lengur! Við vorum orðnar svo ósáttar og reiðar að við heimtuðum að fá að fara til Hanoi, höfuðborgarinnar. Í fyrstu ætlaði læknirinn ekki að samþykkja það, en gerði það þó að lokum þegar hann komst að raun um hvað hann réði illa við okkur ungu konurnar! Enda komust við að því í Hanoi að sprauturnar sem við höfðum fengið höfðu engin áhrif á sár okkar! Að öllum líkindum hefur aðeins verið um peningaplott að ræða.
Asíski afi okkar (eigandi hótelsins) sótti okkur og flutti aftur á hótelið. Vespan hafði fundist; lögreglan, sem maður hefði haldið að væri með manni í liði, hafði tekið hana. Yfirvöldin höfðu þó ekki í hyggju að afhenda hana fyrr en við gæfum út yfirlýsingu um að slysið hefði verið okkur að kenna en ekki manninum sem keyrði á móti umferð. Fjölmörg vitni fullyrtu í lögregluskýrslum að við hefðum dottið fyrir eigin klaufaskap og að enginn annar hefði verið á veginum ...
Asíski afi okkar leysti úr málinu en hann hafði áður starfað sem vegalögregluþjónn. Við endurheimtum vespuna og komumst einnig yfir upptöku af lögregluþjónum sem sögðu vitnum að ljúga til um slysið. Asíski afi okkar lét okkur ekki borga fyrir skemmdir á hjólinu. Við treystum honum vel og þökkuðum fyrir alla þá hjálp sem hann hafði veitt okkur.
Við hefðum lítið getað gert án hans hjálpar og dætra hans. Áður en við héldum til Hanoi vildi hann endilega að vinur sinn, læknir á eftirlaunum, liti á okkur. Við samþykktum það og þökkuðum hugulsemina. Þegar við komum til vinarins vorum við færðar inn í bílskúr með fölgrænum og skítugum veggjum og hörðum járnbörum. Í dyragættinni stóð fimm manna fjölskylda læknisins og fylgdist grannt með öllu sem fram fór. Lýsingin var óþægileg, allt var skítugt og læknirinn sjálfur ekki beint traustvekjandi. Hann reif hranalega af mér umbúðirnar, þrátt fyrir að þær lægju nánast fastar við sárið. Á þessari stundu var ég gjörsamlega búin að fá nóg og fullyrti að nú væri komið nóg.
Við flúðum um leið og færi gafst til Hanoi, en knúsuðum asíska afa okkar í kveðjuskyni. Það er það síðasta sem ég man úr þessu ævintýri; faðmlag við góðan og hjálpsaman, gamlan mann, hrjúfa skeggbroddana sem nerust við kinnina á mér.
Athugasemdir