Við ákváðum að fljúga frá Lima til Puerto Maldonado sem er rétt við Amazon-skóginn, í stað þess að taka 26 klukkustunda rútuferð á lélegum vegum. Við vorum mættar frekar snemma út á flugvöllinn í Lima, þannig að það var alls ekki mikið af fólki þar. Á meðan innrituninni stóð tókum við eftir því að starfsfólkið lá yfir tölvuskjánum og ræddi saman á spænsku. Svo komu fleiri starfsmenn að og fylgdust vel með okkur. Við stóðum þarna frekar vandræðalegar og biðum eftir því að fá vegabréfin okkar aftur. Þegar við fengum þau loks aftur í hendurnar var okkur um leið sagt að fara aðeins að ræða við lögregluna. Við ættum að elta einn starfsmanninn, sem hafði tekið báða bakpokana okkar með sér. Við höfðum aldrei lent í svipuðum aðstæðum áður og vissum ekki hvað var í gangi, svo við eltum starfsmanninn yfir þveran flugvöllinn þar til við komum loks að skrifstofu lögreglunnar.
Trúðu ekki á Ísland
Þegar við gengum inn mætti okkur hópur lögreglumanna sem bað okkur um að fara úr yfirhöfnum og skóm, og láta þá fá litlu bakpokana okkar og veskin sem við héldum á. Þegar höfðu aðrir lögregluþjónar opnað stóru bakpokana okkar. Það gerðist áður en við náðum að fara úr skónum. Síðan var okkur gert að skrifa undir eyðublað sem við fengum varla að lesa yfir en heimilaði þeim að skoða dótið okkar.
Næsta hálftímann stóðum við þarna og fygldumst með nokkrum lögreglumönnum taka gjörsamlega allt upp úr bakpokanum, og þá meina ég allt, og skoða það. Á þessum tímapunkti höfðum við verið rúma þrjá mánuði á ferðalagi og komnar með kerfi varðandi það hvernig við röðuðum í bakpokana, með allt brothætt í miðjunni, það sem við þurftum mest á að halda efst og svo framvegis, en þarna stóðum við og sáum lögregluna rugla í öllu sem hafði tekið okkur svo langan tíma að gera. Við bara stóðum í horninu og horfðum á. Lögreglan talaði mjög lélega ensku og við fengum litlar skýringar á því hvað væri eiginlega að gerast. Í bakpokanum fundu þeir alls konar verkjalyf sem þeir grandskoðuðu og spurðu mikið út í en skildu ekki svörin.
Á meðan lögreglan var enn að gramsa í bakpokunum okkar fóru aðrir að spyrja okkur spurninga. Þeir spurðu okkur hvað Ísland væri og trúðu því ekki að það væri alvöru land. Við reyndum að útskýra fyrir þeim að Ísland væri lítil eyja í Evrópu en okkur var ekki trúað fyrr en lögreglumennirnir höfðu opnað tölvu og flett þessu upp á netinu. Loks hættu þeir að skoða dótið okkar og sögðu að við mættum fara.
Algjörlega ný upplifun
Flugið að Puerto Maldonado var frekar stutt og flugvöllurinn þar pínulítill. Við sáum leiðsögumanninn um leið og við lentum og gengum beint út í rútu sem ók okkur að höfninni. Þar fengum við lánaðar litlar töskur fyrir helstu nauðsynjar, því ætlunin var að gista aðeins í þrjár nætur í Amazon-skóginum.
Eftir tveggja tíma bátsferð á ánni semrennur í gegnum Amazon-skóginn vorum við komnar að Tambopata-svæðinu sem við gistum á. Svæðið var mjög fallegt og skálarnir sem við gistum í voru mjög þægilegir, og með hengirúmi fyrir utan. Þar sem við vorum í miðjum skógi var ekkert netsamband þarna og heldur ekkert rafmagn, ekki nema í aðalskálanum eftir klukkan fimm á daginn og aðeins í skamman tíma. Á kvöldin þurftum við því að kveikja kerti í skálanum til að sjá eitthvað. Þetta var algjörlega ný upplifun fyrir okkur tvær, en ég verð að viðurkenna að það var þægilegt að hverfa frá nútímanum í nokkra daga, liggja í hengirúmi og lesa
Ég hef heldur aldrei á ævinni séð eins ótrúlega fallegan stjörnuhimin og orð geta ekki lýst því hvernig upplifunin var að sitja á bát í miðri ánni um mitt kvöld, þegar engin ljós voru nærri. Enda sagði enginn orð allan tímann, við vorum of upptekin við að stara upp í himininn sem virtist endalaus.
Strembin ganga
Mestum tímanum í skóginum eyddum við þó í langar göngur á mismunandi svæðum. Sem færir okkur að annarri óþægilegri uppákomu sem átti einnig eftir að sitja eftir í minningunni.
Fyrstu tvo dagana vorum við þarna í hópi fleira fólks sem fór með okkur í göngur. Við ákváðum hins vegar að vera einni nóttu lengur en aðrir, svo næstsíðasta daginn fórum við einar í göngu með leiðsögumanninum okkar. Við vorum mættar í morgunmat klukkan fimm að morgni og lögðum strax af stað eftir matinn. Við þurftum að leggja svona snemma af stað alla daga því hitinn og rakinn í Amazon-skóginum gat orðið óbærilegur. Gleymum heldur ekki endalausu magni af moskítóflugum sem pirruðu okkur, sveitta göngugarpana, í drullunni í skóginum.
Þennan dag hófst ferðin hins vegar á siglingu að svæði sem var í sirka 40 mínútna fjarlægð frá skálasvæðinu. Leiðsögumaðurinn hafði sagt okkur að þaðan myndum við ganga sjö kílómetra til að komast að fallegu vatni. Alla leiðina gengum við í beinni línu og mæltum varla af vörum á meðan við einbeittum okkur að því að festast ekki í drullunni eða fara undir og yfir trjádrumba. Gangan gekk hægt vegna drullu og hita auk þess sem moskítóflugurnar voru að gera út af við okkur.
Þegar við komum loks að vatninu fórum við í bátsferð og það var notalegt að fá að slaka aðeins á eftir þessa löngu göngu. Í kringum vatnið sáum við líka mikið af flottum fuglum, fiðrildum, otrum og alls konar dýrum sem var mikil upplifun. Við fengum meira að segja að veiða píranafiska þegar við stóðum á bryggjunni, sem okkur þótti spennandi.
Eins og í bíómynd
Þegar kom að brottför vorum við ekki tilbúnar, hvorki andlega né líkamlega, til þess að ganga í aðra fjóra tíma, svo við spurðum hvort það væri kannski einhver önnur og styttri leið sem hægt væri að fara á leiðinni til baka. Jú, sagði leiðsögumaðurinn, það væri styttri leið en hann var ekki viss hvort við gætum farið hana því það hafði rignt mikið að undanförnu og á þessari leið þyrfti að vaða yfir tjarnir sem gætu verið of djúpar fyrir okkur. Þessi leið var hins vegar tveimur kílómetrum styttri þannig að við ákváðum að taka áhættuna, lifa á ystu nöf og fara frekar þessa leið.
Mér fannst hún líka miklu meira spennandi. Á tímabili leið mér eins og ég væri í bíómynd þar sem við vorum til dæmis að fara yfir eldgamlar brýr úr tré sem í vantaði fullt af spýtum og aðeins einn gat farið yfir í einu svo brúin myndi ekki brotna. Við þurftum nokkrum sinnum að vaða yfir tjarnir og í þrjú skipti var vatnið svo djúpt að það náði næstum því upp á mitti hjá okkur. Við þurftum líka að passa okkur á því að grípa ekki í vitlausar greinar, því allt í kringum okkur voru eitraðar plöntur.
Buxurnar rifnuðu á rassinum
Við vorum nýbúnar að hoppa yfir á og leiðsögumaðurinn okkar var að hjálpa okkur að klifra upp nokkrar tröppur þegar ég fann buxurnar mínar rifna í klofinu. Hann var akkúrat fyrir aftan mig svo ég dreif mig til vinkonu minnar, færði mig fram fyrir hana og spurði hvort þetta væri mjög augljóst gat, og það var það. Ég reyndi því að ganga aftast í röðinni en í hvert skipti sem ég þurfti að klifra yfir trjátrumb fann ég hvernig gatið í klofinu stækkaði og stækkaði. Ég batt peysuna um mittið en þegar það dugði ekki til fékk ég bakpokann frá vinkonu minni og lét hann síga mjög neðarlega til þess að reyna að fela risastórt augljóst gatið aftan á buxunum mínum.
Loksins komumst við út úr skóginum en báturinn sem átti að sækja okkur var ekki kominn, sem var mjög skrýtið. Eftir talsverða bið og ítrekaðar tilraunir leiðsögumannsins til að hringja á svæði sem var utan þjónustusvæðis glitti loks í bátinn sem stefndi í átt að okkur. Nema hvað við heyrðum ekkert í mótor heldur var skipstjórinn að róa bátnum.
Mótorinn var nefnilega bilaður og skipstjórinn ákvað að róa með okkur til baka. Á meðan þeir voru í hrókasamræðum hafði ég áhyggjur af ástandinu, ekki síst vegna þess að við vorum búnar með bæði mat og vatn og vissum ekki hvernig þessi ferð myndi enda.
Létu bátinn reka
Enda kom á daginn að skálasvæðið sem við gistum á var of langt í burtu til þess að hægt væri að róa þangað, hvað þá á móti straumnum í ánni sem var mjög sterkur. Þeir segja okkur því að þeir ætli að reyna að láta bátinn reka með straumnum að næsta skálasvæði sem var ekki jafn langt frá. Við fórum því um borð í bátinn og notuðum árarnar til þess að stýra bátnum. Eftir nokkurn tíma komumst við að næsta svæði þar sem þeir hoppuðu upp úr og reyndu að redda okkur fari heim.
Á endanum fengum við far með öðrum bát að stæðinu okkar, en þá ákváðu fimm menn að fylgja okkur um borð. Ég skildi ekki alveg af hverju þeir þurftu að vera svo margir um borð til að ferja okkur á milli staða og var frekar vandræðaleg yfir aðstæðunum. Þegar við komum loks að landi leyfðu þeir okkur að fara fyrstar frá borði. Ég vildi það auðvitað alls ekki, með þetta risagat aftan á buxunum. Ekki skánaði það þegar við þurftum að ganga upp risatröppur til þess að komast upp á skálasvæðið á meðan þeir stóðu allir fyrir neðan okkur og fylgdust með. Frábært.
Þetta var langur og þreytandi dagur og við vorum gjörsamlega búnar á því þegar við komum aftur í skálann. Guði sér lof að ég hafði tekið með mér aukabuxur því ég get ekki enn ímyndað mér hversu vandræðalegt það hefði verið að fara í rifnu buxunum í kvöldmatinn líka, svo restin af hópnum gæti alveg örugglega líka séð flotta gatið í klofinu á buxunum mínum.
Eftir standa samt minningarnar um ógleymanlega ferð á framandi slóðir.
Athugasemdir