Ég var staddur á hóteli í Nakuru, Kenía. Klukkan var 8 um morgun og Neil var nú þegar vaknaður. „Jóhann, vaknaðu. Bílstjórinn er mættur!“
Með miklum erfiðismunum kom ég mér loks á fætur. Ég var veikur. Ég var ekki bara veikur heldur fárveikur. Heimir, vinur minn og ferðafélagi, hafði orðið eftir í smábænum Thika vegna veikinda og komst ekki með okkur til Nakuru. Greining læknanna var „dust sickness“. Það var svo mikið af ryki og sandi sem var sífellt að þyrlast upp í skólastofunum að það olli veikindum.
Ég ætlaði samt að fara með! Við Neil vorum búnir að ferðast hingað til Nakuru í einum tilgangi. Fara í Lake Nakuru National Park, oft kallaður Flamingo Garden. Risastór safari-garður á stærð við Reykjavík sem hýsir yfir milljón flamingófugla sem virðast allir halda sig í einum stórum hóp. Ekki ætlaði ég að missa af því.
„Góðan daginn, strákar! Þú, vinur minn, lítur út fyrir að vera þreyttur?“ Leiðsögumaðurinn var frá Nakuru og talaði með þykkum kenískum hreim. Hann tók á móti okkur á gömlum hvítum fólksbíl. „Já, ég er veikur. En það verður allt í lagi með mig.“
Ég dröslaði mér aftur í og Neil settist fram í. Ég lagðist þvert yfir sætin og hreyfði mig ekki næsta klukkutímann.
„Velkomnir í flamingógarðinn!“ Við vorum komnir. Við keyrðum gegnum hlið og áfram í gegnum skógi vaxið svæði í nokkrar mínútur. Það var lítið að sjá þangað til að við komum að risastóru vatni.
„Af hverju er bleikt ský yfir vatninu?“ spurði ég. „Það, vinur minn, eru flamingóarnir.“ Ég ætlaði ekki að trúa því. Þetta var eins og eitt risastórt ský. Bleikt ský sem færðist yfir vatnið óháð vindátt. Þegar við komum nær sá ég að þetta voru hundruð þúsundir flamingófugla. Ég gleymdi veikindunum og starði. Þetta var magnað.
„Hvernig er það, strákar, eru þið tilbúnir til að skoða bavíana?“
Bavíanar eru ekkert grín. Áður en ég fór til Kenía las ég um rannsókn um bavíana, sem snerist um það hversu sterkir þeir væru. Þeir eru einn bolti af vöðvum og til að komast að því hversu mikið þeir gætu tekið í réttstöðulyftu var bavíani settur í búr og í því miðju var gormur fastur við gólfið. Ef bavíaninn togaði í gorminn fékk hann nammi. Eftir því sem leið á rannsóknina þurfti bavíaninn að toga fastar og fastar í gorminn til að fá nammi. Sterkasti bavíaninn togaði í gorm sem jafnaðist á við það að hann hefði tekið tvö tonn í réttstöðulyftu. Tvö tonn!? Það eru mörg ár síðan ég las þetta en ég get svo svarið að þetta voru tvö tonn.
Ég las líka fullt af fréttum um bavíana. Þeir eru víst sífellt að rífa andlit og útlimi af fólki. Skilaboðin voru skýr: Ekki fokkast í bavíönum. Þegar leiðsögumaðurinn spurði hvort við værum tilbúnir var aðeins eitt sem komst að í huga mínum, og það var mig langaði til að halda andlitinu. „Já auðvitað, förum.“ Þegar á staðinn var komið, á baboon viewpoint, var augljóst að staðurinn bar nafn með rentu. Þarna var geggjað útsýni og bavíanar léku lausum hala. Við fylgdumst með konu hlaupa kringum bílinn sinn og bavíani á eftir. Hvað var hún að spá!? Hafði hún ekki lesið réttstöðulyfturannsóknina? Þrátt fyrir að morðóður bavíani væri á eftir henni fór ég að hlæja. Ég hló ekki lengi.
Konan henti frá sér mat sem hún hélt á. Hann missti áhugann á konunni og fór að borða matinn. Nokkrum sekúndum síðar leit bavíaninn á bílinn okkar og byrjaði að hlaupa í átt að okkur. Þarna var morðóður bavíani sem tekur tvö tonn í réttstöðulyftu að spretta í átt að bílnum okkar og við með allar rúður niðri.
„Ég held ég hafi aldrei öskrað jafn hátt.“
„LOKIÐ GLUGGUNUM!“ öskraði leiðsögumaðurinn.
Við vorum á gamalli druslu og engin lúxus rafmagnsstýring á gluggunum. Það þurfti að handsnúa draslið upp. Ég var einn aftur í og báðar rúðurnar niðri. Ég byrjaði að skrúfa rúðuna í hægri gluggann upp eins hratt og ég gat, vinstri glugginn ennþá galopinn. Ég sneri handfanginu eins og ég ætti lífið að leysa. Sem var tilfellið. Bavíaninn var á beinni leið í átt að andlitinu á mér. Þegar ég var alveg að verða búinn að skrúfa gluggann upp heyrði ég hljóð vinstra megin við mig. Þetta voru hljóð úr dýri, hárin risu, ég sneri hausnum hægt til vinstri og leit beint í augu satans. Bavíaninn var kominn inn í bílinn. Hann sat við hliðina á mér og við horfðumst í augu. Ég get fullvissað ykkur um það að ég hef aldrei verið jafn hræddur á ævi minni. Hvorki fyrr né síðar.„ÞAÐ ER BAVÍANI Í BÍLNUM!“
Ég held ég hafi aldrei öskrað jafn hátt heldur. Fight or flight-viðbrögðin kikkuðu inn. Þetta var auðvelt val. Flýja, ég gat ekki tekið tvö tonn í réttstöðulyftu, rétt svo 180 kíló á þessum tíma. Minna en barnabavíanar taka í upphitun. Er ekki til orð yfir barnabavíana?
Allavega, ég var í lífshættu! Ég reyndi að opna hurðina mér til hægri. Ég var að panika svo mikið að ég læsti henni óvart og hamaðist á hurðarhúninum og ekkert gerðist. Á meðan heyrði ég óhljóð mér til vinstri. Það var bara ein leið til að lýsa þessum hljóðum. Þetta voru satanísk hljóð, demonic. Ímyndaðu þér að þú sért í tölvuleik, þú ert að berjast gegn djöflum og þeir gefa frá sér óhljóð á meðan þú reynir að drepa þá. Þetta voru þannig hljóð, nákvæmlega eins. Diablo 2 var í gangi realtime mér við hlið.
Ég komst loksins út. Skellti á eftir mér og leit inn um gluggann. Leiðsögumaðurinn var að BERJA BAVÍANANN. Leiðsögumaðurinn, sem hér eftir verður kallaður hetjan, sat fram í, búinn að snúa sér við og var að berja djöfulinn sjálfan í andlitið. Blessaður bavíaninn reyndi hvorki að rífa af honum andlitið né rífa tvö tonn upp af jörðinni. Hann var að skíta á sig af hræðslu. Bókstaflega, hann skeit í helvítis sætið á meðan hann reyndi að sleppa út um gluggann.
En bavíaninn ætlaði ekki að gefast upp svona auðveldlega. Á meðan hann var að klöngrast út um gluggann greip hann bakpoka og reyndi að ræna honum. Leiðsögumaðurinn greip í bakpokann og fór í reipitog við bavíanann og vann! Ég spurði ekki hvað hann tæki í réttstöðulyftu en hann var augljóslega beast. Bavíaninn reyndi aftur. Í þetta skipti greip hann poka fullan af mat. Leiðsögumaðurinn greip í pokann og hann rifnaði í tvennt, matur úti um allt. Það var kúkur og matur úti um allan bíl.
Bavíaninn fór loksins út og hljóp hringinn í kringum bílinn og fór aftur inn í hann. Í þetta sinn að framan. Neil hafði skilið hurðina eftir opna þegar hann forðaði sér. Leiðsögumaðurinn fór á eftir bavíananum, nú vopnaður stórri grein sem hann sveiflaði í átt að honum öskrandi á swahili. Morðóði bavíaninn var ekki morðóður lengur. Hann var bara hræddur. Hræddur við óttalausa leiðsögumanninn. Bavíaninn hoppaði út úr bílnum og hljóp í burtu.
Við Neil settumst niður á bekk sem sneri að vatninu með flamingófuglunum. Bleika skýið færðist yfir vatnið. Við litum á hvor annan, byrjuðum svo að hlæja taugaveiklunarhlátri. Við áttum erfitt með að trúa því sem hafði gerst. Spennufall. Við vorum báðir óhultir. Leiðsögumaðurinn spurði hvort við vildum ekki halda áfram. Eins og ekkert hefði í skorist. Jú, sögðum við, og settumst aftur upp í bílinn. Í þetta skipti með lokaða glugga.
Þegar við keyrðum í burtu sá ég að bavíaninn hafði klifrað upp á mannlausan bíl og inn um sóllúgu. Óáreittur gekk hann berserksgang, tætandi allt sem hann sá og bíllinn gjörsamlega í rúst. Aumingjans fólkið sem var á þessum bíl. Það þurfti á hetju að halda.
Athugasemdir