Það var byrjað að dimma þar sem ég rölti meðfram lestarteinunum í átt að litla þorpinu Aguas Callientes. Ég var á leiðinni að hinni týndu borg Inkanna, Machu Picchu. Það hafði verið draumur frá því ég man eftir mér að koma þangað. En ég vissi ekki af hverju. Mig hafði bara alltaf langað. Og hingað var ég komin, alla leið til Perú frá Íslandi, stödd í um 2.000 metra hæð í Andesfjöllunum, og nokkur hundruð metrum ofar beið Machu Picchu mín.
Draumurinn hafði alltaf verið að ganga hina frægu slóð Inkanna, vera við Sólarhliðið við sólarupprás og berja dýrðina augum. En þar sem ég var á mjög óskipulögðu bakpokaferðalagi gat ég ekki farið þá leiðina að Machu Picchu. Ég fór því bakdyramegin að svæðinu, eða á hinum sanna máta bakpokaferðalangsins, eins og ég kaus að kalla það. Ásamt Diönnu frá Ungverjalandi og Annelie frá Hollandi, lagði ég eldsnemma um morguninn af stað með lítilli rútu frá borginni Cusco að litlu þorpi sem heitir Santa Maria. Þaðan fórum við þorp úr þorpi þar til við komum að Hidroelectrica. Þaðan gengum við síðan í um þrjá tíma meðfram lestarteinunum í átt að Aguas Callientes. Reyndar leit þetta ekki vel út um tíma, þar sem við lentum í mótmælum kennara á leiðinni. Mótmæli almennings eru algeng í Suður-Ameríku og fara oft þannig fram að mótmælendur loka vegum. En eftir nokkur augnablik af geðshræringu um að við myndum ekki komast leiðar okkar, fundum við leið fram hjá vegatálmunum. Og seint um niðdimmt kvöld mættum við þreyttar í þorpið Aguas Callientes sem er síðasta stopp fyrir Machu Picchu.
Daginn eftir vöknuðum við eldsnemma til að ná fyrstu rútunum sem færu upp á svæðið. Þetta var stór stund fyrir okkur allar og var mikil spenna og tilhlökkun. Ég skellti meira að segja á mig maskara og fór í pils yfir leggingsbuxurnar mínar, því mér fannst ég þurfa að sýna þessari stund tilhlýðilega virðingu.
Eftir hlykkjótta rútuferð upp fjallið og langa biðröð komumst við loksins inn á svæðið. Það var eldsnemma morguns og þoka og morgunkul lá yfir. Við sáum ekkert. Við fundum okkur góðan stað til að sitja á til að vera tilbúnar þegar þokunni lyfti. Fleira fólk streymdi að og allir biðu eftir því að sjá týndu borgina, sem nú var týnd í þokunni. Það var skrýtið til þess að hugsa að þarna á bak við þessa þykku þoku leyndist eitt af undrum veraldrar. Borg sem Inkarnir höfðu byggt um miðja 15. öld í um 2.400 metra hæð. Þegar Spánverjarnir hertóku Suður-Ameríku eyðilögðu Inkarnir alla vegi sem lágu að borginni og vegna legu hennar og staðsetningu fundu Spánverjarnir hana aldrei. Borgin lá því týnd undir miklum gróðri þar til hún fannst seint á 19. öld, uppgötvuð af sagnfræðingnum og háskólakennaranum Hiram Bingham. Þó er talið að innfæddir hafi alla tíð vitað af tilvist borgarinnar.
Það var sérstök stemning í loftinu meðal ferðalanganna sem biðu eftir að sjá Machu Picchu. Það mátti heyra andvörp úti um allt þegar þokunni létti lítillega og aðeins byrjaði að sjást í rústirnar. En þokan stríddi okkur aðeins og ýmist létti á henni eða þyngdist. En eftir um tveggja eða þriggja tíma bið létti alveg á þokunni og við blasti Machu Picchu.
Það er erfitt að lýsa fegurðinni með orðum. Allan tímann fannst mér eins og þetta væri leiktjald sem búið væri að setja upp og ég beið alltaf eftir því að tjaldið yrði fjarlægt. Ég lokaði augunum og opnaði þau aftur til að vera viss um að þetta væri þarna í alvörunni. Rústirnar og borgin sjálf er vissulega tilkomumikið en umhverfið í kring er svo tignarlegt að erfitt er að festa í orð. Stærð fjallanna sem gnæfa bakvið og í kring og græni liturinn á gróðrinum. Þetta var jafn tilkomumikið og ég bjóst við, ef ekki meira.
Við gengum um týndu borgina. Skoðuðum rústirnar, fræddumst um líf Inkanna og virtum fyrir okkur umhverfið. Tækni og þekking Inkanna var mjög þróuð. Hvernig steinarnir voru slípaðir og raðað saman á hárnákvæman hátt. Hvernig þeir notuðu spegilmynd vatnsins til að lesa í stjörnuhimininn. Allt þetta og meira til var á undursamlegan hátt svo heillandi. Enginn veit nákvæmlega af hverju Machu Picchu var byggð á þessum stað og hverjir bjuggu þar. Ein tilgátan er að þetta hafi verið helgur staður í augum Inkanna því að í þessari hæð og umhverfi voru þeir nærri sólinni og tunglinu sem voru þeirra helstu Guðir. Hvernig þetta svo sem var fyrir nokkuð hundruð árum má með sanni segja að einhver sérstök orka og stemning liggi yfir þessum stað.
Eftir ánægjulegan dag sneru ferðafélagar mínir aftur til Cusco en ég gisti aðra nótt í Aguas Callientes. Næsta dag hélt ég aftur af stað með rútunni að Machu Picchu, í þetta sinn til að klífa Huayna Picchu, háa tindinn sem gnæfir bak við sjálfa borgina. Þetta var erfið ganga í frumskógarumhverfi og frumskógarhita en sjónarhornið sem við manni blasir er stórkostlegt. Ég varði það sem eftir var af deginum í að ganga um rústirnar og skoða eins mikið og ég gat. Í lok dagsins settist ég, ásamt þeim fáu sem eftir voru, til að njóta síðustu andartakanna. Það var síðdegis og sólin búin að færa sig til á himninum. Fallegir skuggar mynduðust. Fegurðin ólýsanleg. Allir sátu í hálfgerðri þögn og lotningu þar til verðirnir byrjuðu að blása í flauturnar sínar af miklum ákafa. Það var að fara að loka. Tími til kominn að fara.
Ég settist upp í rútuna, dauðþreytt og búin á því. Yfir mér var einhver óútskýranleg ró. Ég hallaði mér aftur í sætinu, lokaði augunum og brosti breitt með sjálfri mér. Ég hafði séð og upplifað Machu Picchu. Já, draumurinn rættist.
Grein Jónu Rúnar er ein af þeim sem birtar eru úr ferðasagnasamkeppni Stundarinnar.
Athugasemdir