Borgin Köln er í Þýskalandi hefur verið í sviðsljósinu eftir miklar róstur sem þar urðu á nýársnótt, þegar allnokkrir ungir karlmenn úr stórum hópi aðfluttra frá Norður-Afríku og Miðausturlöndum veittust mjög alvarlega að konum í miðborginni; rændu, áreittu, misþyrmdu og nauðguðu nokkrum.
Eru nú að hefjast í Þýskalandi miklar umræður um hvernig á þessu stóð og hvernig rétt sé að bregðast - en atburðir af svipuðu tagi urðu reyndar ekki aðeins í Köln, heldur einnig í nokkrum öðrum borgum Þýskalands og fleiri landa.
Ekki verður fjallað um það í þessum Sögustundarpistli, heldur aðeins uppruna borgarinnar Köln. Upprunalega hét borgin nefnilega eftir einu frægasta kvenskassi Rómaveldis, hinni alræmdu Agrippínu yngri.
Faðir Agrippínu var herforinginn Germanicus sem var dáður og vinsæll á fyrstu árunum eftir upphaf tímatals vors. Um árið 13 e.Kr. var honum falið af Ágústusi keisara að ná hinni fornu Germaníu - sem Rómverjar kölluðu svo - en það var nokkurn það svæði sem við köllum nú Þýskaland.
Í nokkur ár herjaði Germanicus með ágætum árangri gegn hinum „frumstæðu“ ættbálkum í Germaníu en náði þó aldrei að brjóta þá alveg á bak aftur. Germanicus var óvenjulegur meðal rómverskra herforingja að því leyti að hann hafði konu sína og börn með sér í herferðum. Kona hans hét Agrippína og voru ástir þeirra hjóna afar góðar. Árið 15 e.Kr. fæddist í herbúðum Rómverja við Rín dóttir sem skírð var eftir móður sinni og síðan ævinlega kölluð Agrippína yngri.
Hún var fjórða barn foreldra sinna, áður voru fæddir þrír synir, en síðan fæddust tvær dætur til viðbótar.
Af öllu þessu fólki urðu miklar sögur, og hörmulegar. Fljótlega eftir að Ágústus keisari dó skipaði arftaki hans, Tíberíus, Germanicusi að hætta herferðum sínum í Germaníu. Honum fannst ekki taka því að hætta lífi Rómverja til að leggja undir sig þá þéttu skóga og víðáttumiklu mýrar sem þá einkenndu landsvæði þetta.
Germanicus dó nokkrum misserum seinna með voveiflegum hætti og nokkrum árum eftir það lét Tíberíus handtaka og síðan drepa Agrippínu eldri konu hans og elstu synina tvo. Hann sakaði þau um samsæri gegn sér. Þriðji sonurinn kallaðist Caligula og hann varð hins vegar keisari þegar Tíberíus dó árið 37. Caligula reyndist hið versta fól og gekk fram af Rómverjum, meðal annars með því að leggjast ítrekað með systrum sínum þrem - að því er sagt var.
Meðal þeirra var Agrippína yngri, en svo fór þó að lokum að Caligula sendi Agrippínu systur sína í útlegð um tíma, því hann grunaði hana um vilja sig feigan. Ekki er ljóst hvort eitthvað var hæft í því, en þó fannst mörgum á daginn komið að Agrippína væri ansi beinskeytt flagð undir skinni fögru. Um þær mundir hafði hún gengið í hjónaband og eignaðist son sem framan af árum var kallaður Dómitíus.
Ekki varð hjónaband Agrippínu langlíft. Eiginmaður hennar var alræmdur skíthæll og sjálfur hafði hann látið svo um mælt þegar hann frétti að þau Agrippína hefðu eignast son að sá hlyti nú að verða aldeilis óþokki sem þau tvö legðu saman í.
Árið 41 höfðu Rómverjar fengið nóg af Caligula, sem þótti orðinn alveg vitskertur, og hann var drepinn. Þá var Kládíus dubbaður upp til keisara, en hann var bróðir Germanicusar og því föðurbróðir Agrippínu yngri. Þrátt fyrir þennan nána skyldleika tókst Agrippínu með allskonar klækjabrögðum að fá Kládíus til að kvænast sér. Sá gamli var yfir sig hrifinn af hasarkvendinu sem Agrippína þótti vera og vildi gera allan hennar vilja. Þar á meðal ættleiddi hann son hennar, Dómitíus, og var hann upp frá því kallaður Neró.
En einnig fékk Agrippína Kládíus til að gera virkið þar sem hún fæddist að að formlegri nýlendu Rómaveldis og þar með útverði heimsveldisins gegn Germaníu. Og nýlendan fékk nafnið Colonia Claudia Ara Agrippinensium sem þýðir einfaldlega „Nýlenda Kládíusar og altaris Agrippínu“ - en Rómverjar voru þá óðum að feta sig út á þá braut að goðkenna keisara sína og helstu ættmenni þeirra. Þetta lét Kládíus eftir Agrippínu eins og annað.
Vegna þess að nýlenduborgin fékk þessa keisaralegu viðurkenningu, sem í nafngiftinni fólst, þá óx hún og dafnaði hægt en örugglega - og hélt því svo áfram næstu áratugi og aldir og árþúsund og á leiðinni umbreyttist nafnið úr Colonia í Köln.
Það er svo af Agrippínu að segja hún fór að gera sig æ breiðari, og þykir æ síðan eitt ferlegasta skass, sem Rómarsaga kann frá að greina. Þegar hana fór að lengja eftir því að Neró sonur hennar yrði keisari lét hún einfaldlega drepa Kládíus.
En faðir Nerós reyndist sannspár.
Keisarinn ungi, sem nú tók við, varð sami grimmdarseggurinn og vitleysingurinn og Caligula, og vann mörg hryllingsverk. Að lokum snerist hann m.a.s. gegn móður sinni, sem hann átti þó allt að þakka, og sendi mann til að drepa hana. Agrippína bað morðingjann fyrir alla muni að stinga sig í kviðinn.
„Það hæfir vel,“ sagði hún, „því þaðan kom ófreskjan sem sendi þig.“
Athugasemdir