Fyrir rúmri viku síðan byrjaði ég átakið #minnlíkami á Twitter. Ástæðan er einföld: Sama hvernig þú lítur út þá hefur þú jafn mikinn rétt á því að tekið sé mark á þér. Sama hvernig þú lítur út þá hefur þú jafn mikinn rétt á því að hlustað sé á þig. Sama hvernig þú lítur út þá hefur þú jafn mikinn rétt á því að finna fyrir fegurð, og mikilvægast af þessu öllu, þá hefur þú rétt á að finna fyrir sjálfsást.
Það eru gerðar kröfur til okkar, við erum með væntingar og viðmið um hvernig við eigum að líta út. Þúsundir greina, pistla, kúra og ráða um hvernig meðalmanneskjan getur öðlast þetta ákveðna útlit sem allir eiga að vilja. Niðurstöður sífellt fleiri rannsókna sýna fram á hið sama; mikill meirihluti ungmenna í dag er óánægður með útlit sitt. Á sama tíma og hreinsað er og photoshoppað burt allt sem telst ófullkomið eru hugmyndir okkar og samfélagsins ómeðvitað að breytast og útlitskröfur að aukast. Þess vegna er í rauninni mjög auðvelt að átta sig á þeirri staðreynd að það er nánast ómögulegt að ná sama útliti og fyrirsætan í tímaritinu. Samt sem áður er ég alls ekki ein um það að reyna og keppast við að ná þeim fjarlæga áfangastað að líta svoleiðis út.
Þetta kvöld, eftir mikla umhugsun og tal við nokkrar vinkonur ákvað ég að koma mínum pælingum á framfæri. Ég tók því mynd af maganum á mér, sem hefur verið mitt helsta áhyggjuefni allt of lengi og pósta á Twitter ásamt texta. Ég og vinkona mín ákváðum að gera það báðar. Við póstuðum þessu með hashtaginu #minnlíkami til að undirstrika að þetta sé líkaminn minn, og þinn líkami er þinn, ekki samfélagsins. Það er enginn skyldugur til að fylgja öðrum útlitsviðmiðum en sínum eigin. Þegar ég hafði lokið við að birta myndina fann ég fyrir rosa mikilli skömm. Ég skammaðist mín fyrir að vera með slit og ég skammaðist mín fyrir að vera með bumbu. Það var einmitt þá, sem ég fattaði hvað þetta væri brenglað og ég sá þetta svart á hvítu. Þetta er það sem ég var að berjast gegn! Að eiga að skammast mín fyrir útlit mitt, vegna þess að ég passa ekki inn í staðalímynd kvenlíkama.
Hvaðan kom sú hugmynd að meta fólk út frá útliti og holdarfari? Hvaðan kom þessi hugmynd sem er nú svo sterk í samfélaginu að meira að segja barnaefni getur falið í sér fitufordóma og útlitsdýrkun? Afskaplega áberandi fitufordómar eru þeir sem ganga út frá því að feitt fólk sé latt, með minni sjálfsstjórn eða að það sé ekki jafn klárt né duglegt og þeir sem eru grennri. Nú vitum við að holdafar segir ekki endilega til um innri starfsemi né heilsufar. Það er vitað og sannað. Nú þurfa samfélagsleg viðhorf bara að fylgja með!
Ég vil fá að vera ég, með slitin, magann á mér, bólurnar þegar þær koma og náttúrulegu mig eins og ég er án þess að þurfa að finna fyrir skömm.
Jæja. Er ekki bara komið nóg af þessari vitleysu? Það er löngu kominn tími á breytingu, að við spörkum þessum úreltu hugmyndum um að eitt holdarfar sé betra eða heilbrigðara en annað og leyfum öllum, óháð hvernig útlit þeirra er, að upplifa sjálfsást, sjálfsvirðingu og viðurkenningu. Viðhorfið, að einungis ákveðnar líkamsgerðir séu fallegar, er eitt það mest takmarkandi sem ég hef heyrt! Þegar heimurinn er fullur af mismunandi fólki, með endalaust mismunandi líkamsgerðir, eiginleika og holdarfar. Af hverju innrætum við fólki að snúast gegn því sem gerir það einstakt og fáum það til að reyna að passa inní piparkökumót hinnar fullkomlega útlítandi manneskju - sem er svo ekki til nema sem glansmynd.
Ég vil fá að vera ég, með slitin, magann á mér, bólurnar þegar þær koma og náttúrulegu mig eins og ég er án þess að þurfa að finna fyrir skömm. Ég vil að allir geti verið ánægðir með útlit sitt án þess að vera stimplaðir hégómafullir eða sjálfselskir, eins og það sé neikvætt? Ég vil að fólk hætti að dæma aðrar manneskjur út frá útliti og holdarfari þess. Ég vil að við séum samfélag sem kennir börnum, unglingum og bara öllum, líkamsvirðingu og sjálfsást. Kennir öllum að bera virðingu fyrir líkama sínum, sem og líkama annarra. Það fæðist enginn óánægður með líkama sinn, það er eitthvað sem við lærum frá samfélaginu. Þá hljótum við líka að geta farið í hina áttina.
#minnlíkami er fyrir alla. Hefur þú orðið fyrir einhvers konar fordómum útaf útliti, holdarfari eða öðrum líkamlegum eiginleikum? Hefur þú rekist á fitufordóma í fjölmiðlum eða auglýsingum? Ert þú komin/nn/ð með uppí kok af því að hafa áhyggjur af megrunarkúrum, tölum á vigtinni, hitaeiningatalningu, óraunhæfum útlitskröfum og útlitsdýrkun í öllum sínum myndum? Segir þú FOKK við óraunhæfar staðalímyndir sem valda engu nema vanlíðan? Deildu því með okkur á samfélagsmiðlum! #minnlíkami og #sjálfsást. Gerum breytinguna, fyrir komandi kynslóðir og okkur sjálf.
Athugasemdir