Fyrir skemmstu var haldið mikilvægt málþing um hatursorðræðu á vegum Mannréttindaskrifstofu Íslands þar sem fjölmiðlar áttu sérstaka aðkomu, en bæði var aðili frá einum stærsta fjölmiðli landsins á mælendaskrá auk þess sem fundarstjórn var í höndum fulltrúa frá fjölmiðlanefnd. Aðkoma fjölmiðla að umræðuvettvangi sem þessum er einstaklega mikilvæg enda hafa fjölmiðlar meiri áhrif á umræðuna í samfélaginu en nokkur annar og því skiptir sköpum að þeir sem starfa við fjölmiðla séu meðvitaðir um hvernig umfjöllun, framsetning og áherslur í fjölmiðlum geta orðið til þess að ýta undir misrétti, jaðarsetningu og átök milli hópa í samfélaginu.
Aðkoma fjölmiðla að málþingi sem þessu kallar þó á að að við horfumst, af alvöru og einlægni, í augu við hvernig alið hefur verið á fordómum og hatursorðræðu í garð ákveðins þjóðfélagshóps í gegnum fjölmiðla síðustu áratugina.
Með umfjöllun fjölmiðla um offitu síðustu 20 árin hefur markvisst verið alið á andúð, fjandsamleika og reiði í garð fólks á grundvelli holdafars þess. Innihaldsgreiningar á fjölmiðlaefni sýna að sú mynd sem dregin er upp af feitu fólki, hvort heldur í fréttamiðlum eða afþreyingarefni, er áberandi neikvæð, niðurlægjandi og afmennskandi. Feitt fólk er oftar en ekki sýnt án höfuðs, fáklætt, eingöngu sem afmarkaður líkamshluti (til dæmis magi eða rass), og í aðstæðum sem staðfesta ríkjandi staðalmyndir um hópinn, meðal annars borðandi skyndibita. Með þessu móti eru andúð og lítilsvirðing í garð hópsins gerð normalíseruð og réttlætanleg. Þær áherslur sem lagðar eru í fjölmiðlaumfjöllun um offitu snúa ennfremur helst að lífsstílstengdum þáttum, svo sem mataræði og hreyfingu, sem ýtir undir ályktanir um að líkamsvöxtur feitra sé staðfesting á leti þeirra og græðgi. Rannsóknir hafa síðar leitt í ljós að þessi viðhorf eru megininntak fitufordóma.
„Með þessu móti eru andúð og lítilsvirðing í garð hópsins gerð normalíseruð og réttlætanleg.“
Þeirri orðræðu og myndmáli sem ráðið hefur ríkjum innan fjölmiðlanna verður varla lýst öðruvísi en sem yfirgripsmikilli samfélagslegri aðför að mannlegri reisn og tilverurétti feitra. Við erum þó fyrst núna að vakna almennilega til vitundar um skaðsemi fitufordóma og misréttis í tengslum við holdafar þannig að vitaskuld má að einhverju leyti skrifa þessa þróun á vanþekkingu og skilningsleysi hvað þessi mál varðar. Viðbrögð fjölmiðla við umræðunni nú, og vilji þeirra til að gera breytingar, munu þó segja endanlega til um hversu mikið skrifast á þekkingarleysi og hvað er til merkis um kerfislæga fordóma innan fjölmiðlanna sjálfra.
Samtök um líkamsvirðingu hafa ítrekað reynt að ná eyrum íslenskra fjölmiðla hvað þetta varðar. Við höfum skrifað blogg og greinar, nýtt samfélagsmiðla og í fyrra buðum við öllum helstu fjölmiðlum landsins upp á ókeypis örnámskeið um fitufordóma á Degi líkamsvirðingar þann 13. mars. Undirtektirnar voru aftur á móti dræmar, fáir þáðu boðið og meðal þeirra sem fengu fræðslu héldu sumir engu að síður áfram uppteknum hætti. Þetta hefur því miður skilað okkur þeirri tilfinningu að það sé lítill vilji meðal fjölmiðla á Íslandi til að taka ábyrga afstöðu gegn hatursorðræðu á grundvelli holdafars eða horfast í augu við hlutverk sitt sem gerenda í því máli.
Við teljum hvorki eðlilegt, né æskilegt fyrir heilbrigða þróun mannréttindaumræðu á Íslandi, að augum sé lokað fyrir þessari sérlega áberandi, almennu og félagslega samþykktu birtingarmynd hatursorðræðu á okkar tímum.
Feitt fólk er jaðarsettur hópur sem býr við margvíslegt og kerfislægt misrétti. Þessi staða er hins vegar flestum hulin vegna þess að neikvæð viðhorf í garð þessa hóps eru talin sjálfsögð og eðlileg. Við vorum flest alin upp við þessi viðhorf og höfum ekki öðlast gleraugun til að sjá skekkjuna eða ranglætið í þeim. Samfélagsleg viðhorf í garð feitra eru þannig í dag á þeim stað sem viðhorf til allra annarra jaðarsettra hópa hafa eitt sinn verið: Innbyggður og ósýnilegur hluti af menningu og hugsunarhætti samfélags.
Þessu verður ekki breytt nema við opnum umræðuna, aukum vitund og skilning, leiðréttum staðalmyndir og fordóma, en umfram allt að við hættum að skapa jarðveginn þar sem hatursorðræða og misrétti þrífast. Samtök um líkamsvirðingu komu með yfirlýsingu í umræðuhluta málþingsins umrædda sem kallaði eftir slíkri vitundarvakningu. Afar vel var tekið í innleggið og munum við fylgja því eftir eins og kostur er. Við vonum að aðkoma fjölmiðla að málþinginu sé til merkis um að þeir séu tilbúnir til að eiga þetta samtal við okkur.
Athugasemdir