Árið 1997 birtist skýrsla á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar þar sem offitu var líkt við heimsfaraldur. Í kjölfarið lýstu þjóðir veraldarinnar yfir stríði á hendur offitu en eins og flest önnur stríð átti þetta eftir að leiða af sér þjáningar og eyðileggingu.
Við það að líkja offitu, það er að segja feitu fólki, við samfélagsplágu var opið skotleyfi gefið á jaðarsettan þjóðfélagshóp sem þegar bjó við víðtæka fordóma og misrétti. Þetta varð til þess að lækka hann enn frekar í virðingarstiganum, normalísera smánandi umræðu í hans garð og réttlæta fordóma og mismunun. Þarna var fyrsta boðorð heilbrigðishugsjónarinnar þverbrotið: Umfram allt, valdið engum skaða.
Umfjöllun um offitu í fjölmiðlum hefur aukist marghundraðfalt frá því stríði var lýst yfir gegn fitu í byrjun 21. aldar. Í þeirri umfjöllun hefur kerfisbundið verið alið á andúð og lítilsvirðingu í garð feitra og myndin sem dregin er upp af hópnum, hvort heldur í fréttamiðlum eða afþreyingarefni, er áberandi neikvæð og niðurlægjandi. Feitt fólk er oftar en ekki sýnt án höfuðs, fáklætt, eingöngu sem afmarkaður líkamshluti, eins og magi eða rass, og í aðstæðum sem staðfesta ríkjandi staðalmyndir um hópinn, eins og að borða skyndibita. Þannig hefur átt sér stað ákveðið ferli afmennskunnar þar sem feitt fólk er ekki séð sem manneskjur heldur sem höfuðlausar, latar og gráðugar skepnur.
Það sem einnig einkennir umfjöllun um „offitufaraldurinn“ er að öllum þeim sem flokkast sem „of þungir“ (BMI 25-29,9) eða „of feitir“ (BMI 30 og yfir) er slegið saman í einn hóp. Með því móti má margfalda umfang „faraldursins“ þannig að hann telur nú 60% þjóðarinnar. Þessi himinháa tala er síðan gjarnan pöruð við myndir af fólki í hæsta (en jafnframt fámennasta) þyngdarflokknum ásamt alvarlegum yfirlýsingum um tengsl offitu við hræðilega sjúkdóma. Raunveruleikinn er hins vegar að mikil breidd einkennir bæði holdafar fólks innan „offitufaraldursins“ og áhættu þeirra fyrir þróun sjúkdóma.
„Feitt fólk er ekki séð sem manneskjur heldur sem höfuðlausar, latar og gráðugar skepnur.“
Tveir af hverjum þremur einstaklingum innan „offitufaraldursins“ eru eingöngu í „ofþyngdarflokki“ og umdeilt að því fylgi sérstök heilsufarsleg áhætta. Faraldsfræðilegar rannsóknir sýna til dæmis að fólk í þessum flokki lifir lengst allra. Í þessum hópi er oft að finna vöðvastælt íþróttafólk og annar hver karlmaður á Íslandi tilheyrir þessum flokki. Hinn þriðjungur „offitufaraldursins“, þeir sem flokkast raunverulega í „offituflokki“, eru langflestir neðarlega í þeim flokki (BMI 30-34,9). Mikill minnihluti þjóðarinnar myndi að líkindum falla innan þess þyngdarbils sem oftast birtist okkur í umfjöllun um offitu. Fólk í þeim þyngdarflokki ætti þó ekki að vera álitið leyfilegt skotmark fyrir opinbera niðurlægingu frekar en nokkur annar þjóðfélagshópur. Það er ekki réttlætanlegt að nokkurri manneskju sé stillt upp opinberlega, hálfnakinni og skömmustulegri, í aðstæðum sem er viljandi ætlað að vekja staðalmyndir og fordóma.
Nú um helgina opnar ljósmyndasýning á vegum Samtaka um líkamsvirðingu í samstarfi við mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar undir heitinu „Fólk en ekki faraldur“. Markmið sýningarinnar er að vekja athygli á því hvernig umræðan um „offitufaraldurinn“ hefur alið á neikvæðri sýn og lítilsvirðingu í garð feitra og hversu bjagaða mynd þessi umræða hefur gefið af holdafari fólksins í landinu. Til mótvægis eru birtar ljósmyndir eftir Gunnar Frey Steinsson ljósmyndara af venjulegu íslensku fólki með líkamsþyngdarstuðul sem fellur innan marka „offitufaraldursins“. Það sem margir sýningargestir munu fljótlega átta sig á er að umræðan um „offitufaraldurinn“ beinist að þeim sjálfum. Frænku þeirra, afa, mömmu þeirra og börnunum þeirra. Vinum þeirra, samstarfsfélögum og kunningjum. Þegar meirihluti þjóðarinnar er sagður tilheyra faraldri sem sé að sliga samfélagið þá er eitthvað að. Með réttu ætti fólk að móðgast, hneykslast og hafna þessari orðræðu. Fólkið að baki tölum um „offitufaraldurinn“ er þverskurður samfélagsins. Við erum að tala um fólk – ekki faraldur.
Athugasemdir