13. mars var dagur líkamsvirðingar. Þennan dag árið 2009 var fyrsta bloggfærslan send út af líkamsvirðingarblogginu undir yfirskriftinni „Slagurinn er hafinn“. Sama dag, þremur árum síðar voru Samtök um líkamsvirðingu stofnuð. Slagurinn hófst fyrir sjö árum og er heldur betur enn í gangi. Ennþá er langt í land en ég er samt sem áður óendanlega þakklát fyrir það sem þegar hefur áunnist.
Allt í kringum okkur eru kröfur, væntingar og viðmið um hvernig við eigum að vera fullkomnar, eða besta útgáfan af okkur sjálfum. Sérstaklega áberandi eru kröfur um útlit og holdarfar. Þúsundir greina, pistla, kúra og ráða um hvernig meðalmanneskjan getur öðlast þetta lýtalausa, óaðfinnanlega útlit. Útlitið sem „allir vilja“. Niðurstöður sífellt fleiri rannsókna sýna hið sama; mikill meirihluti ungmenna er óánægður með útlit sitt. Á sama tíma og hreinsað er og photoshoppað burt allt sem telst ófullkomið breytast hugmyndir okkar og samfélagsins ómeðvitað og kröfur til útlits aukast. Þess vegna er í rauninni mjög auðvelt að átta sig á þeirri staðreynd að það er nánast ómögulegt að ná sama útliti og fyrirsætan í tímaritinu. Þrátt fyrir að „vita“ þetta er ég alls ekki ein um það að hafa reynt að keppast við að ná þeim fjarlæga áfangastað að líta svoleiðis út.
Flestir, ef ekki allir, finna fyrir þessum kröfum á einn eða annan máta. Öll kyn, allur aldur – þetta snertir okkur öll. Af hverju er mér hulin ráðgáta en það lítur út fyrir að þetta séu samverkandi þættir markaðar, fjölmiðla og þar með samfélagslegra hugmynda og staðalímynda. Hvað svo sem því líður þá er enginn vafi á því að þetta veldur mikilli vanlíðan. Óraunhæfar útlitskröfur tengjast lélegri sjálfsmynd og sjálfsvirðingu sem svo geta stuðlað að átröskun, þunglyndi, kvíða og fleiru. Við erum alin upp við þessar ranghugmyndir og þeim er í raun troðið ofan í okkur. Við höfum ekkert val, þekkjum ekkert annað! Því síast þessar hugmyndir inn í huga okkar og við förum að meta aðra og okkur sjálf út frá hugmyndum um útlit sem geta aldrei orðið að veruleika. Við dæmum aðra fyrir hvernig þau líta út, en það sem við gerum mest og harkalegast, er að dæma okkur sjálf.
Í tilefni dagsins vann ég í samráði við aðra framhaldsskólanema að myndbandi. Myndbandið kallast: Ákall til líkamsvirðingar og er það að finna á Youtube. Tilgangur myndbandsins er að vekja athygli á kröfum og pressu á ungmenni varðandi holdafar og útlit, sýna fjölbreytnina og hvað hún er í rauninni falleg. Staðalímyndirnar sem eru ríkjandi í samfélaginu varpa fram einsleitri mynd sem á bara hreinlega ekki við. Fjöldi nemenda í framhaldsskólum á Íslandi er rúmlega 25.000 og hver og einn einasti nemandi er einstakur!
Sæir þú fyrir þér týpísku kókauglýsinguna; „Open happiness“, þar sem manneskjur í yfirþyngd skemmta sér konunglega í sundlaugapartýi?
Alla jafna er fatlað fólk eða fólk í yfirþyngd ekki sjáanlegt í fjölmiðlaflórunni nema í tengslum við samfélagsleg mein eða einhvers konar vandamál. Hér á Íslandi sjáum við til dæmis sjaldnast fólk af öðrum litarhætti en hvítum. Í langflestum tilfellum sýna fjölmiðlar einhæfa glansmynd af einstaklingi sem lifir fullkomnu lífi í fullkomnum líkama. Sæir þú fyrir þér týpísku kókauglýsinguna; „Open happiness“, þar sem manneskjur í yfirþyngd skemmta sér konunglega í sundlaugapartýi? Ég stórefast um það, en af hverju ekki?
Persónulega er ég búin að eyða allt of mörgum árum í að hata líkama minn. Alltof mörgum mínútum í að reyna að breyta einhverju sem þarf ekki að breyta. Alltof mörgum hugsunum í að einblína á það ófullkomna og neikvæða í mínu fari. Núna krefst ég breytinga! Ég ætla að elska sjálfa mig. Ég ætla að vera örugg í eigin skinni. Ég ætla að njóta virðingar – minnar og annarra – óháð því hvernig ég lít út. Ég skora á fjölmiðla að sjá, sýna og fjalla um fegurðina í öllum. Ég skora á auglýsendur að sjá, sýna og fjalla um fegurðina í öllum. Ég skora á þig, kæri lesandi, að sjá, sýna og fjalla um fegurðina í öllum, þar með talið sjálfum/sjálfri/sjálfu þér!
Njótið myndbandsins og njótið dagsins. Deilið með okkur ykkar pælingum með myllumerkjunum #dagurlíkamsvirðingar eða #líkamsvirðing á samfélagsmiðlum. Brjótum niður þessar staðalímyndir og vekjum athygli á þessu fyrir okkur og komandi kynslóðir.
Athugasemdir