„Ljósin verða að vera slökkt“, „ég þoli ekki að vera ofan á, þá verður bumban svo áberandi“, „brjóstin mín verða svo ljót þegar ég er ofan á“, „ég get ekki klætt mig úr fyrir framan hann“ eða „ég þoli ekki þegar hann grípur um rassinn minn, því þá finnur hann hvað ég er með mikla appelsínuhúð“.
Þessar setningar eru ekki skáldskapur heldur raunveruleg orð sem við höfum heyrt óteljandi sinnum frá konum í kringum okkur.
Lítið hefur verið rætt um líkamsmynd fullorðinna kvenna. Áherslan hefur lengi verið á unglinga en slæm líkamsmynd er of algeng meðal unglingsstúlkna. Rannsóknir sýna þó að líkamsmyndin er nokkuð stöðug í gegnum lífið ef ekki er unnið í því að bæta hana og geta því fullorðnar konur einnig verið ósáttar við útlit sitt. En það er þó algengt að áhersla á útlit breytist með aldrinum, konur verða meðvitaðri um að enginn er „fullkominn“ og mikilvægi útlits minnkar.
Þegar líkamsmynd fullorðinna kvenna er skoðuð kemur engu að síður í ljós að slæm líkamsmynd hefur mikil áhrif á kynlífið. Konum með mjög slæma líkamsmynd getur jafnvel þótt kynlíf kvíðavekjandi atburður. Slæm líkamsmynd getur haft mjög neikvæð áhrif á upplifun kvenna af kynlífi.
Rannsóknir á tengslum líkamsmyndar kvenna og kynlífs hafa til að mynda sýnt fram á það að konur með slæma líkamsmynd eru ólíklegri til að tjá langanir sínar og fá fullnægingu. Í rannsókn Dr. Jill Hagen og Thomas F. Cash frá árinu 1991 kom í ljós að 73% kvenna með góða líkamsmynd fengu fullnægingu í samförum en aðeins 42% kvenna með slæma líkamsmynd fengu fullnægingu.
Líkamsmynd virðist einnig tengjast tíðni kynlífs, neikvæð líkamsmynd getur leitt til þess að konur hreinlega forðist kynlíf en konur með jákvæða líkamsmynd eru líklegri til að stunda oftar kynlíf, hafa oftar frumkvæði í kynlífi og vera ævintýragjarnari.
„Konur með jákvæða líkamsmynd eru líklegri til að stunda oftar kynlíf, hafa oftar frumkvæði í kynlífi og vera ævintýragjarnari.“
Erfiðleikar við að njóta kynlífs hafa verið tengdir við einhvers konar sjálfseftirlit eða spectatoring. Spectatoring er hugtak sem Masters og Johnson, hinir frægu brautryðjendur í kynfræðirannsóknum, komu fram með í kringum árið 1970. Það felur í sér að einstaklingur einblíni á eigin líkama og útlit í kynlífi líkt og hann sé aðili sem fylgist með athöfninni en ekki beinn þátttakandi. Á sama tíma getur viðkomandi átt erfitt með að njóta kynlífsins þar sem hann er upptekinn af því að „fylgjast með“ eigin útlitsgöllum. Oft eru það ágengar og truflandi hugsanir um eigin líkama og gjarnan einstaka líkamshluta sem koma í veg fyrir að viðkomandi nái að njóta sín bæði líkamlega og tilfinningalega. Margar konur kannast við áhyggjur þegar kemur að kynlífi. Sumar vilja hafa ljósin slökkt svo makinn sjái ekki líkamann, aðrar velja ákveðnar stellingar eingöngu vegna útlits, þær óttast að „útlitsgallar“ sjáist í ákveðnum stellingum, sumar eiga erfitt með að njóta kynlífsins því hugurinn reikar annað og þá oft að útlitinu og hinum meintu göllum og aðrar dreymir um aukið kynlíf þegar „auka“-kílóin eru farin.
Margar telja lausnina vera að breyta útlitinu og eru vissar um að kynlífið verði betra þegar „auka“-kílóin eru farin eða maginn orðinn stinnari. Í einhverjum tilvikum getur það átt við en vitað er að konur geta upplifað óánægju með útlit sitt óháð því hvernig þær líta út. Slæm líkamsmynd finnst hjá grönnum konum og feitum, hjá brjóstalitlum konum sem og hjá þeim sem eru með stór brjóst, hjá konum með mjúka maga, stinna rassa, breið læri og allt þar á milli. Þannig virðist líkamsmynd hafa áhrif á kynverund kvenna óháð líkamsgerð og rannsóknir benda til að það séu frekar hugmyndir kvenna um útlit og stærð en útlitið sjálft sem hafi áhrif á upplifun þeirra í kynlífi. Það er því betra að einbeita sér að því að bæta líkamsmyndina en að vera í endalausri vinnu við það að breyta útlitinu.
Að bæta líkamsmyndina felur meðal annars í sér að einblína ekki á óraunhæfar fyrirmyndir eins og fótósjoppaðar fyrirsætur og hætta að horfa á eigin líkama í gegnum linsu þröngra útlitsviðmiða. Einnig má vinna með neikvæðar hugsanir um eigið útlit, til dæmis með jákvæðu sjálfstali eða hreinlega með því að ræða við makann um áhyggjurnar. Yfirleitt eru áhyggjur kvenna af því hvað elskhuganum finnst um líkamann ekki á rökum reistar. Sumum reynist vel að ná sátt við líkama sinn með því að hugsa vel um hann og einblína á heilsu umfram holdafar. Með því að sjá fegurðina í fjölbreyttum líkamsgerðum má bæta líkamsmyndina og þar með kynlífið.
Athugasemdir