Ég þurfti að leita til læknis um daginn og fór á síðdegisvakt Heilsugæslunnar. Meðan ég beið eftir að vera kölluð inn settist ég í biðstofunni og rak augun í veggspjald um mikilvægi vatnsdrykkju sem hafði verið límt á vegginn beint fyrir framan mig. Veggspjöldin eru gerð af Evrópusamtökum um offiturannsóknir (EASO) en voru þýdd af Fagfélagi fólks um offitu (FFO) í tilefni af Degi um offitu 21. maí sl. Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu styrkti þýðingu veggspjaldsins ásamt fleiri aðilum, þar á meðal líkamsræktarstöð sem hefur beinan ávinning af hræðsluáróðri um holdafar. Ég sökk ofan í sætið mitt. Ég hélt að við værum komin lengra en þetta.
Ekki misskilja mig, ég er algjörlega fylgjandi því að við drekkum meira af vatni og minna af sykruðum drykkjum. Því getur einungis fylgt lýðheilsulegur ávinningur. Hins vegar sé ég hvorki eitt hvatningarorð á veggspjaldinu né einn staf um kosti aukinnar vatnsdrykkju. Í staðinn fyrir að fara jákvæðu og hvetjandi leiðina er farin sú braut að tengja vatn við holdafar og hræðsluáróður um yfirþyngd og offitu. Þetta er líkamssmánun. Mér, sem feitri konu, leið hreint ekki vel með að lesa þetta. Mér fannst ég ekki velkomin á heilsugæslustöðina og óttinn við að umkvörtunarefni mínu yrði ekki tekið alvarlega af lækninum vegna holdafars míns magnaðist þar sem ég beið og virti veggspjaldið fyrir mér. Annað eins hefur nú gerst.
Meginskilaboð veggspjaldsins eru að við séum ekki nógu meðvituð um holdafar okkar og hættur offitu. Af hverju er það talið svona ótrúlega mikilvægt fyrir alla að vera svona meðvitaðir um þessa þætti? Flestir myndu svara þeirri spurningu þannig að það fengi fólk vonandi „til að hugsa sinn gang“ og annað hvort passa að fá ekki á sig aukakíló eða losa sig við þau fyrir fullt og allt. Það er það sem almenn skynsemi segir flestum og er ástæðan fyrir samfélagslegu samþykki fitufordóma og líkamssmánunar. Tilgangurinn á að helga meðalið.
„Fræðaheimurinn er sífellt að verða meðvitaðri um að hræðsluáróður sem þessi virkar ekki og ekki nóg með það, heldur að hann sé meira að segja skaðlegur.“
Málið er bara að almenn skynsemi er ekki svo almenn. Fræðaheimurinn er sífellt að verða meðvitaðri um að hræðsluáróður sem þessi virkar ekki og ekki nóg með það, heldur að hann sé meira að segja skaðlegur. Í okkar fitufordómafullu samfélagi er það afskaplega streituvaldandi uppgötvun að átta sig á því að maður er „of þungur“ samkvæmt líkamsþyngdarstuðli og rannsóknir sýna ítrekað að einstaklingum sem finnst þeir vera of þungir séu líklegari til að þyngjast meira en aðrir. Við vitum ekki nákvæmlega af hverju en rannsóknir sýna þó að líkamssmánun, upplifun af fitufordómum og neikvæð líkamsmynd leiði til minni líkamlegrar hreyfingar og frekari tilrauna til þyngdarstjórnunar og megrunar. Eins og við vitum enda flestar tilraunir til megrunar með þyngdaraukningu og gefur það okkur því ákveðna vísbendingu. Meira að segja rannsóknin sem EASO vísar í á veggspjaldinu rennir stoðum undir þessar kenningar, en í henni voru lagðir spurningarlistar fyrir úrtök innan sex Evrópulanda. Niðurstöðurnar voru að því meðvitaðri sem þjóðirnar voru um hættur tengdar offitu, því hærri var tíðni offitu í viðkomandi landi. Hvernig þeir aðilar sem komu að veggspjöldunum fengu út að þetta væri árangursríkasta og skynsamlegasta leiðin til forvarna og vitundarvakningar fæ ég einfaldlega ekki skilið.
Áherslur á, og fræðsla um, jákvæðar heilsuvenjur án þess að einblína á holdafar er það sem hefur gefist best til að valdefla og hvetja fólk til að hugsa betur um líkama sinn. Við hugsum ekki vel um það sem við hötum og því ætti virðing og væntumþykja í garð líkama okkar að vera hornsteinn allra forvarnaraðgerða sem lúta að heilsuvenjum. Slíkar aðferðir ýta jafnframt ekki undir fitufordóma, eins og hræðsluáróðurinn gerir. Þegar við vegum og metum hvaða nálgun skuli nota í forvarnarstarfi þurfum við nefnilega líka að skoða gallana. Rýrnun á lífsgæðum ákveðins minnihlutahóps getur ekki talist ásættanlegur fórnarkostnaður í nútíma velferðarsamfélagi. Hér helgar tilgangurinn svo sannarlega ekki meðalið, sérstaklega í ljósi þess að samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007, sem heilsugæslan starfar meðal annars eftir, skulu „allir landsmenn eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði“. Heilbrigði er nefnilega svo miklu víðtækara hugtak en bara blóðþrýstings- og blóðsykursgildi.
Yfirlýst markmið Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu eru meðal annars „að vera framsækinn og ábyrgur aðili í íslenskri heilbrigðisþjónustu“ og „að hafa jákvæð áhrif á líf almennings“. Í ljósi þess að veggspjöldin skarast þvert á við þessi markmið, lög um heilbrigðisþjónustu og lög um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 sem leggja bann við hvers konar mismunun, skora ég á alla þá aðila sem að þeim koma að taka þau úr umferð. Enn betra væri ef að þau yrðu algjörlega endurskoðuð með kosti vatnsdrykkju að leiðarljósi. Einföld leit á vefnum leiðir nefnilega í ljós að vatn er náttúrulegt lyf við höfuðverk, viðheldur heilbrigði húðar, eykur einbeitingu, hjálpar til við meltingu, dregur úr þreytu og styrkir ónæmiskerfið. Það er mikilvægt og virðingarvert að hvetja fólk til að huga að vökvabúskap líkamans. Það er bara ekki sama hvernig farið er að því.
Athugasemdir