Í vestrænu samfélagi þykir slæmt að vera feitur. Orðið er ekki bara lýsing á útliti eins og að vera hávaxinn eða dökkhærður heldur er það notað sem gildishlaðið skammaryrði – ef þú ert feitur ertu líka óaðlaðandi, óheilbrigður, gráðugur, latur, heimskur og ógeðslegur.
Það þykir raunar svo slæmt að vera feitur að sumir telja það vera það versta sem hægt er að hugsa sér. Ýmsar kannanir hafa verið gerðar þar sem fjölmargir segjast frekar vilja vera alkóhólistar, þunglyndir, greindarskertir eða missa útlim frekar en að vera feitir. Í einni könnun sagðist fjöldi aðspurðra kvenna vilja frekar lenda undir vörubíl en að þær væru feitar.
Af því að það er svo hræðilegt að vera feitur að sumir vildu frekar deyja (sem er væntanlega möguleiki ef þú lendir undir vörubíl), er gert ráð fyrir því að við feita fólkið séum tilbúin að gera hvað sem er til þess að grennast. Svelta okkur, drekka misgeðslega næringardrykki í hvert mál, gleypa brennsutöflur, reyra líkamann, víra saman kjálkana, gangast undir skurðaðgerðir og þaðan af verra. Sama hvaða áhrif það hefur á heilsu, hamingju eða lífsgæði – tilgangurinn helgar meðalið.
Samfélagið lítur mjög ólíkt á hegðun grannra og feitra á margan hátt. Ef grönn vinkona mín setur mynd af sér að borða risastóra pítsu á samfélagsmiðla eða skrifar á twitter um nammiát helgarinnar þykir það krúttlegt. Ég hef aftur á móti séð feitt fólk fá afskaplegar ljótar athugasemdir þegar það birtir myndir af sér við slíka iðju svo mér myndi aldrei detta það í hug.
Ef grönn manneskja sveltir sig, er með á heilanum hvað hún lætur ofan í sig og er heltekin af vigtinni, fer á klósettið eftir hverja máltíð og losar sig við magainnihaldið með því til dæmis að kasta upp eða laxera kallast það átröskun.
Nú er komin fram ný meðferð við offitu sem svipar óneitanlega til greiningarviðmiða um lotugræðgi. Meðferðin snýst um að fara á klósettið 20 mín eftir hverja máltíð og dæla hluta magainnihaldsins út gegnum slöngu sem er fest við kviðinn. Framleiðendurnir segja að munurinn á meðferðinni og átröskun sé sá að lotugræðgi sé jú ekki læknisfræðilega samþykkt leið til þyngdarstjórnunar (!) og svo hafi þessi meðferð ekki för með sér skemmdir á glerungi og barka því maturinn fari ekki þá leið út. Þú þarft að tyggja matinn mjög vel svo að hann festist ekki í slöngunni og slangan er glær að ásettu ráði segja þeir, það sé svo ógeðslegt að sjá fituríkan mat fara gegnum slönguna að notendum muni langa til að borða hollt bara til að losna við þessa sjón. Frábær lausn fyrir okkur feita fólkið!
„Þú þarft að tyggja matinn mjög vel svo að hann festist ekki í slöngunni og slangan er glær að ásettu ráði segja þeir, það sé svo ógeðslegt að sjá fituríkan mat fara gegnum slönguna að notendum muni langa til að borða hollt bara til að losna við þessa sjón.“
Lýsingarnar og myndirnar af búnaðinum eru frekar ógeðfelldar og það er erfitt að ímynda sér að mörgum þyki spennandi að vera með þennan búnað á sér í lengri tíma. Framleiðendurnir vara hins vegar við því að hætta með búnaðinn því þá gætirðu jú fitnað aftur. En í samfélagi þar sem það þykir svo slæmt að vera feitur að við vildum frekar vera dauð en feit má því miður gera ráð fyrir því að aðsókn í þessa meðferð verði mikil. Það er einnig áhugavert að mun fleiri konur sækja í offitumeðferðir af öllum toga. Af hveru ætli það sé? Getur verið að samfélagsleg pressa um réttan líkamsvöxt, sem við vitum að er gríðarlega mikil á konum, eigi þátt í því að hvaða hópar eru tilbúnir að ganga lengst í von um þyngdartap?
Saga offitumeðferða er um margt áhugverð – og að mínu mati óhugnanleg. Hún sýnir svart á hvítu hversu langt heilbrigðisvísindin hafa verið tilbúin að ganga í að megra feitt fólk, sama hvað það kostar, oft gegn þeirra heilsu og velferð. Ekkert virðist hafa verið of langsótt, fáránlegt , sársaukafullt eða áhættusamt til að ekki væri á það reynandi. Aldrei hefur hins vegar verið prófað að skapa þannig aðstæður frá vöggu til grafar að feitt fólk geti lifað lifa heilbrigðu og góðu lífi í sínum líkama. Frá því við erum pínulítil er okkur kennt að líkamar okkar séu vandamál sem þurfi að leysa. Þessi skilaboð móta okkur og kenna okkur að umgangast líkama okkar á óheilbrigðan hátt.
Við eigum betra skilið. Við eigum skilið að heilsa okkar og velferð sé raunverulega sett í fyrsta sæti. Við eigum skilið að alast upp án skilaboða sem kenna okkur að hata líkama okkar og álíta að það sé betra að vera dauð en feit - og að allar tilraunir til þyngdartaps, sama hversu afbrigðilegar þær eru, séu fullkomnlega eðlilegar og ásættanlegar.
Athugasemdir