Í síðasta mánuði fór af stað herferð á samfélagsmiðlum undir yfirskriftinni #égfagnamér, sem leidd var af fyrirsætunni, leikkonunni og líkamsvirðingaraktivistanum Mariu Jimenez Pacifico. Herferðin snýst um að ögra ríkjandi útlitsstöðlum og voru konur meðal annars hvattar til að birta myndir eða myndbönd af sjálfum sér án andlitsfarða, filtera og annarra trixa sem við notum til að „lagfæra“ útlit okkar (sjá nánar á www.facebook.com/egfagnamer).
Þessi herferð vakti mig til umhugsunar um þá standarda sem við setjum fyrir hvert annað. Ég hafði ekki almennilega hugsað út í það áður, en ég er svo heppin að lifa og hrærast í umhverfi sem skapar mér nákvæmlega enga pressu um að vera öðruvísi en ég er. Fólkið sem ég umgengst er ekki mikið að pæla í útliti annarra og talar lítið um það. Ég verð ekki vör við útlitsdóma í mínu nánasta umhverfi. Konurnar í kringum mig eru oft ómálaðar án þess að ég hafi beinlínis leitt hugann að því. Mér finnst mjög frelsandi að umgangast ómálaðar konur því það dregur úr normalíseringu þess að konur þurfi alltaf að vera málaðar. Þessari ósögðu kröfu um að konur þurfi að vera með varalit til að geta talað.
„Ég hef ekkert á móti andlitsfarða per se en hann mætti vera meira valkvæður (og nota bene þá fyrir öll kyn) og minni nauðsyn eða krafa.“
Þessi krafa er algjörlega óþolandi. Ég hef ekkert á móti andlitsfarða per se en hann mætti vera meira valkvæður (og nota bene þá fyrir öll kyn) og minni nauðsyn eða krafa. Kannski eins og pils. Konur mega vera í buxum eða pilsum og það skiptir litlu máli hvort þær velja. Sumar konur eru oftast í kjólum eða pilsum en aðrar eru alltaf í buxum – og sumar láta dagsformið bara ráða. Pils þykja kannski aðeins fínni en það er samt engin krafa á konur að vera alltaf í pilsum. Konur sem mæta í buxum á mannfagnaði eru ekki litnar hornauga. Þannig myndi ég vilja sjá andlitsfarða.
Ef andlitsfarði væri persónulegt val ómengað af samfélagslegum kröfum þá er ég líka viss um að konur myndu mála sig sjaldnar. Þá kæmi í ljós að þær eru ekki bara að mála sig „fyrir sig“ eða af því þær „langar“ það. Það er innri pressa. Það er mun meira félagslega samþykkt að konur séu málaðar en ómálaðar, sérstaklega eftir ákveðinn aldur. Það er bara þannig. Sumar konur tala jafnvel um að ef þær mæta ómálaðar í vinnuna fái þær áhyggjufullt augnaráð og spurningar um hvort þær séu nokkuð veikar. Við erum sem sagt orðin svo óvön náttúrulegu útliti kvenna að við höldum að það sé eitthvað mikið að ef þær sýna sitt rétta andlit. Enda hafa konur lengi talað um að þær séu að „setja á sig“ andlitið þegar þær setja á sig farða. Eins og þær séu andlitslausar án hans. Herferðin hennar Mariu snýst kannski um að sýna að konur séu með andlit þótt þær séu ekki með farða og þær geti vel talað þótt þær séu ekki með varalit (takk, Elísabet Jökulsdóttir). Þær hafa rödd þótt þær uppfylli ekki útlitskröfur.
Ég vona að þessi herferð veki sem flesta til umhugsunar. Við höfum ótrúlega mikil áhrif á hvert annað og þær kröfur sem við reynum að uppfylla með klæðaburði, andlitsfarða, filterum og öðru skapar ekki bara standarda fyrir okkur heldur einnig fyrir aðra. Það getur til dæmis verið freistandi að leika sér með ólíka filtera á samfélagsmiðlum enda skapa þeir skemmtilega stemningu, lýsingu og annað sem er erfitt að ná fram með öðrum hætti. En ef notkun okkar á filterum er farin að snúast um að sýna aðra mynd af okkur en passar við raunveruleikann, þegar við erum farin að slétta úr hrukkum, laga áferð eða jafnvel fótósjoppa myndir af okkur áður en þær birtast umheiminum, þá erum við í raun orðin hluti af þeim samfélagsöflum sem hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að skapa óraunhæfar útlitskröfur.
Þegar við þorum að vera við sjálf gefum við öðrum leyfi til að vera það líka. Þegar við þorum að vera ófullkomin gefum við öðrum leyfi til að vera það líka. Við getum stuðlað að því að fólkið í kringum okkur verði afslappaðra gagnvart útlitskröfum samfélagsins eða við getum, meðvitað eða ómeðvitað, aukið þessar kröfur. Hugsaðu til dæmis um það hvernig þér líður þegar þú ert í hópi fólks þar sem allt snýst um útlitstal, útlitshrós og undirliggjandi samanburð á útliti, líkamsvexti og klæðnaði. Berðu það svo saman við hvernig þér líður í kringum fólk sem lítur ekki á útlitið sem þinn mikilvægasta eiginleika. Sem metur allt aðra hluti í þínu fari. Hvorum megin líður þér betur? Og hvaða áhrif vilt þú skapa fyrir þá sem eru í kringum þig?
Fögnum okkur. Jólin eru nú einu sinni tími fagnaðar. Ég er ekki endilega að segja að við þurfum að mæta ómálaðar í jólaboðin. En ég er að segja að það má.
Athugasemdir