Megininntakið í ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar um að hætta við að hætta sem forseti í annað skiptið og reyna við 24 ára valdasetu var tvíþætt:
1. Óvissa um myndun nýrrar ríkisstjórnar eftir næstu kosningar
2. Viljinn til að hafa áhrif á nýja stjórnarskrá.
Af rökstuðningi Ólafs Ragnars er því strax ljóst að ákvörðunin um að halda völdum beinist fyrst og fremst gegn miklum stuðningi almennings við Pírata í skoðanakönnunum.
Í fyrsta lagi verða Píratar í lykilstöðu til að mynda nýja ríkisstjórn, ef fer sem horfir, þar sem þeir hafa haft yfirgnæfandi fylgi meðal almennings í tæpt ár. Í öðru lagi vilja Píratar innleiða nýja stjórnarskrá eftir vilja almennings.
Vill verma konungssætið áfram
Ólafur hefur vísað til vilja þjóðarinnar um nauðsyn þess að hann gegni áfram stöðu forseta, sem er í reynd embætti þjóðkjörins konungs, þar sem gamla stjórnarskráin byggir á danskri fyrirmynd með litlum tilfærslum. Framboði hans er hins vegar greinilega ætlað að veita mótvægi við breytingarvilja almennings.
Breytt stjórnarskrá var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012. En núverandi ríkisstjórn kaus að sniðganga niðurstöðurnar, án þess að Ólafur Ragnar gerði athugasemdir við það, þrátt fyrir yfirlýsta áherslu á lýðræði, enda er hann sjálfur mótfallinn henni.
Hann horfði framhjá því að ríkisstjórnarflokkarnir hefðu komist til valda út á að lofa þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið, án þess að standa við það, vegna þess að hann er á móti aðild. Horfði framhjá 35 þúsund undirskriftum vegna andstöðu fólks gegn lækkun gjalda útgerðarfyrirtækja fyrir afnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, þótt þær hefðu verið fleiri en áskoranirnar á hann um að hætta við að hætta sem forseti í fyrra skiptið. Öryggisventillinn virkaði ekki.
Meðal helstu breytinga í nýju stjórnarskránni voru að tryggja að beint lýðræði ylti ekki eingöngu á geðþótta eins manns, sem með óútreiknanlegum hætti boðar þjóðaratkvæðagreiðslu um eitt mál meðan hann sleppir því í öðrum málum. Með stjórnarskránni sem var samþykkt af þjóðinni var valdið til beins lýðræðis flutt til almennings með þeim hætti að undirskriftir 10 prósent kjósenda nægðu til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig þyrfti þjóðin ekki bjargvættinn á Bessastöðum.
Hagsmunaárekstur Ólafs Ragnars
Tilurð nýju stjórnarskrárinnar var með eins lýðræðislegum hætti og mögulegt var. Stjórnlagaráð var kjörið beint af almenningi, til þess að koma í veg fyrir að flokksræðið hefði áhrif á myndun hennar. Ástæðan var að alþingismenn eru í reynd vanhæfir til að móta stjórnarskrá, því stjórnarskráin snýst um að afmarka vald þeirra. Ferlið átti að koma í veg fyrir hagsmunaárekstur. Þetta hefur verið þekkt lengi. Á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar, nokkrum árum eftir að gamla stjórnarskráin var afrituð frá Danmörku, vildu bæði Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn halda óháð stjórnlagaþing sem myndi smíða nýja stjórnarskrá fyrir Ísland.
Forsetinn, sem ætlar sér að hafa þau áhrif að stjórnarskráin verði ekki eins og hún var samþykkt af almenningi, virðist ekki sjá að hann er sjálfur vanhæfur. Enda hefur stjórnarskráin þau áhrif að óljósar valdheimildir hans eru skýrðar og gert mögulegt að veita ríkjandi ríkisstjórn beint aðhald án hans aðkomu, án hans valds og án hans blaðamannafunda.
Ólafur Ragnar virðist ekki vera meðvitaður um hagsmunaárekstur sinn. Óvænt innreið hans í kosningabaráttuna hófst í krafti aðstöðumunar. Hann fékk forsetaritara til að senda óljósa yfirlýsingu um blaðamannafund, sem haldinn var í forsetabústaðnum. Forsetaritarinn var sagður geta gefið nánari upplýsingar um blaðamannafundinn, en sagðist ekki geta gefið neinar upplýsingar. Blaðamenn vissu því ekki hvort verið væri að boða persónulegt erindi Ólafs eða embættisverk forseta Íslands, til dæmis þingrof. Aðrir frambjóðendur höfðu ekki þetta tækifæri til að nýta sér starfsmenn og vettvang ríkisins til að kynna persónuleg framboð sín.
Valdastóllinn inngróinn í sjálfsmyndina
Það er til marks um sýn Ólafs Ragnars á sjálfan sig að hann telur sig persónulega samvaxinn forsetaembættinu og þjóðinni. Hlutverk hans sem tákngervings þjóðarinnar virðist hafa gróið inn í sjálfsmynd hans og fyrirmunað honum að aðskilja frambjóðandann og persónuna Ólaf Ragnar frá embættinu, sem er ekki hans eign til persónulegra nota. Forsetaembættið er tileinkað þjóðinni en ekki þeim sem vermir stólinn hverju sinni, samgróinn sjálfi hans eður ei.
En er ekki rétt að hann bjóði sig fram ef þjóðin þráir það, svo hann standi vaktina með þjóðinni og lúti vilja lýðræðisins? Miðað við orð hans sjálfs þegar hann boðaði í annað skiptið að hann ætlaði að stíga af stóli gengur það ekki upp. Hann lýsti því þannig í nýársávarpi sínu:
„Margir hafa þó á undanförnum mánuðum í samræðum, með orðsendingum eða bréfum höfðað til skyldu minnar og áréttað að enn ríki óvissa á ýmsum sviðum, einkum varðandi skipan Alþingis og ríkisvalds á komandi árum. Ég met mikils traustið sem allt það góða fólk sýnir mér en bið það og landsmenn alla að íhuga vel lýsinguna á kjörstöðu Íslands sem ég hef í dag gert að meginboðskap. Í ljósi hennar og á grundvelli lýðræðisins sem er okkar aðalsmerki finnast mér blasa við hin réttu vegamót til að færa ábyrgð forseta á aðrar herðar og hef því ákveðið að bjóða mig ekki fram til endurkjörs,“ sagði hann.
„Eftir atburði síðustu vikna og í ljósi óvissunnar framundan hefur sú alda þrýstings orðið æði þung.“
Síðan gerðist það að fjölmiðlar stóðu vaktina og almenningur brást við með mótmælum gegn hagsmunaárekstri ráðherra. Allt gekk eins og það átti og forsætisráðherrann vildi boða til kosninga, en Ólafur sá það sem persónulegt tækifæri og setti sjálfan sig í aðalhlutverk:
„Í kjölfar nýliðinna atburða hefur fjöldi fólks víða að úr þjóðfélaginu á undanförnum vikum höfðað til skyldu minnar, reynslu og ábyrgðar, og beðið mig að endurskoða ákvörðunina sem ég gaf út í nýársávarpinu, hvatt til þess að ég gefi á ný kost á mér til embættis forseta Íslands, standi áfram vaktina með fólkinu í landinu. Eftir atburði síðustu vikna og í ljósi óvissunnar framundan hefur sú alda þrýstings orðið æði þung.“
Gleymum því að hann eigi að standa við orð sín eða vera samkvæmur sjálfum sér. Gleymum líka öllu fólkinu sem hefur íhugað, undirbúið og framkvæmt framboð til forseta með tilheyrandi umturnun á lífi sínu. Gleymum óvissunni sem hann framkallar með boðun og afboðun brotthvarfs síns úr valdastóli. Gleymum öllu öðru en forsendum framboðs hans.
Almannavaldinu veitt mótvægi
Óvissan sem Ólafur vísar til er vilji almennings til breytinga. Það sem forsetinn óttast við framtíðina er þjóðin sjálf. Hann ætlar að vernda okkur fyrir okkur sjálfum; sterki leiðtoginn sem greri fastur við sinn óljósa valdastól. Maðurinn sem telur sig konung.
Ólafur Ragnar hefur frelsi til að bjóða sig fram aftur og fólk hefur valdið til að kjósa hann. En höfum það á hreinu: Ákvörðun Ólafs um að hætta við að stíga af valdastóli snýst um að veita almannavaldinu mótvægi, en ekki um að styrkja það. Hann ætlar ekki að „standa vaktina með þjóðinni“ heldur standa vaktina yfir þjóðinni, í gamaldags mynd sem holdgervingur hennar og konungur í breytilegum heimi sem kallar á meira lýðræði og minna foringjaræði.
Athugasemdir