Fyrir nokkrum árum síðan fékk ég blóðtappa í hægri fótinn eftir að hafa ferðast fárveikur af svínaflensu í þröngum flugsætum í nokkrar vikur. Gott á þig, sagði læknirinn, þú ert með FBF-syndróm. Hvað er það? spurði ég. Feitt barn femínista, svaraði læknirinn alvarlegur í bragði. Karlmenn af þinni kynslóð, börn menntaðra og pólitískt upplýstra kvenna, þið eruð ekki nógu duglegir að dreifa úr ykkur, þið „man-spreðið“ ekki nóg. Ég yppti öxlum og var ekkert að segja frá því að þaulsetur fyrir framan tölvuskjá hefðu kannski líka haft sitt að segja. Svo væri ég of feitur, bætti læknirinn við. Ég yrði að hreyfa mig meira.
Þannig hófst líkamsræktartímabil í lífi mínu. Ég byrjaði á því að fara í ræktina, lyfta lóðum, hlaupa og stunda jóga. Þetta gekk sæmilega og ég komst í betra form á nokkrum mánuðum. En líkamsrækt getur verið tilbreytingarlaus til lengdar og eftir þrjú, fjögur ár í World Class var ég á góðri leið með að drepa mig úr leiðindum.
Það var þá sem ég ákvað að prófa klúbb í gamla vesturbænum sem kenndi sig við hamar Þórs.
Mig minnir að ég hafi í fyrstu selt sjálfum mér að fara þarna inn til að ná í efni um steratröll í skáldsögu – en svo ílentist ég. Þarna var stundað svokallað Víkingaþrek sem gekk í stuttu máli út á það að iðka ýmsar æfingar, oftast með kúabjöllum, allt þar til fólk örmagnaðist og hné niður.
Ég var líka látinn berja og sparka í púða og fékk við það margfalt meiri útrás en í dauflegum tækjasal. Nokkur spörk í mittishæð og ég komst í þægilega serótónínvímu á eftir. Undir þessu var leikin hörð tónlist og allt drifið áfram af ógnarkrafti. Þetta var kikk sem ég hafði aldrei upplifað áður og auðvitað ánetjaðist ég.
Þegar ég flutti til Þýskalands stuttu síðar saknaði ég þess strax að finna sömu áhrif og í Mjölni við Seljaveg. Þá vildi svo skemmtilega til að Wolfgang, ritarinn í leikskóla drengsins míns, átti og rak bardagaklúbbinn MMA Prússland. Fyrsti tíminn í þeim félagsskap var svolítið menningarsjokk fyrir mig. Í stað þess að hlussast á eftir hálffeitum íslenskum unglingum og sprikla í þrautahringjum var ég látinn sippa eins og vitleysingur. Í stað dúndrandi undirleiks Daft Punks átti ég að skuggaboxa út í loftið í margar mínútur í dauðaþögn. Síðan tók við eins konar samkvæmisdans, sparkað í skanka á næsta manni, eða boxað í lófa og púða sem var haldið á lofti. Konur voru þarna í minnihluta, þá ansi brúnaþungar og gerðu sitt besta til að sparka í klofið svo mér þótti stundum nóg um. Þarna náði ég mér þó í sama serótónínkikkið og ég hafði vanist heima og gat haldið mér í viðunandi formi.
Undir lok þessa tímabils fór Wolfgang af stað með tíma fyrir börn – sem mér leist vel á til að byrja með. Sonur minn er glaðlynt barn sem finnst gaman að fljúgast á í gamni eins og flestum börnum á hans aldri og mér fannst tilvalið að veita þeirri orku í skynsamlegan farveg.
Honum kom auk þess vel saman við son Wolfgangs sem hafði erft blíðlegt yfirbragð japanskrar móður. Tímarnir fór ágætlega af stað með léttum þrekæfingum og leikjum og þegar við fórum til Íslands hlakkaði drengurinn til að halda áfram um haustið.
Á Íslandi fékk drengurinn að taka þátt í barnastarfi Mjölnis. Þarna voru áherslur og kennsluaðferðir þó nokkuð frábrugðnar þeim í Berlín. Unglingar aðstoðuðu við kennsluna og aðdáunarvert að sjá hversu varlega þeir eldri kenndu þeim yngri að fara í kollhnís á stórum bláum boltum til að læra að detta, án þess að meiða sig.
Það skipti líka máli að kennararnir voru yngri og af báðum kynjum. Í stað þess að tveir miðaldra karlmenn stæðu öskrandi úti á miðju gólfi voru hér reffilegar ungar konur jafn sterkar fyrirmyndir og karlarnir. Í stuttu máli sagt var verið að gera eitthvað rétt í Mjölni og ég fór að sjá MMA Prússland í öðru ljósi.
Wolfgang hafði farið með son sinn í ægilegar sumarbúðir í Japan og sagði stoltur frá því að barnið hefði beygt af á æfingum.
Um haustið þegar við komum út aftur hætti mér alveg að lítast á blikuna. Wolfgang hafði farið með son sinn í ægilegar sumarbúðir í Japan og sagði stoltur frá því að barnið hefði beygt af á æfingum. Ég sagði fátt en hugsaði með mér að fimm ára barn ætti nú betra skilið. Mér líkaði heldur ekki hvernig þjálfarinn einbeitti sér mest að syni sínum á æfingum og vanrækti hin börnin.
Ég fékk síðan nóg þegar hann fór að senda mér tölvupósta þess efnis að ég ætti að mæta með soninn og viðeigandi „Ausrustung“ klukkan níu á laugardagsmorgni í úthverfi í Berlín þar sem sonurinn átti að takast á við önnur börn „ef hann þyrði“.
Ég svaraði um hæl að sonur minn myndi ekki undir neinum kringumstæðum taka þátt í bardögum. Síðan hættum við feðgar að mæta.
Nokkrum mánuðum síðar gúglaði ég barnahóp Wolfgangs og fann mynd af þeim í austur-þýskum íþróttasal einhver staðar fyrir norðan Berlín þar sem rúmlega hundrað drengir frá Þýskalandi og Póllandi mættust á keppnismóti. Alvörugefnir dómarar fylgdust með drengjunum fljúgast á og gáfu stig. Það var eitthvað svo innilega rangt við þetta.
Ég skil svo sem alveg að margir séu á móti bardagaíþróttum. Sjálfur horfi ég sjaldan á þær, þó dáðist ég að Muhammed Ali þegar ég var barn því hugmyndin um bardagahetju sem gat jafnframt tekið stórt upp í sig og kannski breytt heiminum til hins betra heillaði barnssálina. Í samanburði við Ali eru bardagamenn samtímans frekar litlausir.
En þeir sem hafa einhver tímann staðið berfættir á mottulögðu gólfi, frammi fyrir andstæðingi og fundið svitalykt í bland við ilminn af leðri boxpúðanna, þeir hinir sömu hafa ánetjast einhverju sem þeir losna aldrei undan og fylgir þeim út ævina.
Nú, þegar ég er að klára verkefni sem hefur átt hug minn allan í rúm tvö ár – kominn í svo afleitt form að sonur minn bendir á mig skríkjandi af hlátri og spyr hvort ég ætli virkilega alltaf að vera svona „mjúkur“ – þá skima ég í kringum mig eftir herbergi með púðum sem ég get sparkað í.
Athugasemdir