„Ég gleymi aldrei jarðarförinni í Narsaq. Það var vindur og hræðilega kalt þar sem hundruð manna stóðu í kirkjugarðinum til að kveðja fólk sem með réttu hefði átt að vera að byrja líf sitt en ekki enda það,“ segir Inga Dóra Guðmundsdóttir Markussen, um fjöldamorð á ungmennum sem átti sér stað á Suður-Grænlandi þegar hún var rúmlega tvítug. Meðal hinna föllnu var náfrænka hennar.
Inga Dóra á að baki feril sem áberandi bæjarfulltrúi í Nuuk. Seinna varð hún ritstjóri AG, áhrifamesta blaðs Grænlands, og fletti ofan af spillingarmálum í samfélaginu.
Inga Dóra fæddist á Íslandi og ólst þar upp til 12 ára aldurs þegar hún flutti með fjölskyldu sinni til Grænlands.
„Ég fæddist á Þorláksmessukvöld árið 1971 í Reykjavík. Mamma og pabbi höfðu kynnst í Kaupmannahöfn. Hann frá Íslandi en hún frá Grænlandi. Þetta var á hippatímabilinu. Þau sáust fyrst á barnum Skipperkroen í borginni. Þegar mamma birtist hélt pabbi að hún væri indíáni. Hún leit út eins og Pocahontas. Hann féll strax fyrir henni og varð hugfangin. Þetta reyndist vera ást við fyrstu sýn og þau hafa verið saman síðan.“
Alin upp í Breiðholti
Litla fjölskyldan var framan af á leigumarkaði. Hjónin, Guðmundur Þorsteinsson og Benedikte Thorsteinsson, störfuðu bæði í álverksmiðjunni í Straumsvík. Hún á skrifstofunni en hann var í verksmiðjunni, lengi sem trúnaðarmaður. Þau keyptu í fyllingu tímans íbúð í Strandaseli í Breiðholti. Þar ólst Inga Dóra upp.
„Ég stundaði nám í Ölduselsskóla. Á sumrin fór ég til móðurfjölskyldu minnar á Suður-Grænlandi. Mamma var sátt við að búa á Íslandi en pabbi var altekinn af þeirri hugmynd að flytja til Grænlands og taka við búinu af afa og ömmu. Mamma er frá sveitabæ sem heitir Eqaluit. Hann er austan við Qaqortoq, um hálftíma siglingu þaðan. Nafn bæjarins útleggst á íslensku „Þar sem silungurinn er“. Grænlenskan er myndmál, gjarnan sett saman úr fleiri en einu orði. Þannig er eldhús staðurinn þar sem potturinn er. Vorið 1984 var ákveðið að flytja til Grænlands. Þá vorum við systkinin orðin þrjú. Súsan Ýr var næst mér í aldri og Andreas Þorsteinn yngstur.“
Athugasemdir