Ég er fæddur 16. febrúar en held jafn mikið upp á 14. nóvember. Ég hef gert það síðan árið 2009. Þetta ár hafði verið algjör martröð. Ég hafði lengi átt í baráttu við þunglyndi en þegar þarna var komið var ég einnig farinn að fá skyndileg kvíðaköst.
Ég gat oft ekki tekið í hurðarhúninn er ég var að fara út og lyppaðist bara skjálfandi niður í ekkasogum. Ég fékk einnig stundum heiftarleg köst með afar hröðum hjartslætti og öndunarerfiðleikum. Ég hélt hreinlega stundum að ég væri að deyja.
Ég hafði lengi notað áfengi og önnur lyf til að deyfa þunglyndið en hefðbundin lyf hjálpuðu mér lítið. Seinna var mér bent á það að áfengisneysla dregur mjög úr virkni þessara lyfja. Ég var semsagt að slökkva á þeim um hverja helgi. Áfengi er þó afar vont þunglyndislyf því bölmóðurinn kemur tvíefldur til baka. Kærasta mín hafði árum saman hvatt mig til að leita mér hjálpar en ég maldaði í móinn og gerði ekkert. Þegar hún nennti þessu ekki lengur og fór jókst neyslan bara og ég var kominn með banvænan kokteil af áfengi og róandi/örvandi lyfjum. Endalausar dauða – og uppgjafarhugsanir endurómuðu í hausnum á mér. Ég fékk martraðir þar sem blóð, djöflar og helvíti spiluðu stóra rullu. Ég var alveg að missa vitið.
Þetta gat ekki endað vel og eftir ferlegt kvíðakast þar sem ég tók dúkahníf og skar mig til blóðs, gafst ég upp og hringdi á hjálp. Ég var í rúmar tvær vikur á geðdeild og fékk frábæra meðhöndlun. Ég gleymi aldrei lækninum sem greip í handlegginn á mér og horfði alvarlega á mig og tjáði mér að það væri lífsspursmál að ég hætti að drekka. Eitthvað ljós kviknaði í kollinum á mér þarna. Ég skráði mig á námskeið í hugrænni atferlismeðferð, ákvað að forðast áfengi og hugbreytandi lyf og fór í langtímameðferð hjá geðlækni.
Ég ákvað að takast á við þunglyndið, þennan stórhættulega sjúkdóm, enda fannst mér ég hreinlega hafa horft inn í helvíti og var sannfærður um að ég myndi ekki verða langlífur ef ég gerði ekki eitthvað í þessu. Mér fannst útlitið ekki gott er ég leit í spegil. Ég sá bara rúmlega fertugan mann með nær enga menntun, á svörtum lista hjá öllum fjármálastofnunum, ég sá enga framtíð, bara mann sem hafði kastað lífi sínu á glæ. Mann sem langaði mest að deyja.
„Ég man eftir haustdegi árið 2010 þar sem ég sat og drakk kaffi og horfði út um gluggann og áttaði mig á að mér leið bara ágætlega.“
Á þessum 7 árum hafa svo undraverðir hlutir gerst að ég þarf stundum að klípa mig til að trúa þessu. Ég man eftir haustdegi árið 2010 þar sem ég sat og drakk kaffi og horfði út um gluggann og áttaði mig á að mér leið bara ágætlega. Mér varð hverft við og leitaði eftir mínum gömlu félögum, þunglyndinu, kvíðanum og sjálfsvanmatinu en fann ekkert. Þetta var bara huggulegur haustdagur, ég drakk gott kaffi og mér leið vel og hafði engar áhyggjur. Ég hafði ekki upplifað þetta í áratugi.
Fjármálin löguðust og ég kom mér af þessum hataða svarta lista. Þegar ég loks lagði í það að hitta lögfræðingana augliti til auglitis sá ég að þetta voru ekki bjúrókratískar vampírur með vígtennur heldur venjulegt fólk sem sinnti sinni vinnu. Helsti sigurinn var þó að ég lét þann draum rætast að fara í nám. Ég kláraði BA-nám á síðasta ári og er nú í mastersnámi. Mér finnst eiginlega eins og ég hafi endurfæðst 14. nóvember 2009, daginn sem ég hætti að drekka. Ég er ennþá með ör eftir dúkahnífinn en mér þykir afar vænt um þau í dag því þau minna mig á það sérhvern dag hvernig ástandið var hér áður.
Frásögnin birtist fyrst á Facebook-síðu Flosa í gærkvöldi. Hún er birt að fenginni heimild höfundar í þeim tilgangi að dreifa lærdómnum.
Athugasemdir