Ég hef átt alls konar jól. Dramatísk eins og þegar ég gaf föður mínum og eldri bróður sameiginlegar nærbuxur í pakka sem ég merkti með árituninni „Gleðilega hræsnishátíð“ og var hent út í snjóinn. Stundum hafa þau verið einmanaleg eins og þegar ég lá einn á ströndinni í Cadiz á Spáni og virti fyrir mér stjörnunar á himnum. Eða timbruð eins og á síðunglingsárunum þegar ég mætti í jólasteikina heim til mömmu uppáklæddur, hreinn og strokinn en þó eins og skjálfandi gras innan í mér, ennþá með viskíælubragð í munninum eftir margra vikna djamm í aðventulátunum í Reykjavík.
Nokkrum dögum fyrir síðustu aldamót kynntist ég einmitt konunni minni á aðventunni. Nánar tiltekið í starfsmannapartíi fjölmiðlasamteypu í Reykjavík. Hún hafði skrifað grein sem hét „Tíu ráð til að eyðileggja jólin“ og ritstjórinn, sem vildi svo til að var mágur minn, stakk upp á að hún léti mig myndskreyta hana. Hún mætti þó ekki sýna mér svæsnustu atriðin á listanum því þá myndi ég bara teikna þau og ekkert annað.
„Sama kvöld hittumst við hjónin svo í fyrsta sinn og villtumst meðal annars inn á jólaskreytta strippbúlluna Óðal og 22“
Sama kvöld hittumst við hjónin svo í fyrsta sinn og villtumst meðal annars inn á jólaskreytta strippbúlluna Óðal og 22. Þegar ég vaknaði heima hjá henni daginn eftir var það fyrsta sem ég sá fyrrnefndur listi í allri sinni lengd, þar með talið það allra svæsnasta. Ég flýtti mér heim og myndskreytti hann eins og mér hugnaðist best. Og nú styttist óðum í að við getum haldið upp á tuttugu ára brúðkaupsafmæli.
Við héldum þó ekki upp á hátíðarnar saman þetta árið. Þessi jól sat ég aleinn uppi á hanabjálka í Þingholtum og horfði á Pulp Fiction og át popp meðan hún borðaði jólagæsina með sósuðum ættingjum í úthverfum Reykjavíkur.
Við höfum síðan haldið öll jól heilög saman á þessari öld, í allavega fjórum löndum, og af konunni minni lærði ég hvað það þýðir að vera með „jólasting“ en það er þegar fullorðið fólk týnir sér í jólastressi og nostalgíu.
Ein af furðulegri jólum sem við hjónin höfum upplifað saman áttu sér stað rétt fyrir síðasta hrun á Spáni. Á þessum árum bjuggum við í Barcelona og þannig vildi til að vinur okkar og nágranni bauð okkur með sér til Andalúsíu til að halda upp á jólin ásamt fjölskyldu sinni og vinum. Við urðum samferða honum og mömmu hans og vinkonu hennar í næturlest suður til Granada. Þetta voru litríkar konur sem mættu á Saints-lestarstöðina í Barcelona ríðandi á vespu og veifandi mótórhjólahjálmum eins og kynþokkadísir í bíómyndum Pedró Almodovar.
Á leiðinni suður með næturlest varð loftið þó lævi blandið því vinur okkar, sem var öllu jafna hinn mesti hipster-hani, fór að tína af sér eyrnalokkana einn af öðrum og greiða hárið niður með vöngum. Þegar við spurðum hann út í athæfið kom í ljós að enginn í stórfjölskyldunni fyrir sunnan mátti vita að hann væri samkynhneigður. Hvað þá að mamma hans, sálfræðingurinn, væri lesbísk og vinkonan – og fyrrverandi skjólstæðingur hennar – nýfengin ástkona. En hún var reyndar líka gamall djammfélagi sonarins og jafnaldri hans.
Um morguninn þegar við keyrðum af stað á hvítum bílaleigubíl frá aðalbrautarstöðinni í Granada vorum við því eins og ein stór lygi.
Fyrsti áningarstaðurinn var í þorpi í fjöllunum þar sem okkur var tekið með kostum og kynjum af ömmusystrum vinar okkar. Sátum við kringlótt borð með rafmagnshitara, svokölluðum brasero, undir þykkum dúk. Dúkurinn lafði niður á gólf og heimilisfólkið læddi fótunum undir hann til að ylja sér á tánum. Við þetta myndaðist nánd og einlæg stemning sem var skemmtilega á skjön við öll leyndarmálin sem ekki mátti tala um.
Daginn eftir keyrðum við niður að Costa del Sol þar sem móðursystir vinar okkar bjó ásamt afa hans í litlu túristaþorpi við ströndina. Afinn, sem mátti ekki vita neitt um samkynhneigð flest allra niðja sinna, var prestur en löngu hættur að þjóna fyrir altari. Hafði víst verið afar strangur á árum áður en þó mildast talsvert með árunum. Á aðfangadagsmorgun hélt sá gamli í messu og að henni lokinni settist hann við borðið og svældi krítarpípu þannig að væmna lykt af kannabis lagði yfir borðshaldið. Sálfræðingurinn, eldri dóttir hans, reykti þetta með honum, en þau hin virtust hafa hálfgerða skömm af neyslu gamla fólksins.
Ástkona móður vinar okkar heimtaði að sjá um jólamatinn. Það er óhætt að segja að þetta hafi verið ein dapurlegasta jólamáltíð sem ég hef nokkurn tímann tekið þátt í. Þessi ágæta kona hafði nefnilega endurfæðst nýlega sem grænmetisæta; hún var full metnaðar í eldamennskunni og batt jafnvel vonir við að geta með tímanum séð fyrir sér sem meistarakokkur. Í þessari uppljómun yfir eigin hæfileikum í eldhúsinu hafði hún þó einhvern veginn gleymt að til eru krydd. Mauksoðnar sætar kartöflur með rófum urðu hreint ótrúlega ólystugar og finnst mér þó grænmetismatur oftast nær mjög góður, ætla til dæmis að borða dýrindis hnetusteik um þessi jól.
Jólin mín hafa semsagt verið á alla vegu. Hin fullkomnu jól finn ég kannski aldrei en ég hef nálgast þau með börnunum mínum. Kannski kemst ég næst fullkominni hátíð þegar ég læðist með jólagjafir í plastpoka yfir drifhvíta Reykjavík meðan Dómkirkjan slær inn hátíðarnar klukkan átján. En eitt þykist ég þó vita: ef allir fá að vera þeir sjálfir og maturinn bragðast vel verða jólin gleðileg.
Athugasemdir