Íslenska handboltalandsliðið stendur nú í ströngu í borginni Katowice í Póllandi. Eins og allar borgir í Mið-Evrópu á Katowice sér langa, flókna og að sumu leyti hörmulega sögu.
Nú búa í Katowice 303 þúsund manns, eða aðeins örlitlu færri en allir Íslendingar. Borgin er hluti Slesíu, auðugs héraðs sem liggur á mótum Súdetafjalla í suðri og pólsku sléttunnar í norðri. Sléttan er frjósöm og í fjöllunum voru miklar kolanámur og málmar í jörðu svo Slesía hefur ævinlega verið eftirsótt, og oft bitist um héraðið.
Hinir upphaflegu Slesíumenn töluðu slavneska tungu en mál þeirra varð með tímanum fyrir heilmiklum þýskum áhrifum og Þjóðverjar tóku að setjast í vaxandi mæli að í héraðinu á ofanverðum miðöldum.
Fyrst spyrst til Katowice á 14. öld. Þá er um að ræða nokkur þorp sem síðan vaxa saman í dálitla borg. Á 18. öld var orðið heilmikið af Þjóðverjum í bænum. Þá var farið að halla mjög undan fæti hjá Póllandi og svo fór að evrópsku stórveldin Austurríki, Rússland og Prússland (Þýskaland) hreinlega gleyptu landið og skiptu því á milli sín.
Mestallur hluti Slesíu féll í hendur Prússa og þar með Katowice. Á 19. öld fluttust æ fleiri Þjóðverjar til borgarinnar og þar upphófst iðnaður í stórum stíl.
Á 18. öldinni höfðu fyrstu Gyðingarnir flust til Katowice. Þrátt fyrir að þeim væri á ýmsan hátt gert erfitt fyrir allt frá byrjun, þá óx fjöldi þeirra smátt og smátt og þeir tóku vaxandi þátt í bæjarlífinu.
Við lok fyrri heimsstyrjaldar var Pólland endurreist. Héraðið í kringum Katowice var þá á mótum Þýskalands og hins nýjar Póllands og stórveldin ákváðu að fram skyldi fara atkvæðagreiðsla meðal íbúanna um hvoru landinu borgin og héraðið ættu að tilheyra. Mikið gekk á þegar sú atkvæðagreiðsla var haldin og lá við stríðsástandi. Niðurstaðan varð sú að meirihluti íbúa í Katowice vildi teljast til Þýskalands en meirihluta íbúa á landsbyggðinni umhverfis vildi tilheyra Póllandi.
Eftir að fréttir bárust um að stórveldin hneigðust til að halda fram hlut Þýskalands í málinu, þá gerðu pólskir (og/eða slesískir) íbúar uppreisn í maí 1921 og fengu því til leiðar komið að lokum að borgin og héraðið yrðu hluti Póllands. Margir þýskumælandi íbúar héldu þá brott. Gyðingum fjölgaði hins vegar því þeir fluttust í þó nokkrum mæli til borgarinnar frá öðrum stöðum í Póllandi.
Um 1930 voru íbúar í Katowice um 130 þúsund. Gyðingar voru þá um 9.000, margir þeirra verslunarmenn og iðnaðarmenn. Gyðingarnir áttu að sögn verulegan þátt í að borgin óx og dafnaði hratt. En á fjórða áratugnum hófust líka Gyðingaofsóknir í Katowice - félög iðnaðarmanna settu sum hver reglur um að engir Gyðingar mættu vera í félögunum, sprengjum var varpað inn í verslanir Gyðinga og þar fram eftir götunum. Gyðingar byrjuðu að hrekjast burt frá Katowice. Gyðingaandúð var mikil og almenn í Póllandi og er þar um að ræða mjög svartan og í mörgum tilfellum hryllilegan blett á pólskri sögu.
Þann 1. september 1939 réðust Þjóðverjar inn í Pólland. Katowice var þá skammt frá landamærum ríkjanna, sem lágu mun austar en nú, og strax á þriðja degi innrásarinnar voru þýskir skriðdrekar komnir til borginnar. Þegar daginn eftir var hin glæsilega sýnagóga borgarinnar brennd til grunna, en sýnagógur heita bænahús Gyðinga.
Gyðingar í Katowice reyndu að flýja austur á bóginn en um 3.500 urðu eftir. Ekki þarf að fjölyrða um hvað varð um þá. Þeir voru fluttir burt í gettó annars staðar í Póllandi, ekki síst í nágrannabænum Chrzanów, og enduðu svo flestallir í útrýmingarbúðunum Auschwitz-Birkenau.
Ekki eru nema 36 kílómetrar milli Katowice og Auschwitz.
Þjóðverjar ætluðu sér að gera Katowice að hluta Þýskalands og hófu ofsóknir gegn Pólverjum þótt ekki væru þær jafn grimmilegar og gegn Gyðingum. Pólsk tunga var bönnuð (eða réttara sagt sú þýskuskotna slesíska sem þarna var töluð) og fjöldi íbúa var fluttur á brott. Öll andstaða var grimmilega barin niður og um 700 Pólverjar voru teknir af lífi í aðalstöðvum Gestapó í borginni og notuð til þess sérsmíðuð fallöxi.
Í janúar 1945 frelsuðu hersveitir Rauða hersins sovéska borgina úr klóm Þjóðverja. Flestir þýskumælandi íbúa voru þá flúnir vestur á bóginn. Borgin varð svo hluti þess kommúnistaríkis sem komið var í Póllandi undir ægishjálmi Sovétríkjanna og 1953 ákváðu pólsk yfirvöld að nefna borgina upp á nýtt. Hún skyldi eftirleiðis heita Stalinogrod - Stalínsbær - til heiðurs hinum nýlátna einræðisherra Sovétríkjanna. Það nafn festist þó aldrei í sessi og 1956 var nafnbreytingin dregin til baka.
Athyglisvert er að eftir síðari heimsstyrjöldina settust um 1.500 Gyðingar að í Katowice. Þeir voru nær allir upprunnir annars staðar í Póllandi en höfðu komist til Sovétríkjanna undan þýskum nasistum og eytt stríðinu þar. Töluverður þróttur var í þessu nýja samfélagi Gyðinga en 1967 byrjuðu pólsk yfirvöld að þrengja hag Gyðinga á ný svo þeir tóku að hrekjast á brott og afar fáir Gyðingar eru nú eftir í Katowice.
Athugasemdir