Þegar Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, var spurður í leiðtogaumræðum fyrir alþingiskosningarnar hver væru „mikilvægustu málin sem liggja fyrir á næsta kjörtímabili“ var ljóst af svarinu að „heiðarleiki“ og uppbygging trausts væri það sem hann vildi fyrst og fremst standa fyrir. Ef við kysum hann veldum við áherslu á þetta tvennt.
Síðar hafa komið upp alvarleg tilfelli óheiðarleika. Viðbragð Óttarrs Proppé við þeim eru í þveröfuga átt við markmiðssetningu hans.
Þegar Óttarr sagði þetta við þjóðina - „Það mikilvægasta á næsta kjörtímabili er að reyna að byggja upp meiri sátt, að takast á við vantraust í íslensku samfélagi. Við þurfum að upplifa heiðarleika og skynsemi í pólitíkinni, í því hvernig við byggjum upp kerfin okkar. Það er þessi tilfinning að sumir séu réttlátari en aðrir, sumir hafi betra aðgengi að samfélaginu en aðrir“ - mátti búast við því að hann myndi styðja við heiðarleika stjórnmálamanna umfram allt, sem forsendu meginmarkmiðs síns í stjórnmálum, trausts og sáttar í samfélaginu.
„Við þurfum að upplifa heiðarleika og skynsemi í pólitíkinni“
Betra aðgengi Bjarna
Þegar Bjarni Benediktsson tók ákvörðun um að birta ekki skýrslu um aflandsvæðingu Íslands fyrir þingkosningar var hann að nota aðstöðu sína sem kjörinn fulltrúi hjá íslenska ríkinu í sinn persónulega hag og hag flokksins síns. Allt uppgjör á aflandsvæðingunni fæli nefnilega í sér uppgjör við flokkinn sem orsakaði hana og stjórnmálamanninn sem tók auk þess þátt í henni.
Þegar Bjarni sagði ósatt um ástæður þess og aðstæður þess að hann birti ekki skýrsluna, og atyrti fólk fyrir að gera athugasemdir við það, var Bjarni að birtast sem andstæðan við boðað markmið Óttarrs Proppé.
En við getum ekki kennt Bjarna Benediktssyni um að gera það sem hann hefur áður verið gagnrýndur fyrir og áður hefur verið bent á að væri helsti ókosturinn við að hann væri í valdastöðu fyrir hönd íslensks almennings.
Að mati Óttarrs Proppé eru viðskipti í skattaskjóli óheiðarleg, eins og hann sagði á Alþingi 4. maí í fyrra: „það sem við getum í raun og veru einfaldlega kallað óheiðarleika í viðskiptum og tengsl óheiðarlegra viðskipta við stjórnmálamenn.“ Þátttaka Bjarna í aflandsviðskiptum var þar af leiðandi óheiðarleg, eða í það minnsta á „dökkgráu svæði“.
Það sem gerðist næst var hins vegar fullkomin ósamrýmanleiki markmiða og athafna hjá Bjartri framtíð: Óttarr Proppé og Björt framtíð tóku ákvörðun um að gera stjórnmálamanninn sem sýndi af sér alvarlegan skort á fagmennsku og/eða alvarlegan óheiðarleika að forsætisráðherra og veita honum sex ráðuneyti og stól forseta Alþingis, í skiptum fyrir heilbrigðisráðuneytið fyrir Óttarr Proppé og umhverfisráðuneytið fyrir Björt Ólafsdóttur.
Hverjum veitir Björt framtíð „aðgengi“?
Margt gott má finna í Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn. Og þessir flokkar hafa rétt á sínum áherslum á lága fyrirtækjaskatta, takmarkað regluverk, einfalt skattkerfi, einkarekstur og frjálshyggju.
En það er sannarlega torfundið það viðhorf og sá bakgrunnur sem birtist okkur í sumum ráðherrunum sem valdir voru í stjórn Bjartrar framtíðar með hægri flokkunum tveimur.
Á meðan Björt framtíð lýsir umhverfismálum sem einu af helstu baráttumálum sínum er ráðherra ríkisstjórnarinnar, Sigríður Á. Andersen, með sérstaka áherslu á að lækka skatta á mengandi bíla. Hún hrósaði sér af því í kappræðum fyrir kosningar að nenna ekki að flokka ruslið heima hjá sér.
Annar ráðherra ríkisstjórnarinnar, Guðlaugur Þór Þórðarson, sló Íslandsmet í einni tegund spillingar þegar hann kallaði eftir og þáði persónulega, og fyrir hönd flokks síns, tugi milljóna króna í leynistyrki frá hagsmunaaðilum, einmitt þeim krosstengdu útrásarfélögum sem voru óhóflega studd af stjórnmálavaldinu í aðdraganda efnahagshrunsins bæði í orði og stefnu. Hann axlaði ekki einu sinni ábyrgð og sagði af sér þótt landsfundur flokksins hans ályktaði um að hann ætti að gera það og 73 prósent landsmanna teldu að hann ætti að gera það.
Þriðji ráðherrann, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sló Íslandsmet í leynilegum hagsmunárekstri þegar hún talaði máli bankanna sem ráðherra á sama tíma og maki hennar átti tæpan milljarð í hlutabréfum hjá bankanum sem hann vann hjá, fjármagnað með láni frá bankanum, án sjálfsábyrgðar, holdgervingur vandans sem stjórnmálamenn hefðu átt að fyrirbyggja.
Við þurfum varla að minnast á þann sem Björt framtíð gerði að forsætisráðherra, hvernig hagsmunaárekstrar, samskiptahættir, „aðgengi“ og annað vekja upp vantraust og vinna gegn sátt.
Sáttastjórnin
Þegar Óttarr var rétt búinn að sleppa orðinu í málflutningi sínum til íslensks samfélags um vinnubrögð sáttar og samráðs, og nýi stjórnarsáttmálinn lofar víðtæku samráði í lausninni um Reykjavíkurflugvöll, segir fjórði ráðherrann, Jón Gunnarsson, að eina lausnin í máli Reykjavíkurflugvallar sé lausnin hans.
„Það er engin önnur lausn í stöðunni,“ sagði hann. En lofað er í stjórnarsáttmála að „stofna til formlegra viðræðna samgönguyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, Reykjavíkurborgar, annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila. Tekin verði ákvörðun um fyrirliggjandi kosti að undangengnu mati og innviðir innanlands- og sjúkraflugs þannig tryggðir til framtíðar.
Óheiðarleiki og aðgengi
Önnur birting óheiðarleika átti sér stað á kjördag, þegar laun þingmanna voru hækkuð um 45 prósent á einu bretti, meðal annars af fulltrúum kjararáðs sem Bjarni Benediktsson valdi, án þess að kjósendur væru látnir vita af því að þingmenn fengju svona mikla launahækkun umfram almenning.
Hvorki Bjarni Benediktsson né Benedikt Jóhannesson voru „spenntir“ fyrir því að grípa inn í það eftir á.
En miðað við orð Óttarrs um vantraust vegna þess að „sumir hafi betra aðgengi að samfélaginu en aðrir“ og óheiðarleikann, hvers vegna reis hann ekki upp og tók afstöðu gegn þessu? Hvers vegna valdi hann að gera þá sem á endanum eru ábyrgir, að æðstu stjórnendum íslensks samfélags og veita þeim umboð til að deila út kjörum, völdum og verðmætum?
Hvað skilgreinir mann?
Eftir stendur: Hvort er maður það sem maður segir eða það sem maður gerir?
Stundum er maður skilgreindur af því sem maður gerir ekki þegar ákveðnar aðstæður skapast, eins og að fyrirbyggja ekki eða bregðast ekki við skaða annarra. Í tilfelli Óttarrs er það hins vegar hann sem tekur af skarið og lyftir upp þeim sem standa fyrir þann vanda sem hann lýsti fyrir kosningum að hann ætlaði að uppræta.
Allir þurfa að gera málamiðlanir. Þannig geturðu þurft að sætta þig við að gera málamiðlun í forgangsmálum þínum eins og kerfisbreytingum í landbúnaði og sjávarútvegi, og bakka frá yfirlýsingum þínum um að þjóðin eigi heimtingu á beinni aðkomu að ákvörðun um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Jafnvel þótt þú segir „nýtum beint lýðræði og þátttöku almennings betur“. Og að hunsa niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá, jafnvel þótt þú segir „setjum þjóðinni nýja stjórnarskrá á grunni tillagna sjórnlagaráðs“ og „leggjum okkkur fram um að virða lýðræðislegar ákvarðanir“.
Þegar þú hins vegar boðar heiðarleika og fagmennsku en lyftir svo upp óheiðarleika og/eða fúski í skiptum fyrir valdastöðu verður traust til þín og sátt um heiðarleika þinn og fagmennsku í uppnámi til langs tíma.
Kannski er Björt framtíð bara það. Jákvæð sýn. Falleg hugsun. Velviljuð orð. Góð tilfinning. Og eins og framtíðin er í eðli sínu, eitthvað ævinlega óorðið, torséð og sjaldnast eins og maður býst við.
Athugasemdir