Síðla kvölds miðvikudaginn 29. júní, á afmælisdaginn minn, fékk ég eftirfarandi skilaboð í gegnum spjallsvæðið á Facebook:
„Þú þyrftir að fara að skammast þín mikil djolfulsins óskepna ertu þu leggur fólk endalaust í einelti með skrifum þínum ég ætla bara óska þess að anskotinn taki í þig og hann mun gera það ég sé til þess þú átt eftir að hefnast fyrir gjörðir þinar og það illikega“.
Þetta er í fyrsta skipti sem mér er hótað og skal ég fúslega viðurkenna að mér var mjög brugðið. Ég vissi hins vegar strax hvað hefði reitt konuna sem sendi mér skilaboðin til reiði. Sama dag hafði ég skrifað frétt um ummæli sem Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri hjá Útvarpi Sögu, lét falla um hælisleitendur. Arnþrúður fullyrti að hælisleitendurnir tveir sem dregnir voru með lögregluvaldi út úr Laugarneskirkju fyrr í þeirri viku lægju undir grun um að vera í undirbúningi fyrir ISIS-samtökin hér á landi. Þessi stóralvarlega fullyrðing á við engin rök að styðjast, eins og ég kom inn á í fréttinni, og er einungis til þess fallin að vekja upp ótta og ala á hatri í garð flóttafólks og múslima. Þá kallaði Arnþrúður blaðamenn Stundarinnar „sorpblaðamenn“ fyrir að fjalla um aðgerðir lögreglu í Laugarneskirkju.
Hér er hægt að hlusta á Arnþrúði og Pétur fjalla um hælisleitendurna sem leituðu skjóls í Laugarneskirkju og prestana sem veittu þeim hjálparhönd:
Vítiseldar andskotans
Fréttir af Útvarpi Sögu vekja vanalega afar hörð viðbrögð og var ég búin undir þau. En í þetta skipti var mér hótað.
Fyrstu viðbrögð voru hálfgerð afneitun. Ég kaus að hunsa skilaboðin og lokaði spjallglugganum án þess að svara. Daginn eftir fékk ég hins vegar símtal frá sömu konu og hún endurtók nánast orð fyrir orð það sem hún hafði skrifað mér á Facebook. Sem sýnir mér að hótunin var ekki send í stundarbræði yfir fréttaskrifum sem henni mislíkaði, heldur af mjög yfirlögðu ráði. Símtalið á ég á upptöku.
Hún var kurteis í byrjun símtals. Hrósaði mér fyrir greinarnar mínar og ég þakkaði fyrir. Svo breyttist tónninn: „Það sem ég ætla að biðja þig um að gera núna, væna mín, það er að skammast þín,“ sagði hún. „Fyrir hvað?“ spurði ég. „Óskepnur eins og þú hegnast fyrir gjörðir sínar. Það mun eitthvað koma fyrir þig, því miður. Nú verður þú að fara að taka þig á, vina. Hætta þessum skrifum og reyndu að fara að þroskast. Góðar stundir.“ Og svo var lagt á.
Ég kom ekki upp orði á meðan hún talaði. „Það mun eitthvað koma fyrir þig,“ sagði hún ákveðið við mig, og mér stóð ekki á sama.
Síðar sama dag birti hún síðan mynd af mér á Facebook-síðu sinni, ásamt öðrum manni, og sagðist ætla að sjá til þess að okkur, eða fjölmiðlum okkar, yrði kastað í vítiselda andskotans.
Sjáandinn
Konan sem hótaði mér heitir Lára Ólafsdóttir og segist vera sjáandi. Ég þekki hana ekki og hún ekki mig. Hún hefur hins vegar mjög oft fengið pláss í fjölmiðlum til að viðra skoðanir sínar. Hún sagði til dæmis frá því í forsíðuviðtali í Vikunni að stór jarðskjálfti myndi verða á Krísuvíkursvæðinu þann 27. júlí árið 2009. Þann dag var hins vegar allt með kyrrum kjörum á svæðinu. Það sama var upp á teningnum í september 2013. Þá spáði hún stórum jarðskjálfta, sem ekki gekk eftir. Lára er nánast fastagestur í útvarpsþættinum Harmageddon á X-inu þar sem hún hefur meðal annars spáð náttúruhamförum, flugslysum og núna síðast var hún fengin til að spá í forsetakosningarnar og sagðist hún finna á sér að Ólafur Ragnar yrði áfram forseti. Að lokum var hún fengin af Pressunni til að spá fyrir um úrslitin í leik Íslands og Portúgals á EM og spáði hún því að Ísland myndi vinna 2-0. (Ég get kannski huggað mig við það að hún virðist oftast hafa rangt fyrir sér og ég er því vonandi ekki á leið í vítiselda andskotans).
Lára sagði einnig frá því í viðtali við Séð og heyrt að Madeleine McCann væri lifandi og væri í umsjá eldri bandarískra hjóna á Grænhöfðaeyjum. Hún segist hafa teiknað mynd af staðnum og fært lögreglunni á Skotlandi. Þetta fannst mér erfitt að lesa því ég man eftir að hafa lesið í bók Kate McCann, móður Madeleine, að eitt það sársaukafyllsta í seinni tíð væri að uppgötva á eigin skinni hversu langt sjáendur og miðlar voru tilbúnir að ganga til að veita örvæntingarfullum foreldrum í sorg falskar vonir.
Birtingarmynd stærra vandamáls
Ég hef áður fengið mjög harkaleg viðbrögð við því að flytja fréttir af því sem sagt er á Útvarpi Sögu. Eftir að ég greindi frá því að útvarpsstöðin hefði verið tilkynnt til lögreglu vegna hatursræðu fyrr á þessu ári var ég kölluð mörgum ljótum nöfnum á samfélagsmiðlum. Einhver stakk upp á því að ég yrði sjálf send til „múslimalands“ svo ég gæti sagt frá dvölinni þegar heim væri komið. (Ég hef reyndar komið til landa þar sem meirihluti íbúa aðhyllist íslam og líkaði dvölin mjög vel. Sumarið 2012 var ég til að mynda í Bosníu á meðan Ramadan stóð yfir og gjörsamlega heillaðist af landi, þjóð og menningu.) Sjálf brást Arnþrúður við fréttaflutningnum með því að kalla á eftir upplýsingum um mig í útvarpinu. Síðar útskýrði hún að það hafi hún gert því hún vildi komast að því í hvaða „hatursbandalagi“ ég væri. (Þess má geta að ég er ekki skráð í neitt bandalag, hvorki haturs né ástar. Aldrei verið skráð í stjórnmálaflokk og er utan trúfélaga.)
Hlustendur Útvarps Sögu hafa því áður lýst yfir óánægju með fréttaflutning minn, og Stundarinnar, en þetta er í fyrsta skipti sem blaðamanni er beinlínis hótað. Eftir að símtalinu við Láru lauk hugsaði ég málið í smá stund og ákvað síðan að ég gæti ekki látið þetta viðgangast. Hótanirnar hafa nú verið kærðar til lögreglu.
Í mínum huga er hótunin birtingarmynd stærra vandamáls, og það snýr ekki að mér. Þessi ofsafengnu viðbrögð við því að fjalla með gagnrýnum hætti um ábyrgð og ábyrgðarleysi fjölmiðla þegar kemur að umfjöllun um innflytjendur og flóttafólk sýna mér að útlendingahatur er sífellt vaxandi vandamál hér á landi. Þetta segir mér líka að sú hatursræða sem á sér stað í sumum fjölmiðlum skilar sér til áheyrenda og lesenda, kyndir undir hatrið, og þeir eru sumir farnir að bregðast við henni með aðgerðum. Ákveðinn hópur er orðinn afar hávær á samfélagsmiðlum, fólk leyfir sér að skrifa mjög meiðandi hluti um ákveðna þjóðfélagshópa undir nafni, dylgjar jafnvel um tengsl hælisleitenda við hryðjuverkasamtök og nú sendir það ókunnugu fólki hótanir. Ef ég, og fjölmiðillinn sem ég starfa fyrir, er farin að fá hótanir vegna fréttaflutnings af málefnum hælisleitenda og flóttafólks, hvers konar skilaboð fær þá flóttafólkið sjálft frá þessum sama hatursfulla hópi? Ég veit að ég er ekki sú eina sem hefur fengið hótanir. Og ég óttast það sem kemur næst.
Þess vegna megum við ekki hunsa þessa orðræðu og afgreiða „hatursbandalagið“ utan um Útvarp Sögu sem einhverja klikkhausa sem við ættum ekki að eyða tíma eða orku í að svara. Útbreiðsla haturs er raunverulegt vandamál um allan heim og getur haft skelfilegar afleiðingar. Við verðum að bregðast við því. Þess vegna kærði ég Láru.
Athugasemdir