Háskóli Íslands ætlar ekki að bregðast við fréttum í sænskum fjölmiðlum og gera úttekt eða athugun á aðkomu skólans að Macchiarini-málinu. Þetta kemur fram í svari frá rektor skólans, Jóni Atla Benediktssyni, við fyrirspurn Stundarinnar. Skólinn ætlar hins vegar að aðstoða við rannsóknina sem háskólinn Karolinska Institutet í Stokkhólmi ætlar að láta utanaðkomandi aðila gera á málinu.
Orðrétt segir rektor skólans: „Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur verið tekin ákvörðun í Svíþjóð um að hefja nýja rannsókn á störfum Paolos Macchiarini skurðlæknis þar í landi. Háskóli Íslands telur ekki viðeigandi að bregðast við fyrr en að þeirri rannsókn lokinni en leggur áherslu á aðkomu skólans að henni, þ.m.t. starfsmanns hans, eins og tilefni gefst til svo upplýsa megi málið í heild. Í þeim tilgangi mun undirritaður setja sig í samband við þá sem standa munu að rannsókninni í Svíþjóð…“
RÚV fær ekki leyfi til að sýna myndina
Maccharini-málið er orðið að einu stærsta vísinda- og rannsóknarhneyksli í sögu Svíþjóðar eftir að sænska ríkissjónvarpið sýndi heimildarmyndina Experimenten fyrir nokkrum vikum. Málið hafði legið í dvala svo mánuðum skipti eftir að Karolinska Institutet komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að Paolo Macchiarini hefði ekki gerst sekur um vísindalegt misferli í rannsóknum sínum og aðgerðum þrátt fyrir sterk sönnunargögn í þá átt. Heimildarmyndin hefur hins vegar gert það að verkum að Karolinska Institutet ætlar að rannsaka málið aftur.
Í samtali við Stundina segir Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, að RÚV hafi reynt að fá leyfi til að sýna Experimenten á stöðinni en að það hafi strandað á réttindamálum. „Framleiðendur hafa ekki rétt til að selja [myndina] utan Svíþjóðar sökum réttindamála á vissu myndefni. Því miður,“ segir Skarphéðinn.
Margs konar tengingar við fyrstu aðgerðina
Háskóli Íslands tengist plastbarkamálinu þannig meðal annars að prófessor við skólann, skurðlæknirinn Tómas Guðbjartsson, var læknir fyrsta sjúklingsins sem fékk plastbarka, tók þátt í aðgerðinni á honum þar sem hann fékk plastbarkann, var meðhöfundur að grein sem skrifuð var um aðgerðina og birt var í læknatímaritinu Lancet og kom að eftirmeðferð sjúklingsins á Íslandi.
Hluti eftirmeðferðarinnar snérist um að gerðar voru berkjuspeglanir á hálsi sjúklingsins, Andemariam Beyene, á Íslandi og var það lungnalæknirinn Óskar Einarsson sem sá um þær. Tómas Guðbjartsson tók að minnsta kosti þátt í einni þeirri, rannsókn sem fram fór þann 16. ágúst 2011. Þessar berkjuspeglanir voru mikilvæg rannsóknargögn fyrir Lancet-greinina sem birt var þann 24. nóvember 2011.
„Almennt hefur allt gengið vonum framar“
Plastbarkinn var sagður „reynast vel“
Þá hélt Háskóli Íslands tveggja daga málþing um aðgerðina á Andemariam í júní 2012 en á því málþingi var talað um að aðgerðin hefði gengið vel og var talsverð fjölmiðlaumfjöllun um hana þar sem meðal annarra Paulo Macchiarini og Tómas Guðbjartsson fluttu fyrirlestra um aðgerðina. Í fjölmiðlaumfjöllunum um eins árs afmæli aðgerðarinnar var sagt að plastbarki Andemariams „reyndist vel“ eins og sagði í fyrirsögn RÚV en í sömu grein var haft eftir Tómasi um aðgerðina: „Almennt hefur allt gengið vonum framar.“ Málþingið bar yfirskriftina „Stem Cells and Surgery“.
Í viðtali við Stöð 2 í tengslum við málþingið sagði Paolo Macchiarini að hægt yrði að nota aðgerðina á „mörg þúsund manns“: „Í Evrópu eru fleiri þúsund sjúklingar með krabbamein í barka og reyndar er það svo að flestir þeirra geta ekki undirgengist skurðaðgerð því meinið greinist yfirleitt seint og þá langt gengið en samt enn staðbundið. Svo þessi nýja aðferð gæfi möguleika á því að meðhöndla þessa sjúklinga og gefa þeim færi á bata,“ sagði Macchiarini en eins og komið hefur fram þá var ekki búið að prófa aðferðarformið á dýrum áður en það var prófað á Andemariam Beyene og var hann því fyrsta lifandi veran sem fékk græddan í sig slíkt plastlíffæri. Þá voru engar sannanir fyrir því að stofnfrumuþáttur aðgerðarinnar gæti virkað en hann var fyrst prófaður á rottum ári eftir aðgerðina á Andemariam.
Andemariam Beyene dó í ársbyrjun 2014 þegar öndunarfæri hans gáfu sig endanlega en hann hafði þá verið á sjúkrahúsi í meira og minna átta mánuði samfleytt. Hann lifði í 30 mánuði eftir aðgerðina en enginn steig fram eftir andlát hans og greindi frá því að aðgerðin á honum hefði mistekist og ljóst væri að ekki væri hægt að lækna fársjúkt fólk með því að græða í það plastbarka. Í Experimenten er viðtal við konu Andemariams sem segir að Macchiarini hafi sagt við hann að með plastbarkanum gæti hann lifað að minnsta kosti í 8 til 10 ár. Macchiarini hafði hins vegar ekkert í höndunum um að slíkt mat gæti verið rétt enda hafði aðferðin aldrei verið prófuð áður. Aðgerðinni var hins fagnað, bæði í Svíþjóð og á Íslandi, sem miklu afreki eftir að hún var gerð og eins þegar eitt ár var liðið frá henni.
Macchiarini vissi að aðgerðin hafði mistekist
Á þessum tíma á Íslandi, í júní 2012, vissi Macchiarini og hafði vitað í marga mánuði að aðgerðin á hálsi Andemariams hafði mistekist gjörsamlega en samt sagði hann þetta við Stöð 2. Fjórum mánuðum áður hafði verið sett stálnet inni í plastbarkann til að Andemariam gæti andað betur vegna þess að líkami hans hafnaði plastbarkanum þar sem stofnfrumurnar á honum náðu ekki að skapa lífvænlegan vef á plastinu og voru að öllum líkindum löngu dauðar. Ein af spurningunum sem á eftir að svara í málinu er hvenær engin lífvænleg þekja fannst lengur á plastinu í hálsi Andemariams en miðað við berkjuspeglunina sem gerð var á honum í ágúst eftir aðgerðina var ekki mikið eftir af lífvænlegum verksummerkjum á barka hans. Á þessum tíma var Andemariam bókstaflega bara með plastbarka, styrktan af stálneti, sem hann andaði í gegnum. Yfirskrift málþingsins í Háskóla Íslands - “Stem cells and Surgery“ - hafði því lítið sem ekkert að gera með ástand Andemariams Beyene á þeim tíma sem málþingið fór fram þar sem stofnfrumuþáttur aðgerðarinnar hafði mistekist.
Og það sem meira er að Paolo Macchiarini vissi það vel en í grein sem hann skrifaði átta mánuðum eftir aðgerðina á Andemariam, eftir að hann var viðstaddur berkjuspeglun þar sem stálneti var komið fyrir í hálsi hans, lét hann þess ekki getið að netið hefði verið sett í háls hans og sagði barka hans líta vel og vera þaktan lífvænlegri þekju sem þýddi að stofnfrumuþáttur átti að hafa gengið upp. Þetta er meðal þess sem kemur fram í Experimenten.
Eitt af því sem íslensku læknarnir geta gert er að varpa ljósi á hvenær þeir töldu ljóst að plastbarkaaðgerðin hefði mistekist þar sem líkami Andemariams hefði ekki tekið við barkanum.
Myndböndin sem sýna blekkingar Macchiarinis
Myndband af berkjuspeglun frá 16. ágúst er sýnd í heimildarmyndinni Experimenten. Hluta þessarar berkjuspeglunar má sjá á myndbandinu í hlekknum hér að ofan sem sænska ríkissjónvarpið birti á vef sínum í fyrradaga. Auk þess eru tvö önnur myndbönd, meðal annars eitt sem sýnir berkjuspeglun sem gerð var á hálsi Andemariams þegar átta mánuðir voru liðnir frá aðgerðinni á honum.
Niðurstaðan úr þessari berkjuspeglun var hluti rannsóknargagnanna sem voru, eða hefðu átt að vera, grundvöllur vísindagreinarinnar sem birt var í Lancet þann 24. nóvember 2011. Í heimildarmyndinni er hins vegar sýnt fram á hvernig Paolo Macchiarini virti að vettugi þær upplýsingar sem niðurstöður berkjuspeglunarinnar sýndi og íslensku læknarnir greindu frá og ýkti verulega þau einu jákvæðu teikn sem fundust í rannsókninni um að plastbarkaaðgerðin á Andemariam Beyene hefði heppnast. Ef íslensku læknarnir hafa lesið greinina í Lancet sem þeir voru meðhöfundar að þá hefðu þeir átt að vita þetta og þar af leiðandi hefði átt að vera erfitt fyrir Tómas að tala um aðgerðina með svo jákvæðum hætti einu ári eftir hana.
Þessi jákvæðu teikn voru þau að í rannsókn fannst enn eitthvað af lífvænlegum frumum á plastbarka Andemariams rúmum tveimur mánuðum eftir aðgerðina þar sem plastbarkinn var þakinn stofnfrumum og festur í hann. Þessar frumur áttu að gera það að verkum að plastbarkinn umbreyttist í því sem næst eðlilegan barka sem yrði hluti af líkama Andemariams. Í greininni í Lancet skrifaði Paolo Macchiarini að samkvæmt rannsóknum á barka Andemariams væri barki hans með „næstum því eðlilegum öndunarvegi“. Undirstrikað skal að þetta orðalag kom ekki frá íslensku læknunum og stendur ekki í niðurstöðu berkjuspeglunarinnnar frá 16. ágúst sem Stundin hefur undir höndum.
Misheppnaðri aðgerð hampað
Óskar Einarsson framkvæmdi svo aðra berkjuspeglun á Andemariam tveimur mánuðum síðar, eða þann 20. október, en myndband af þeirri rannsókn hefur ekki verið gert opinbert. Þá hafa niðurstöðurnar úr þeirri berkjuspeglun ekki heldur verið gerðar opinberar.
Samkvæmt erindi sem Tómas og Óskar sendu til Karolinska Institutet vegna rannsóknar Karolinska Institutet á málinu í fyrra sýndi sú berkjuspeglun hins vegar fram á blæðingu í „hægra lunganu“ en ekki er talað um hversu lífvænleg þekjan á plastbarkanum var en þetta var grundvallaratriði í aðgerðinni þar sem stofnfrumurnar voru settar á plastbarkann til að fá líkama Andemariams til að taka við líffærinu svo það yrði hluti af líkama hans. Í erindi Óskars og Tómasar til Karolinska er ekkert sagt um hversu lífvænleg þekjan í barka Andemariams var, líkt og gert var þar sem rætt er um berkjuspeglunina frá 16. ágúst. Fjórum mánuðum eftir þessa berkjuspeglun var svo sett stoðnet í plastbarka Andemariams.
Miðað við það að þekjan í barka Andemariams hætti að vera lífvænleg þar sem stofnfrumumeðferðin mistókst, þá er alveg ljóst að þekjan í hálsi Andemariams var að minnsta kosti minna lífvænleg í október en í ágúst. Þeim Tómasi og Óskari hlýtur því að hafa verið ljóst að staðhæfingar Macchiarinis í Lancet-greininni sem þeir voru meðhöfundar að um „næstum því eðlilegan öndunarveg“ voru annað hvort beinlínis rangar eða þá stórlega ýktar. Tekið skal fram að grein Macchiarinis var send til Lancet í byrjun október 2011 og því áður en þeir gerðu síðustu barkaspeglunina. Niðurstöðum berkjuspeglunarinnar frá 20. október var svo ekki komið inn í Lancet-greinina að því er virðist.
Ein af spurningunum sem svör liggja ekki fyrir um er hvenær þeir Tómas og Óskar lásu Lancet-greinina, var það fyrir birtingu hennar, eftir eða hafa þeir ekki enn lesið hana. Ef þeir hafa lesið greinina þá hefðu þeir hins vegar mátt vita að í henni væru annað hvort hreinar lygar eða stórlega villandi ýkjur.
Óskar Einarsson vill ekki tjá sig um berkjuspeglunina frá 20. október 2011 í samtali við Stundina. Hann vill heldur ekki tjá sig um hvort hann hafi velt því fyrir sér að fara fram á að greinin í Lancet verði dregin til baka úr læknatímartinu en umræða fer nú fram í Svíþjóð um þetta.
„Ég tel ekki rétt að rektor Háskóla Íslands tjái sig frekar um málið á þessu stigi“
Rektor vill ekki tjá sig um málið sjálft
Í svari við fyrirspurn Stundarinnar vill Jón Atli Benediktsson ekki svara því hvaða skoðanir hann hefur á Macchiarini-málinu sem slíku og tengslum þess við skólann. „Ég tel ekki rétt að rektor Háskóla Íslands tjái sig frekar um málið á þessu stigi og vísa til þess að rannsóknin í Svíþjóð mun væntanlega beinast að umræddri aðgerð sem og greinaskrifum í kjölfar hennar.“
Forseti læknadeildar Háskóla Íslands, Magnús Karl Magnússon, varði hins vegar greinina í Lancet í samtali við Stundina fyrr í vikunni og sagði að ekki hefði verið sýnt fram á rangfærslur í henni. Hann sagði orðrétt að „ekkert hafi komið fram sem staðfesti að rangar staðhæfingar hafi verið í greininni“ […] Það er túlkunaratriði hversu lífvænleg þekjan er á berkjuninni eftir aðgerðina.“ Forseti læknadeildar ver því greinina í Lancet miðað við fyrirliggjandi upplýsingar og þrátt fyrir það sem fram kemur í heimildarmynd sænska ríkissjónvarpsins og myndandsbrotunum sem sjá má í hlekknum hér að ofan.
Tómas Guðbjartsson hefur ekki svarað beiðni Stundarinnar um viðtal.
Athugasemdir