Alþingiskosningar snúast alltaf um spurninguna „Hvernig samfélag viljum við vera?“ Þær snúast meðal annars um jöfnuð, virðingu, réttlæti, ábyrgð, frelsi, fjölskylduna, traust og ábyrgð. Þær snúast um efnahag og umhverfismál og þær snúast um lífsskoðanir og afstöðu til hlutanna. Þær snúast um einhyggju, tvíhyggju eða fjölhyggju jafnvel þótt þær séu aldrei nefndar á nafn.
Fjölhyggja er afstaða sem gerir ráð fyrir að veruleikinn sé fjölþættur og stjórnist af mörgum, sjálfstæðum lögmálum og að til séu jafngildar skýringar á fyrirbærum í veruleikanum. Einhyggja gerir ráð fyrir að allt sé af einu tagi og tvíhyggja að frumþættir tilverunnar séu af tvennum toga og óskyldir, til dæmis andi og efni.
Nafn framtíðar
Nafn framtíðarinnar er fjölhyggja. Hugsjónin felst í því að fólk, sprottið úr margvíslegri menningu, búi og starfi saman á jafnréttisgrundvelli. Margbreytileiki, fjölhæfni, fjölmenning, fjölbreytni og marglyndi eru auðlindir mannlífsins. Múrar hrynja og landamæri þurrkast út þar sem tíðarandi fjölhyggju ríkir.
Sérkenni fjölhyggju felst í því, ólíkt trúarbrögðum og öðrum lífsskoðunum, að sá og sú sem aðhyllist hana er ekki bundin kennisetningu. Enginn páfi eða forstöðumaður, engin skrifstofa eða söfnuður, siðir eða venjur geta lagt hana undir sig eða eignað sér hana. Það er ekkert eignarhaldsféla, enginn ótti eða erfðasynd getur eyðilagt hana. Hún er óáþreifanleg og sá sem hyggst rannsaka hana finnur fátt eitt og sennilega ekki neitt, að minnsta kosti enga spámenn eða helgirit. Fjölhyggja er merkt efasemdinni sem greinir stöðluð svör í öreindir í leit að jafnvægi milli margra þátta.
Fjölhyggjupersóna trúir fáu og efast um flest en er þó hvorki eirðarlaus né sundurlynd eins og spá mætti til um. Hún hafnar ekki lífsgildum eða leiðarljósum nema þeim sem eru ómannúðleg. Hún hefur alls ekki orðið firringunni að bráð og það sem kemur flestum í opna skjöldu er að hún er ekki óhamingjusöm, því hún hættir aldrei að leita að svari.
Allt það sem reynist vel
Vilji hennar er laus undan ánauð kennivaldsins. Hún nemur öll trúarbrögð og lífsskoðanir og gerir sér fyllilega grein fyrir því að ekkert getur verið alrétt eða allur sannleikurinn. Hið algilda, í hennar augum, er falið í fáum siðaboðum um að rækta líf, særa engan, gefa öðrum og verja gæði. Hún stígur inn í hringinn og horfist í augu við alla sem sitja við sama borð.
Fjölhyggjan felur í sér allt það sem reynist vel og er farsælt hjá öðrum. Hún er hluti af öllu en er ekkert sjálf nema vítt sjónarhornið. En hún birtist alls ekki þar sem aðskilnaður og kúgun eiga sér stað. Hún rúmar miskunn og góðvild, umhyggju og virðingu, skynsemi og visku, vísindi og sköpun en ekki ofbeldi. Fjölhyggjumanneskja hefur ímugust á ofríki, yfirgangi og hroka. Enginn ofríkismaður gæti beitt henni fyrir sig.
„Fjölhyggja á heima þar sem enginn ætlar sér að drottna yfir öðrum“
Fjölhyggja á heima þar sem enginn ætlar sér að drottna yfir öðrum, hún er samkomulag sem skapar ramma þeirra sem koma víða að og vilja búa við mannúð. Enginn þarf að skipta um nafn eða klæði, trú eða skoðun. Fjölhyggjufólk skrifar fúslega undir fullyrðinguna „Allir eru jafnbornir til virðingar og óafsalanlegra réttinda sem eru undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.“
Fjölhyggjumanneskjan vill alls ekki leggja heimsmyndir undir sig heldur býst hún við að lifa í fjölskrúðugri menningu ólíkra trúarbragða og annarra lífsskoðana. Hún þrífst ekki án annarra. Fjölhyggjan á sér enga sérstaka guði, fylgismenn eða leiðtoga sem brenna í skinninu og enginn myndi halda í stríð í hennar nafni.
Fjölhyggjan þrífst best í samfélagi mannréttinda og virðingar þar sem allir búa saman án aðskilnaðar. Það er enginn áberandi kraftur í fjölhyggju enda er mælikvarði hennar friðsemd. Ef til vill er hún aðeins hugarástand, að minnsta kosti verður hún ekki handsömuð og hún er ekki yfirlýsingaglöð.
Andhverfa hennar er einhyggja og líka tvíhyggja sem er hækja þeirra sem vilja flokka eftir eigin höfði í æskilegt og óæskilegt, gott og vont, sannleika og lygi út frá eigin hagsmunum og viðmiðum. Átakamenningin er afurð tvíhyggjunnar; að skipa sér í flokk, að vera með eða á móti, fylgja einum eða öðrum. Tvíhyggjuflokkun felur í sér mismunun, stéttarskiptingu og útilokun sjónarmiða. Veruleikinn er fáskrúðugur og skakkur í tvíhyggjukerfi.
Einkenni víðsýnnar þjóðar
Fjölhyggjumanneskja getur sprottið upp úr margskonar jarðvegi. Hún getur tilheyrt hópum en hún veit að lífsskoðanir þeirra eru ekki æðri eða betri en annarra. Fjölhyggja er ekki afstæðishyggja þar sem fólk býr saman í óvissu og myrkri heldur vísa leiðarljós samlyndis upp vegina á milli ólíkra hópa. Hún býður þó engin laun, engan sigur á dauðanum eða vafalaus svör við tilverunni. Það sem gerir hana eftirsóknarverða er sambandið og samkenndin sem getur myndast á milli hópa.
„Hvernig samfélag viljum við vera?“ Fjölhyggja er einkenni víðsýnnar þjóðar. Hún hengir sig ekki í smáatriði og festir sig ekki í einni kenningu, því það er sama hvaðan gott kemur. Hún velur það sem nýtist flestum, jafnvel þótt það komi úr óvæntri átt. Slík þjóð er frjálslynd í fasi – og virðing er dyggðin sem situr í öndvegi.
Lífið verður ævinlega ráðgáta en til eru margar lausnir og lyklar sem ganga að mörgum sögum.
Athugasemdir