„Þetta er fagnaðarefni fyrir íslenska neytendur sem munu sjá þess stað í lækkuðu matvöruverði og útflytjendur sem munu vafalaust nýta sér þá möguleika sem í þessum samningum felast,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Þetta sagði ráðherrann á vef utanríkisráðuneytis um nýjan samning á milli Íslands og ESB um miklar aukningar á innflutningi landbúnaðarvara, sem og afnám og lækkun á tollum á landbúnaðarvörum, sem opinberaður var fyrir skömmu. Þá tjáði sig einnig landbúnaðarráðherrann á RÚV:
Eru ekki allir hressir?
„Ég vona að það verði bara enginn óhress með þetta, að þetta séu tíðindi sem koma öllum til góða,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í sjónvarpsfréttum um samning Íslands og Evrópusambandsins um gagnkvæma niðurfellingu og lækkun tolla á landbúnaðarvörur.
Það mætti halda að hér séu fylgismenn aðildar að ESB sem eru að tjá sig, en sú er ekki raunin. Heldur þvert á móti. Þetta eru ráðherrar í ríkisstjórn sem hefur gert allt sem í hennar valdi stendur til þessa að rústa aðildarferli Íslands og kastað hundruðum milljóna fyrir róða.
Orð þeirra eru hinsvegar eins og beint út smiðju samtakanna Já-Ísland, sem hafa barist fyrir aðild og aðildarsamningum við ESB. Lækkun vöruverðs (svo ekki sé talað um vexti!) hafa verið veigamikil rök fyrir því að klára aðildarsamninga, leyfa þjóðinni að kjósa og þannig gera út um eitt mesta deilumál í íslenskum stjórnmálum frá upphafi lýðveldis.
Landbúnaðarráðherra hefur fagnað þeim útflutningsmöguleikum sem í samningnum felast, til að mynda er opnað á tíföldun(!) á útflutningi á skyri, sem er orðin vinsæla heilsuvara víða um lönd. Nú þarf kannski ekki að láta erlenda framleiðendur framleiða skyrið á erlendum mörkuðum, heldur geta íslenskir bændur gert það og notið ábatans. Sem er bara hið besta mál.
Bændasamtök úti í kuldanum
En það sem kemur ef til vill mest á óvart er það samráðsleysi sem virðist hafa verið við Bændasamtök Íslands, sem samkvæmt fréttum fréttu af þessum samningi í gegnum fjölmiðla. Í hefðbundnum aðildarviðræðum hefði fulltrúum bænda að sjálfsögðu boðið að vera með, en hér hefur þeim verið haldið úti í kuldanum. Af ráðherra Framsóknarflokksins!
Það gætir hinsvegar mikils tvískinnungs í því hvernig á þessu máli hefur verið haldið. Í samningaviðræðum Íslands og ESB var allt uppi á borðinu og gert gein fyrir framgangi viðræðna á vefsvæðum hjá mörgum aðilum. Þó voru samningaaðilar sakaðir um baktjaldamakk af andstæðingum aðildarviðræðna. Lítið hefur í raun frést af þessum viðræðum í raun fyrr en niðurstaða þeirra var kynnt. Hvað kallast það?
Í samningnum felst að felldir eru niður tollar á yfir 300 tollanúmerum. Þá er einnig opnað fyrir umtalsverðan innflutning á kjöti, til dæmis nautakjöti, en sem vitað er hafa íslenskir framleiðendur ekki getað annað eftirspurn á íslenskum markaði. Framleiðsla á nautakjöti dróst til að mynda saman um rúm 14% á milli 2013 og 2014.
Ekki skal farið út í fleiri smáatriði samningsins hér, en hann á eflaust eftir að verða talsvert til umræðu á næstum vikum.
Grundvallarpunkturinn er þessi: Ríkisstjórn sem í orði er mjög andsnúin og allt að því fjandsamleg ESB, gerir nú samning við sama ESB sem fullyrt er að komi íslenskum neytendum mjög til góða. Nokkuð sem fylgjendur aðildar hafa sagt árum saman.
Fleiri samningar?
Þá er það spurningin: Á að semja á öðrum sviðum? Hvað með sjávarútveginn? Gjaldmiðilsmál og þar með vaxtastig í landinu? Eða skal látið staðar numið?
Að lokum vil ég svo gera þetta að tillögu minni: Að skrifað verði nýtt bréf til ESB, þar sem íslensk yfirvöld tjá vilja sinn til að hefja að nýju aðildarviðræður við ESB, þær verði kláraðar og íslensku þjóðinni leyft að kjósa um aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu. Eins og til stóð í upphafi og eins og íslenska þjóðin vill. Þannig verður þetta mál klárað, ekki öðruvísi.
Höfundur er stjórnmálafræðingur
Athugasemdir