Því miður þurfti svo að fara að góður árangur íslenska karlalandsliðsins í fótbolta olli hugsana- og hegðunarbreytingum meðal Íslendinga. Margir virðast nefnilega hneigjast til að eiga erfitt með að höndla góðan árangur samlanda okkar án þess að taka honum sem sönnun fyrir eðlislægum yfirburðum okkar sjálfra yfir annað fólk af mannkyni.
Hugmyndin um yfirburði íslenska kynstofnsins lifir ekki bara hjá fólkinu sem hlustar á Útvarp sögu og kýs Íslensku þjóðfylkinguna. Hún hafði verið matreidd markvisst ofan í okkur árum saman í ýmsum myndum, þar til fólk virtist hafa fengið nóg af þjóðernishyggju. En nú er hún að snúa aftur. Einn af fulltrúum yngri kynslóðarinnar, sem er á framabraut í Þýskalandi, skrifaði nýlega grein á hægri vefritið Rómur.is um hvernig íslenski kynstofninn hefur mótast genetískt af aðstæðum sínum til að ná sérstöðu umfram aðrar þjóðir, bæði meiri áhættusækni og svo sérstakan líkamlegan og andlegan styrk umfram aðra.

„Það varð mér þó ljóst, eftir að hafa flutt erlendis, að Íslendingar hafi ekki einungis þróað með sér sterkbyggða líkama heldur einnig hnífbeitt hugarfar,“ skrifar hún.
Í flestum tilfellum er hugmyndin um genetíska yfirburði okkar nærð með goðsögninni um einstæða baráttu íslenska kynstofnsins við erfiðar aðstæður, sem aðrar þjóðir heims búi síður við.
Í goðsögninni um að genetísk mótun þjóðarinnar hafi leitt til þess að hún varð áhættusæknari og sterkari en aðrar þjóðir felast hins vegar ranghugmyndir um aðstæður Íslendinga og þá eiginleika sem viðhalda fólki í náttúruvali í þeim aðstæðum, ranghugmyndir um líf fólks í öðrum löndum.
Íslenska áhættusæknin
„Í landi eins og Þýskalandi … ríkir nefnilega menning fyrir varkárni. Áður en ráðist er af stað í framkvæmdir skulu öll sjónarmið vera tekin til hliðsjónar og sterkt öryggisnet og öryggisáætlanir vera fyrir hendi. Þeir eru einfaldlega síður áhættusæknir. Þegar að uppi er staðið hafa karaktereinkenni beggja þjóða sína kosti og galla... rúmlega fimmfaldur munur er milli fjölda fyrirtækja miðað við höfðatölu. Það má því áætla að íslenskri hugsun gerir okkur líklegri til þess að hoppa út í djúpu laugina og láta vaða. Þrátt fyrir að slík ákvörðun geti haft í för með sér að sigla þurfi um ólgusjó þá munum við eflaust ávallt lenda aftur á landi. Spurningin er því, viljum við hætta okkur út á sjó eða höldum við okkur einfaldlega á landi þar sem við erum örugg?“
Hefði einhverjum dottið í hug að segja fyrir sjötíu árum að Þjóðverjar væru genetískt minna áhættusæknir heldur en aðrar þjóðir? Eða að fólk annars staðar í heiminum hafi virkilega ekki þurft að lifa af hörmungar, jafnvel mun meiri en Íslendingar, eins og ítrekuð stríð, eða bara stöðuga hættu á árásum rándýra?
Kjarni ranghugmyndarinnar um eðli Íslendinga er að það hafi síður drepið Íslendinga á síðustu þúsund árum að vera áhættusæknir, heldur en aðrar þjóðir, eða að þeir hafi orðið að vera það til að lifa af. Líklegast er þetta öfugt.
Vegna veðurfarslegra aðstæðna, strjálbýli og svo framvegis, er mun líklegra að áhættusækni og útrásarlöngun drepi þig. Ef þú æðir út í buskann í allri þinni útrás og áhættusækni og það kemur blindbylur muntu einfaldlega deyja og ekki fjölga þér meir. Ekki komast í Íslendingabók. Af sömu ástæðu er fólki í dag sagt að fara ekki á fjöll án þess að láta vita af sér, svo björgunarsveitin viti hvert hún á að fara, og yfirgefa ekki bílinn sinn þegar það festist í vondu veðri. Í þessi þúsund ár var enginn bíll til að hýrast í. En það voru hestar og síðan torfæbæir, sem segja okkur ákveðna sögu.
Ekki borða hestinn þinn
Íslendingar settu sér fljótlega reglur um að borða ekki hestinn sinn. Það var líklega ástæða fyrir því, vegna þess að í sulti og myrkri yfir vetrartímann getur orðið afar freistandi að éta fararskjótann. Við hins vegar súrsuðum sauðkindina og átum hana nokkurn veginn í heild sinni. Hefðbundin íslensk matarmenning segir okkur nákvæmlega hversu mikið ævintýrafólk við vorum.
Sá hæfileiki sem helst gagnast í aðstæðum þar sem er matarskortur, myrkur og vont veður, er að geta sparað orku. Í gamla daga, bæði á meginlandi Evrópu en líka á Íslandi, lá fólk langdvölum fyrir um vetrartímann.
Raunveruleikinn er sá að hæfileikinn til að hýrast í torfbæ, spara orku og sætta sig við það er það sem hélt lífinu í fólki á Íslandi í öll þessi ár, en alls ekki löngunin til að stökkva út í óvissuna. Því ef þú gerðir það var engin björgunarsveit, enginn farsími, enginn bíll til að hýrast í og ekkert heilbrigðiskerfi til að kvarta undan.
Íslendingar ættu einmitt að hafa mótast genetískt í þá átt að verða fráhverfir útrás. Á tímabili áttum við varla skip. Og hvert áttum við að fara? Stór hluti af þjóðinni lifði líka við vistarband. Þá hefði verið bæði óheppilegt og eiginlega ómögulegt að vera áhættusækinn og með útrásarvilja. Hvernig fór fyrir Fjalla-Eyvindi?
Hæfileikinn sem bjargaði okkur
Hins vegar getur það minnkað líkurnar á sálfræðilegu sturlunarástandi að fólk geti sannfært sjálft sig - í myrkrinu, þar sem það íhugar hvort það eigi að éta sneið af hestinum sínum í staðinn fyrir eistu hrútsins - um að það sé á einhvern hátt á toppi heimsins, jafnvel miðdepill heimsins og miklu betra en fólkið á næsta bæ.
Og það er einmitt það sem fær okkur til að skrifa svona pistla um hvað við séum geggjuð. Síðan, til að viðhalda þeirri sáluhjálp, höfum við ríka tilhneigingu til að sussa á þá sem vilja draga sannleiksgildið í efa. Því þannig varð lífið bærilegra á veturna í vistarbandinu ofan í íslenska torfbænum.
Athugasemdir