Ástæðulaust er að gleyma því að áður hafa verið gerðar dágóðar glæpaseríur á Íslandi en þó er ljóst að með Ófærð hefur slíkt sjónvarpsefni slitið barnsskónum. Og stefnan er væntanlega að halda áfram á sömu braut. Áratugum saman virtust aðeins Bandaríkjamenn og Bretar færir um að gera slíkt efni svo það næði ákveðnum gæðakröfum en nú hafa Svíar og Danir stigið upp í efstu deild og því skyldum við ekki geta það líka?
Og þá er næsta víst að við munum á endanum stíga næsta skref í framleiðslu á slíku efni, en það er að búa til sögulegar glæpaseríur þar sem löggurnar þurfa að reiða sig á eigið hyggjuvit en hafa ekki fullkomnar CSI-deildir sér til aðstoðar og ekki einu sinni farsíma.
Svíar eru nú þegar byrjaðir með hinni ágætu seríu Anno 1790 þar sem læknirinn Dåådh leysir erfið sakamál í Stokkhólmi átjándu aldar. Við Íslendingar ættum að eiga ýmsa mögulega á sviði sögulegra glæpasería – og rétt að vekja athygli kvikmyndagerðarmanna á að það vill svo skemmtilega til að ég luma einmitt á hugmynd um hver drap í rauninni Hjörleif, fóstbróður Ingólfs Arnarsonar!
Órar og níðingsháttur
En fáir búa nú betur að fyrirmyndum að sögulegum glæpaþáttum en Ítalir með alla sína rómversku sögu í farteskinu. Ekki aðeins er þar allt vaðandi í glæpum, heldur má þar líka finna alveg einstakt dæmi um keisara sem leysti erfitt sakamál. Og raunar skrýtið að sú kvikmyndaglaða þjóð Ítalir hafi ekki enn gert sér mat úr þeirri makalausu sögulegu staðreynd!
Tíberíus hét Rómarkeisari sá og ríkti á árunum 14 til 37 eftir Krist, stjúpsonur og arftaki Ágústusar sem var fyrstur keisaranna. Saga Tíberíusar er löng og merkileg en óhætt er að segja að hans lokaeinkunn í mannkynssögunni sé ansi lág. Framan af þótti hann dugandi herforingi og eftir að hann tók við af stjúpföður sínum reyndi hann greinilega að axla ábyrgð keisaratignarinnar af samviskusemi fyrsta áratuginn eða svo.
Þá fór nefnilega að halla undan fæti. Með árunum gerðist Tíberíus tortrygginn og grimmur og lét taka af lífi fjölda raunverulegra en þó aðallega ímyndaðra andstæðinga. Og hann fór í sjálfskipaða útlegð til eyjarinnar Kaprí þar sem hann á gamals aldri sleppti fram af sér beislinu í furðulegum kynlífsórum og níðingshætti.
En sú saga sem ég ætla að segja gerist árið 24 þegar allt lék enn að mestu í lyndi hjá Tíberíusi. Þá gerðist það einn góðan veðurdag að skelfileg tíðindi bárust út um fínni hverfi Rómaborgar.
Ung og fögur eiginkona eins af prúðustu laukum yfirstéttarinnar í borginni fannst látin við hús sitt, nálega beint undir glugga á efri hæð. Hún hafði bersýnilega lamist til bana, en af hverju hafði hún dottið út um gluggann?
Eiginmaðurinn hét Silvanus. Amma hans hét Urgulania og var nánasta vinkona Livíu, ekkju Ágústusar sem átti soninn Tíberíus keisara í fyrra hjónabandi. Livía var komin vel yfir áttrætt en við hestaheilsu og lét enn mikið að sér kveða í hirðlífinu í Róm. Og Urgulania vinkona hennar var kunn fyrir að gera sig ansi breiða í skjóli Livíu. Sonur Urgulaniu hafði verið náinn stríðsfélagi Tíberíusar á árum áður og var trúað fyrir mikilvægum störfum og embættum.
Hann var hins vegar dáinn þegar hér var komið sögu en Silvanus sonur hans og dóttursonur Urgulaniu var farinn að láta að sér kveða og kominn í embætti pretors, en pretorar sáu um margvísleg framkvæmdamál í ríkinu undir stjórn fyrstu keisaranna. Silvanus var því virðingarmaður en fáum hefur líklega blandast hugur um að hann átti frama sinn að þakka sínum sálaða föður og þó ekki síst ömmu sinni.
Hneyksli hjá yfirstéttinni
Konu átti Silvanus sem Numantina hét og hún var líka af nafnkunnasta og auðugasta fólkinu í Róm. Sótti sér um líkt, það hyski allt. Raunar var Numantina af enn fínni ættum en Silvanus, faðir hennar hafði verið náinn vinur Ágústusar og sjálf var hún upphaflega gift fjarlægum frænda Ágústusar.
Þetta var sem sé alveg drullufínt fólk allt saman.
Þegar fyrri eiginmaður Numantinu dó gekk hún svo að eiga hinn prúða pretor Silvanus sem væntanlega var töluvert yngri en hún. Eftir nokkurra ára hjónaband gerðist Silvanus svo afhuga Numantinu og skildi við hana, sem áreiðanlega hefur þótt reginhneyksli – en eintök af „Séð og heyrt“ þeirra Rómverja hafa ekki varðveist svo um það verður ekki með vissu sagt. Numantinu gramdist altént mjög er Silvanus sagði skilið við hana.
En sú stúlka sem Silvanus hafði orðið ástfanginn af átti öflugan föður, hann hét Apronius og var í hópi tryggustu herforingja Tíberíusar. Apronius þótti sérlega harður í horn að taka. Þegar hann tók við stjórn 500 manna herflokks sem hafði nýlega beðið ósigur gegn innfæddum uppreisnarmönnum í Norður-Afríku, þá greip Apronius til skelfilegs ráðs til að refsa hermönnunum.
Jafnvel hinir hrottafengnustu rómversku herforingjar höfðu ekki nýtt svo öldum skipti ævaforna heimild sem þeir töldust hafa til þess arna – en Apronius lét sem sagt húðstrýkja til bana tíunda hvern dáta í herflokknum og lét mennina draga um hverjir yrðu fyrir valinu. Tacitus sagnaritari segir að þessi hræðilega refsing hafi haft mjög góð áhrif á baráttugleði herflokksins sem síðan hafi gengið mun vasklegar fram í orrustu.
Nema hvað – þessi grimmi herforingi átti sem sagt unga dóttur sem Apronia hét eftir pabba sínum og það var hún sem Silvanus heillaðist af og kvæntist eftir að hafa skilið við Numantinu.
Og það var líka Apronia sem skömmu eftir brúðkaupið lá kramin til bana á hellulagðri gangstéttinni fyrir utan heimili sitt í Róm.
Tíundi hver maður húðstrýktur til bana
Þetta var auðvitað alveg skelfilegt. Afar ólíklegt þótti að Apronia hefði getað dottið út um gluggann af slysni. Silvanus var frávita af sorg og sagðist hafa legið í fastasvefni þegar Apronia hefði yfirgefið hjónasængina í morgunsárið og af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hefði hún þá kastað sér út um gluggann og framið þannig sjálfsmorð.
Ekki kunni Silvanus neinar skýringar á af hverju Apronia hefði átt að grípa til þess, en í bakherbergjum fína fólksins var hvíslast á um að kannski hefði Numantina eitthvað með málið að gera.
Sú forsmáða fyrri kona Silvanusar var sögð kunna ýmislegt fyrir sér í fjölkynngi og göldrum, og hver gat vitað nema hún hefði lagt einhver þau álög á aumingja Aproniu að hún hefði ekki séð önnur ráð en að drepa sig?
Um allt þetta var pískrað í Róm, en þá kom hinn harðlyndi faðir Aproniu til skjalanna. Hann þekkti sína dóttur og kvað hana vera sama hörkutólið og hann væri sjálfur.
Hún myndi aldrei hafa svipt sig lífi, hvað sem leið göldrum eða mögulega mislukkuðum samförum í hjónasænginni. Og Apronius fór nú á fund sjálfs Tíberíusar keisara og krafðist þess að keisarinn gerði eitthvað í málinu.
Og nú var það sem Tíberíus sýndi þá lögguhæfileika sína sem ættu í raun að tryggja keisaranum aðalrullu í ítalskri glæpaseríu. Þegar þarna var komið sögu var keisarinn orðinn leiður á stjórnsýsluvafstri og óðum að draga saman seglin á því sviði, en arkaði hann nú samt í eigin persónu á heimili Silvanusar og rannsakaði vettvanginn hátt og lágt.
Keisarinn rannsakar vettvanginn
Og viti menn, skarpur var Tíberíus hvað sem öðru leið. Keisarinn virðist hafa haft svo glöggt auga að hann hefði sómt sér vel í hvaða CSI-deild sem var. Í þá daga fóru glæparannsóknir yfirleitt fram með þeim einfalda hætti að grunaðir voru yfirheyrðir og ef þeir tilheyrðu ekki yfirstéttinni, þá voru þeir pyntaðir grimmilega uns þeir játuðu. Gegn staðfastri neitun yfirstéttarmanna, sem ekki mátti pína, var hins vegar oft erfitt að sanna sök. Söfnun og rannsókn vísbendinga og sönnunargagna voru á mjög frumstæðu stigi.
En eftir að hafa skimað um alla vettvanginn í húsi Silvanusar benti Tíberíus mönnum sínum á smávægileg merki um að þarna hefðu átök átt sér stað. Og á gluggakarminum voru rispur sem keisarinn sagði ótvírætt benda til þess að þar hefði vesalings Apronia reynt að verjast árásarmanni en að lokum orðið að sleppa taki sínu og verið hent miskunnarlaust út um gluggann.
Þetta hlýtur að hafa verið falleg sjón: Valdamesti maður öflugasta stórveldis heimsins að rýna í rispaðan gluggakarm til að grafast fyrir um örlög ungrar stúlku.
Og árásarmaðurinn? Ja, þar var ekki öðrum til að dreifa en Silvanusi.
Þetta var skelfilegur skandall. Pretor af göfugustu ættum Rómar grunaður um óskiljanlegt morð á ungri og fallegri eiginkonu, bara skömmu eftir brúðkaupið! Hvað hafði eiginlega valdið þessu?
En þar er einmitt vandinn. Þótt Tíberíus hafi sannað rannsóknarhæfileika sína, þá fáum við aldrei að vita hvort hann hafi líka haft hæfileika til að lokka sannleikann upp úr sakborningi við yfirheyrslur.
Silvanus var handtekinn og réttarhöld gegn honum undirbúin. Hann hafði þá enn enga skýringu gefið á hvað hefði hent þessa hræðilegu nótt þegar Apronia dó. Vænta má þess að keisarinn hefði sjálfur verið viðstaddur réttarhöldin og jafnvel tekið þátt í yfirheyrslum.
En nú birtist amma gamla óvænt á sviðinu. Silvanus sonarsonur hennar hafði þegar varpað heldur betur skugga á hið fína nafn fjölskyldunnar, og Urgulania mátti ekki til þess hugsa að enn bættist á við opinber réttarhöld. Og því sendi hún stráknum rýting einn beittan í fangelsið og skilaboðin voru skýr:
Dreptu þig strákur!
Sýknuð af galdrakæru
Og það gerði Silvanus að sjálfsögðu. Hver drepur sig ekki ef amma manns heimtar það? Að vísu réði hann ekki við að stýra rýtingnum sér í hjartastað og varð að fá einhvern annan til að opna sér æð að lokum – en honum tókst loks að deyja ömmu sinni til sóma.
Urgulania reyndi síðan að bjarga andliti fjölskyldu sinnar frekar með því að fá Numantinu dregna fyrir dóm fyrir galdra – hlaut það ekki að vera fjölkynngi hinnar svartsjúku fyrrum spúsu sem olli því að sómapilturinn Silvanus gekk af göflunum og drap sína heittelskuðu Aproniu? En Numantina var líka af voldugri ætt og hún var að lokum sýknuð.
Ekki er vitað til að Tíberíus hafi framar brúkað sína lögguhæfileika – nema þegar hann kom upp um útsmogið samsæri gegn sér sem skjólstæðingur hans Sejanus stýrði, en það er önnur saga.
En þá er aðeins spurningin: Hver á að leika þetta fólk í glæpaseríunni sem nú hlýtur að komast á koppinn? Tíberíus er klárlega Robert de Niro. En Silvanus? Eða Apronia eða Numantina? Og hver getur leikið ömmu Urgulaniu?
Athugasemdir