Loksins hefur þaulsetnasta fretský síðustu tuttugu ára ákveðið að svífa á vit sinna pólitísku feðra, og er þá hafinn þessi undarlegi mökunardans sem aðdragandi að íslenskum forsetakosningum er.
Löngu áður en tónlistin byrjar og dansinn hefst stekkur inn á sviðið fyrrverandi boltastrákur sem hefur getið sér gott orð við skriftir á erótískum unglingabókmenntum, og breikdansar af fádæma kunnáttuleysi og rymur eins og hrútur allan tímann.
Þegar Toggi haltrar af gólfinu byrjar tónlistin. Dansinn hefst þannig að áhorfendur öskra handahófskennd nöfn þeirra sem þeir vilja að stígi fram. Hugsanlegir frambjóðendur stíga svo vandræðalegan skottís á meðan við mátum viðkomandi nöfn í embættið og reynum að sjá þau fyrir okkur með gullhlekki um hálsinn takandi í spaðana á öðrum uppskrúfuðum þjóðarleiðtogum.
Svo kemur viðlag, sem er í þessu tilfelli skoðanakannanir í bland við undirskriftarlista þrælslundaðra, þar sem skorað er á Ólaf Ragnar að bjóða sig fram aftur því hér fari bókstaflega allt á hliðina ef hann sé ekki á Álftanesi að fróa rasistum, gælandi við bankapunga og tottandi pópúlíska þokulúðurinn sinn af aðeins of mikilli áfergju.
Viðlagið endar á „no comment“ kór þeirra sem mældir voru, alveg þar til augljóst er að þeir sem eiga séns í embættið verða – vegna fjölda áskoranna – að stíga tilneyddir fram og fara í hanaslag um þennan mest áberandi lífstíðar launamiða landsins.
Svo þyrlar það fólk tittlingnum á sér fyrir framan alþjóð og vonar að hann rekist ekki í neitt brothætt eða cockslappi ungabarn, á meðan við störum malandi á viðkomandi, ásamt maka og börnum í nokkrar vikur, og mátum þau í þetta skrítna og úrelta fyrirbæri sem forsetaembætti Íslands er.
Getum við bara plís sleppt þessum skrípaleik? Veitt peningum okkar og orku í eitthvað annað sem hefur að minnsta kosti snefil af tilgangi? Reglulega hafa komið upp umræður og frumvörp um að leggja embættið niður. Tillögur ákveðinna aðila innan stjórnlagaráðs miðuðu meðal annars að því að straumlínulaga íslenska stjórnsýslu með því að losa okkur við þessa pólitísku botnlangatotu. En allt hefur komið fyrir ekki, og við höfum því þurft að horfa upp á þennan gráhærða vindhana hneggja óupplýstum, þriggja kynslóða gömlum skoðunum sínum yfir blásaklaust fólk, og sannfæra í leiðinni nokkra einfeldninga um að hann sé ómissandi.
Oft er gott að hugsa hlutina út frá börnum. Ef barn spyrði þig „af hverju erum við með forseta?“ ertu þá að fara að svara „af því að þegar Ísland hlaut sjálfstæði árið 1944 þótti mörgum Íslendingum hugmyndin um að vera þjóðarleiðtogalaus vera svo skerí að búið var til svona landsföðurlegt jólasveinaembætti sem við gætum horft upp til og staðið upp fyrir þegar það kemur í Þjóðleikhúsið og sem kyssir börn (samt ekki á munninn) heldur ávörp og lætur okkur líða eins og við værum lítil stórþjóð en ekki stórt smáþorp á nánast óbyggilegu skeri, einu slæmu eldgosi og vetri frá því að þurrkast út.“ Líklega ekki.
En embættið er gagnslaust, og það sem verra er, hefur gert ógagn, eins og frægt er orðið. Fólk er bara fólk. Hættum að hampa einstaklingi fyrir að hafa tekist að vera aldrei gripinn fullur eða með vitlaust dóp í vasanum með því að gefa honum ótruflað mjög kostnaðarsamt gjallarhorn í nokkur ár á meðan við gefum vitleysunni sem út úr viðkomandi kemur einkunn. Það eru fjölmargar manneskjur sem gætu sinnt þessu embætti af virðingu, en af hverju eigum við að sóa tilveru þeirra í að vera tilgangslaus viðburðarstjóri og handahófskennd klappstýra?
Losum okkur undan þessum skrípaleik. Losum okkur við þá skömm sem fylgir þessu stefnulausa, snobbaða og úrelta fyrirbæri. Förum inn í nýja tíma laus við hlekki þeirra gömlu, og brennum Bessastaði og allt sem þeir standa fyrir til grunna.
Athugasemdir