Ólafur Ragnar Grímsson mun að öllum líkindum ætla að bjóða sig fram til forseta enn einu sinni á næsta ári. Ef hann gerir það og sigrar – sem hann mun nær örugglega gera þar sem annar frambjóðandi er ekki líklegur til að veita honum verulega samkeppni nema ef fólk eins Jón Gnarr, Andri Snær Magnason eða Björk fer fram gegn honum – mun hann hafa setið á forsetastóli í 24 ár, lengst allra forseta í lýðveldissögunni.
Nú er einfalt að halda því fram að forsetaembættið skipti ekki neinu máli og sé aðeins til punts á tyllidögum. En þetta er auðvitað bara rangt þar sem forseti hefur vald til að samþykkja ekki lög og vísa þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og Ólafur Ragnar hefur gert í umdeildum málum eins og fjölmiðlamálinu og Icesave. Forsetaembættið skiptir máli, þó ekki væri nema bara út af þessari ástæðu. Ólafur Ragnar er og hefur verið einn valdamesti maður landsins.
Maðurinn sem klýfur þjóðina
Ólafur Ragnar hefur líka gerbreytt embætti forseta Íslands á seinni hluta ferils síns. Skoðanir fólks á honum kljúfa þjóðina nokkurn veginn til helminga eins og sást ágætlega í síðustu forsetakosningum þegar hann fékk rétt rúmlega 53 prósent atkvæða. Staða Ólafs nú er ekki ósvipuð því sem hún var árið 1996 þegar hann var fyrst kjörinn í embætti en þá fékk hann rúmlega 41 prósent atkvæða og skiptist þjóðin nokkurn veginn til helminga varðandi skoðanir sínar á honum. Eftir að hafa verið sjálfkjörinn árið 2000 náði Ólafur Ragnar svo að vinna kosningasigur um sumarið 2004 þegar hann fékk rúmlega 2/3 hluta atkvæða eftir að hafa skömmu áður synjað fjölmiðlalögunum staðfestingar.
Þegar litið er yfir stjórnmálaferil Ólafs Ragnars er ljóst að hann hefur alla sína pólitísku tíð komist áfram á sundrungu og pólaríseringu, sama hvort hún er tilkomin vegna áhrifa innanflokksdeilna í Alþýðubandalagi, stéttapólitíkur Kalda stríðsins, deilna um fjölmiðlafrumvarp, ógagnrýnni og blindri stöðutöku með íslensku útrásinni sem meira að segja þótti óþarflega mikil meðan á „góðærinu“ stóð, átaka um Icesave eða þá ólíkra hugmynda um stefnu Íslendinga í innflytjendamálum sem virðist vera nýjasta útspil Ólafs Ragnars. Vigdís Finnbogadóttir sat á sameiningarstóli í nær alla sína embættistíð en Ólafur Ragnar hefur setið á ófriðarstóli alla sína forsetatíð af því hann byggir völd sín á sundrungu.
Átök stjórnmálamannsins
Ólafur Ragnar var fyrst í Framsóknarflokknum sem ungur maður en klauf sig frá þeim flokki árið 1974 í Möðruvallahreyfingunni og gekk til liðs við Samtök frjálslyndra og vinstri manna og var varaþingmaður þess flokks.
Í kjölfar þess að Ólafur Ragnar gat ekki setið lengur sem formaður Alþýðubandalagsins árið 1995 vegna þess að hann hafði leitt flokkinn í 8 ár, og reglur flokksins kváðu á um hámarksárafjölda á formannsstóli, hætti hann afskiptum af flokkspólitík og bauð sig fram í forsetakosningum árið á eftir.
Þjóðernishyggja sem sterkasti fastinn
Eitt sem einkenndi hugmyndafræði fjórflokksins áratugina sem kalda stríðið varaði var þjóðernishyggja en segja má að allir helstu flokkar landsins hafi verið þjóðernissinnaðir á þessum tíma eins og til dæmis er fjallað um í bók Árna Bergmann, fyrrverandi ritstjóra Þjóðviljans. Þetta hefur Árni meðal annars eftir Marshall Brement, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna, á Íslandi. „Mig minnir að Marshall hafi talið að íslensku flokkarnir fjórir væru allir tilbrigði við evrópskan kratisma og allir þjóðernissinnaðir.“
Ef það er einn eiginleiki sem alltaf hefur einkennt Ólaf Ragnar, þó hann kunni að hafa farið á milli flokka, þá er það þjóðernishyggja: Hann er þjóðernissinni og öll hans störf markast af því. Í ljósi þess hversu ákveðin þjóðernishyggja var og er enn stór og mikilvægur hluti af hugmyndafræði þriggja af fjórum stærstu flokkum landsins – Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Vinstri grænum og jafnvel að hluta til hjá Samfylkingunni - getur Ólafur Ragnar sótt atkvæði svo víða. Sterkasti pólitíski fastinn í Ólafi Ragnari er sá að hann er þjóðernissinni; svo hagar hann seglum eftir vindi eins og góðum og klókum hentistefnumanni sæmir.
Vinstrimenn fylktu sér um Ólaf Ragnar
Vinstrimenn fylktu sér um Ólaf Ragnar 1996 og hefði kosningasigur hans sjálfsagt orðið miklu meiri ef aðalframbjóðendurnir hefðu einungis verið hann og Pétur Kr. Hafstein, sem hægrisinnað fólk kaus sjálfsagt mest, en ekki líka Kvennalistakonan Guðrún Agnarsdóttir, sem tók til sín rúmlega 1/4 hluta fylgisins.
Ég man vel hvernig umræðan var á þessum tíma. Litið var á Ólaf Ragnar sem andsvar vinstrisins við Davíð Oddssyni og Sjálfstæðisflokknum og ekki voru nema sjö ár frá lokum Kalda stríðsins sem hafði haldið stjórnmálalífinu á Íslandi pólaríseruðu eftir vinstri og hægri línum í rúma hálfa öld. Davíð stýrði kannski ríkisstjórninni en vinstrimaðurinn Ólafur átti þá að sitja á móti á Bessastöðum.
Fjölmiðlafrumvarpið sameinaði andstæðinga Davíðs
Þessi pólarísering í samfélaginu jókst svo enn meira í forsetakosningunum 2004 vegna umræðunnar um fjölmiðlafrumvarpsmálið. Þá – ennþá – var Ólafur Ragnar skýr valmöguleiki gegn völdum Davíðs Oddssonar og ríkisstjórnar hans sem skömmu áður hafði reynt að knésetja fjölmiðlafyrirtæki Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Ólafur fékk því ekki einungis atkvæði vinstri mannanna sem voru orðnir langþreyttir á Davíð heldur líka hægrisinnaða fólksins sem taldi ríkisstjórnina stunda einelti gegn Jóni Ásgeiri og fyrirtækjum hans.
Umpólun stuðningsins
Á árunum frá 2004 til forsetakosninganna árið 2012 – Ólafur Ragnar var sjálfkjörinn árið 2008 – umpólaðist staða forsetans í huga þjóðarinnar. Hrunið og rannsóknarskýrsla Alþingis, þar sem Ólafur Ragnar var harðlega gagnrýndur, settu strik í reikninginn og forsetinn þurfti að endurskapa sig í kjölfar þess álitshnekkis sem fylgdi stuðningi hans við banka- og kaupsýslumenn og íslenska efnahagsundrið. Í kosningunum árið 2012 naut Ólafur Ragnar góðs af því að hafa synjað Icesave-samningunum tveimur staðfestingar; niðurstöður sem ríflegur meirihluti þjóðarinnar sýndi svo í verki í þjóðaratkvæðagreiðslum að hann væri sammála.
Í kosningunum árið 2012 má segja að sá hópur fólks sem studdi hann hvað mest og harðast í kosningunum árið 1996 – fólk á vinstri kanti stjórnmálanna sem hafði trú á og vildi opna íslenskt samfélag og sem leit á Ólaf Ragnar sem pólitískt mótvægi við Davíð Oddsson – hafi snúið við honum baki.
Margir sem kusu Þóru Arnórsdóttur, eins ágæt og hún er, voru ekki bara að kjósa hana heldur líka að kjósa gegn Ólafi Ragnari; hún tók til sín óánægjufylgið frá Ólafi Ragnari rétt eins og Ólafur Ragnar hafði öðrum þræði tekið til sín fylgi óánægðra vinstrimanna sem litu á hann sem sinn frambjóðanda og mótvægi við Davíð Oddsson árið 1996.
Þannig er Ólafur Ragnar orðinn forseti þeirra stjórnmálaafla og þeirra kjósenda sem hvað helst voru á móti honum árið 1996.
Ógn íslam
Ólafur Ragnar heldur svo bara áfram að reyna að leggja inn hjá hluta kjósenda núverandi ríkisstjórnarflokka með því að ala á sundrungu og átökum og búa til nýja óvini; óvini sem væntanlega eiga að hjálpa honum að sitja fjórum árum lengur á Bessastöðum.
Nú er það íslam sem Ólafur Ragnar talar um því auðvitað stökkva hægrisinnuð og populísk öfl á Íslandi á þann vagn einangrunarhyggju og tortryggni líkt og svo mörg önnur stjórnmálaöfl víða um Evrópu. Eftir hryðjuverkin í París sagði Ólafur Ragnar: „En við verðum að átta okkur á því, á raunsæislegan hátt, að við erum ekki eyland í þessari veröld. Og þegar við fréttum af því, eins og ég gerði á fundi með fulltrúum erlends ríkis fyrir nokkru síðan, að ríki sem fóstrað hefur öfgakennt islam og þær sveitir sem hafa lagt til atlögu gegn vestrænni siðmenningu hefur ákveðið að hafa afskipti af trúarbrögðum á Íslandi, er það auðvitað merki um að við erum ekki eyland í þessari veröld […] Um leið og við eigum ekki að fara að fordæma flóttamenn og hlaupa frá samfélagi fjölmenningar og umburðalyndis eigum við ekki heldur að lifa í barnalegri einfeldni um það að með einhverjum aðgerðum á sviði umburðalyndis og félagslegum umbóta sé hægt að taka á þessum vanda.“
Afar líklegt verður að teljast að Framsóknarflokkurinn muni einnig stökkva á þennan sama vagn í aðdraganda næstu Alþingiskosninga, líkt og flokkurinn gerði í síðustu borgarstjórnarkosningum og uppskar ríkulega, enda er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson byrjaðar að tala með svipuðum hætti og forsetinn gerir.
Að búa til átök
Ólafur Ragnar er svo mikill stjórnmálamaður í eðli sínu, svo mikið pólitískt dýr, að hann getur ekki farið inn í kosningar án þess að vera með skýrar átakalínur; átakalínur sem hann jafnvel sjálfur býr til með málflutningi sínum og tali um að þjóðin þurfi á honum að halda á þessum óvissutímum. Hann veit sem er að besta leiðin fyrir hann til að ná árangri er að stilla sér upp réttu megin í pólitískum átökum sem jafnvel eru dramatísk.
„Hvað segir þú: á ég að hjóla í hann?“
Útspil hans sem virkað hefur best hingað til er: Íslenska þjóðin gegn umheiminum, Bretum og Hollendingum í tilfelli Icesave en nú er það Ísland gegn íslam. Ólafur Ragnar er átakasækinn stjórnmálamaður af því að þannig hefur hann náð þeim undraverða árangri sem hann hefur náð. Enginn stjórnmálamaður á Íslandi á seinni hluta 20. aldarinnar kemst nálægt Ólafi Ragnari þegar kemur að árangri hans og ótrúlega hæfni hans til að endurskapa og -skilgreina sjálfan sig til að ná pólitískum árangri. Furstann eftir Machiavelli mætti endurskrifa út frá Ólafi Ragnari og kalla Forsetann.
Ein saga í áðurnefndri bók Árna Bergmanns varpar ágætu ljósi á þetta átakaeðli Ólafs Ragnars Grímssonar. Miklar deilur höfðu geisað inni í Alþýðubandalaginu árið 1986 þar sem Ólafur Ragnar var á einum kantinum, Svavar Gestsson í miðjunni og Ásmundur Stefánsson verkalýðsforkólfur á hinum kantinum. Árni og Ólafur Ragnar stóðu við hlaðborð á 50 ára afmæli Þjóðviljans með tóma diska og biðu eftir að skófla á þá þegar sá síðarnefndi segir við Árna eftir að hafa séð Ásmundi bregða fyrir. „Hvað segir þú: á ég að hjóla í hann? Viltu hjálpa mér til þess?“
Ólafur Ragnar er alltaf að leita að einhverjum til að hjóla í til að upphefja sjálfan og undirstrika mikilvægi sitt þó vissulega geri hann það með mýkri og klókari hætti nú en þarna er lýst enda er hann fyrir löngu kominn með svarta beltið í pólitískum refskap.
*Ranglega var sagt frá því í upphaflegri útgáfu greinarinnar að Ólafur Ragnar hefði lagt Svavar Gestsson að velli í formannskjörinu árið 1987. Ólafur Ragnar fékk 60 prósent atkvæða í formannskjöri gegn Sigríði Stefánsdóttur.
Pistill sem birtist í prentaðri útgáfu Stundarinnar þann 17. desember
Athugasemdir