Síðasta mánuð hefur staðið yfir álagspróf íslenska fjölmiðla. Það hófst þegar viðtal var tekið við forsætisráðherra landsins um miðjan síðasta mánuð, þær þrjár vikur sem liðu þar til það var birt og vikuna sem liðin er frá þeirri birtingu.
Niðurstaðan úr þessu álagsprófi er ekki gæfuleg. Margir stukku á spunabeituna sem var kastað út með facebook færslu eiginkonu forsætisráðherrans fyrrverandi, fjórum dögum eftir að viðtalið var tekið. Ráðherrann og hans ráðgjafar reyndu að afvegaleiða umræðuna en aumlegasti morfíshluti þeirrar tilraunar, var að gera strámann úr eiginkonu forsætisráðherra. Hrópað var á torgum að verið væri að ráðast á eiginkonuna sem hafði orðið fyrir því óláni að verða rík. Varla verður lagst lægra en að tefla fram eiginkonunni í varnarskyni.
Í spunadansinum opinberuðu nokkrir fjölmiðlar sig rækilega. Það þarf ekkert að fjölyrða um Morgunblaðið sem er rúið öllum trúverðugleika með núverandi ritstjóra. Miðlar undir hatti Vefpressunar (Eyjan, DV, Pressan) áttu svo sem ekki mikið inni í trúverðugleikabankanum og spiluðu með í spunanum. Öllum er augljóst hvar hjartað slær á þeim bæ. Ein mesta lágkúran í þeim spuna var upplogin frétt um að nafn gjaldkera Samfylkingarinnar væri í Panamaskjölunum og fullyrt að þessi vitneskja væri frá mönnum sem væru að vinna með gögnin.
Allra aumastur var þó leiðari aðalritstjóra 365 sem lýsti því yfir að Wintrismálið væri merki um fársjúka umræðu í landinu. Ótrúlega bitlaust drottningarviðtal við ráðherrann fylgdi svo í kjölfarið.
Hluti af spunaaðgerðum var svo að ráðast á fjölmiðla sem stóðu í lappirnar. Pólitískar ofsóknir gagnvart RUV náðu hæstu hæðum og hið sorglega var, að aðrir miðlar og fjölmiðlamenn spiluðu að hluta til með.
„Í rauninni er þetta til marks um fársjúkt fjölmiðlaumhverfi.“
Fall einstakra blaðamanna og heilu miðlana í álagsprófinu síðasta mánuð er verulegt áhyggjuefni. Í rauninni er þetta til marks um fársjúkt fjölmiðlaumhverfi. Það þarf svo ekkert sérstaklega að hæla þeim fjölmiðlum sem stóðust álagsprófið; þeir gerðu það sem þeir eiga að gera.
Sú staðreynd að ráðherrann var fenginn í viðtal um Wintrismálið án þess að honum væri gerð grein fyrir því fyrirfram, er endurspeglun á þessum sjúkleika. Forsætisráðherrann fyrrverandi hafði leikið þann leik að mæta aðeins í viðtöl þar sem hann vissi að farið yrði um hann mjúkum höndum. Allar líkur eru á því að hann hefði yfirhöfuð aldrei mætt í viðtal ef hann vissi að spurningar um Wintris yrðu lagðar fram. Líkast til hefði hann stokkið til, sópað gögnum undir teppið og sett af stað spunaleikrit eins og menn upplifðu eftir að viðtalið var tekið.
Eftir gaumgæfilega athugun Reykjavik Media, Sænska sjónvarpsins og Alþjóðasambands rannsóknarblaðamanna, ICIJ, var ákveðið að fara þessa leið. Vegna þess, að það var sjúkleiki í samskiptum fjölmiðlanna og ríkisvaldsins.
Maður sér einhverja rekja upp kvein og telja að ómaklega hafi verið að verki staðið. Ef einhverjir fjölmiðlamenn ætla að taka undir það, staðfesta þeir einfaldlega að fallið á álagsprófinu var ekki stundarólukka og lélegt dagsform.
Við lifum ekki lengur á tímum þar sem ráðamenn eiga kröfu á að fá spurningarnar sendar til sín fyrirfram. Hvergi meðal sæmilega siðaðra þjóða telst það tiltökumál að spyrja æðsta ráðamann, óundirbúið, um gríðarlega hagsmuni af því tagi sem þarna var um að ræða. Þeir einir sem þurfa undirbúningstíma til að svara svo mikilsverðum spurningum eru þeir sem ætla sér að spinna sannfærandi lygavef. Sannleikurinn þarf engan sérstakan undirbúning.
Sú þjóðarsmán sem heimsbyggðin er enn að hlægja að í dag, var ekki óundirbúin fyrirspurn, heldur skelfilega vandræðaleg og óundirbúin lygi.
Athugasemdir