Ef Bjarni Benediktsson sér ekki sóma sinn í því að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu á næstu dögum hljóta þingmenn stjórnarandstöðunnar að leggja fram vantrauststillögu.
Kjósendur eiga heimtingu á því að stjórnarliðum sé stillt upp við vegg og þeir látnir útskýra á hvaða forsendum það geti mögulega talist eðlilegt, eftir allt það sem á undan er gengið, að Sigmundur gegni áfram embætti forsætisráðherra.
Það er mikilvægt að fá upp á borðið hvaða þingmenn og hvaða stjórnmálaflokkar geta hugsað sér að leggja blessun sína yfir framgöngu Sigmundar – þá staðreynd að forsætisráðherra Íslands leyndi því fyrir almenningi að hann átti mörghundruð milljóna króna hagsmuna að gæta við úrlausn einhvers stærsta hagsmunamáls Íslands á undanförnum árum, sem hann lék sjálfur lykilhlutverk í – og það í gegnum skattaskjólsfélag eiginkonu sinnar á Bresku jómfrúareyjunum.
Snemma árs 2014 kom í ljós að þáverandi ráðherra ríkisstjórnarinnar hafði gerst sek um leynimakk og lygar í máli sem laut að mannréttindum tveggja hælisleitenda. Þegar ráðuneyti sætti, í fyrsta skipti í Íslandssögunni, sakamálarannsókn hrökk stór hluti stjórnmálastéttarinnar í vörn. Fyrir vikið leyfðist ráðherranum að spúa eitri um stjórnsýsluna í heilt ár, grafa undan trausti til stofnana samfélagsins, ata hælisleitendur, embættismenn og fjölmiðlafólk aur og hrekja vinsælan lögreglustjóra úr starfi. Allt í krafti þess heilbrigðisvottorðs sem meirihluti Alþingis veitti ráðherranum, ýmist með beinum eða óbeinum hætti.
Nú liggur fyrir að forsætisráðherra var og er stórkostlega vanhæfur í einu stærsta hagsmunamáli kjörtímabilsins. Hann hefur leynt þing og þjóð upplýsingum (ekki bara passívt heldur aktívt með því að svara ekki ítrekuðum fyrirspurnum fjölmiðla) og sýnir ekki vott af iðrun, einungis skæting í garð þeirra sem spyrja spurninga. Svo virðist sem Sigmundur trúi því í alvörunni að hann hafi ekki gert neitt óeðlilegt.
Þá vakna spurningar eins og þessar: Hvernig er hægt að treysta því að forsætisráðherra eigi ekki persónulegra hagsmuna að gæta í fleiri málum sem hann kemur að, án þess að segja frá því? Og hvernig mun Sigmundur nota völd sín fram að næstu kosningum ef enginn stöðvar hann?
Pistillinn birtist áður á Facebook-síðu höfundar.
Athugasemdir