Get ég leikið við Anítu í dag? Nei, elskan, við erum að fara á mótmæli í dag. Í tíðarfari núverandi stjórnvalda er víst ærið tilefni, allt of oft, til mótmæla. Mótmælahrinan síðasta vor varð að ólaunaðri aukavinnu dag eftir dag. Ég og börnin mættum oft í viku. Þau eru hluti af fjölskyldunni og hluti af mínu lífi og ég get ekki aðskilið hugsjónir mínar og uppeldi mitt á börnunum. Enda er tilgangur uppeldis jú einmitt að kenna börnum á lífið, rétt frá röngu, gildi, viðmið, siði og venjur fjölskyldunnar. Svo við fórum. Dag eftir dag. Með potta, slagverk og flautur. Þau galvösk í útigöllunum sínum.
Af hverju erum við að mótmæla? Af hverju er ríkisstjórnin í ruglinu? Þau taka skattpeningana sem við borgum til að halda samfélaginu uppi og gefa vinum sínum og fjölskyldu þá. Í alvöru, mamma?! Þau eru ekki að standa sig og eru óheiðarleg. Börnin sjá óréttlætið. Við hrópum með öllum hinum þúsundunum. Vanhæf ríkisstjórn! Sem í þeirra meðförum verður BANVÆN RÍKISSTJÓRN! Ástæðulaust að leiðrétta það.
„Mótmælin verða að verklegri kennslu í lýðræði, kostum þess og göllum og á eftir fáum við okkur pitsu.“
Mótmælin verða að verklegri kennslu í lýðræði, kostum þess og göllum og á eftir fáum við okkur pitsu. Enginn tími til að elda þegar mótmælin standa fram að kvöldmatartíma. Á netinu les ég um að ég sé vanhæft foreldri að taka þau með. Einhver segist í fúlustu alvöru bera minni virðingu fyrir foreldrum sem taka börn með á mótmæli heldur en fyrir spillta stjórnmálafólkinu sem þau eru að mótmæla. Meira að segja lögreglan gefur út tilkynningu um að börn eigi að halda sig heima. Heima að lita, leira og horfa á Cartoon Network. Setja aktívisma minn á „hold“ í þessi 18 ár sem þau eru fylgifiskar mínir. Hvaða öflum ætli það þjóni?
Ég á að kenna þeim um lýðræði með því að lesa bæklinginn frá Alþingi sem sonur minn kom með heim úr skólanum einn daginn. Það hefur virkað svo vel fyrir undangengnar kynslóðir eins og sjá má af leiftrandi kosningaþátttöku ungs fólks … eða ekki.
Dagarnir líða og við tökum að þreytast. Kennslustundin um lýðræði dregst á langinn og virðist tæplega ætla að standa undir nafni. Aníta fer aldrei á mótmæli mamma. Við erum búin að hrópa fyrir framan Alþingi í marga daga, heldur þú að ríkisstjórnin viti ekki hvað okkur finnst núna? Jú. Farðu til Anítu í dag. Við sjóðum fisk í kvöld. Þau lofuðu kosningum í haust. Það verður að duga í bili.
Athugasemdir