Eigum við sjö poka af snakki? Og súkkulaðihnetusmjör! Gleðin í augum þeirra jafn ósvikin og stírurnar þennan morguninn. Enda ekki á hverjum degi sem slíkt er til á heimili þar sem wannabe heilsusamlegir foreldrar kaupa í matinn. Það gerist með reglulegum hætti að húsið fyllist af mat á meðan þau sofa. Ég er sumsé ruslari. Reglulega fer ég í langa bíltúra um höfuðborgarsvæðið og gramsa í gámum matvöruverslana. Þetta sparar mikinn pening, vinnur gegn matarsóun og er leið til að snúa á kapítalismann. Ég geri þetta sumsé bæði til að minnka þennan útgjaldalið og til að lýsa frati á heim þar sem milljónir svelta en aðrir henda mat. Og fyrst ég er að að skrifa um þetta á annað borð þá lýsi ég hér með líka frati yfir verslanir sem læsa gámunum sínum og láta þar fullkomlega ætan og fínan mat rotna. Fleiri og fleiri verslanir gera það til þess eins að passa upp á budduna sína og viðskiptin. Megi þessi útúrbrenglaði iðnaður öðlast lágmarks virðingu fyrir jörðinni sem fyrst.
„Ég geri þetta sumsé bæði til að minnka þennan útgjaldalið og til að lýsa frati á heim þar sem milljónir svelta en aðrir henda mat.“
En þannig atvikast það sumsé að þegar þau fara að sofa er bara til haframjöl, lífrænar baunir og tahini en þegar þau vakna eru allir skápar fullir af mat. Alls konar mat. Mat sem við kaupum almennt ekki en sem birtist fyrir töfra í skápunum með reglulegu millibili. Eitt sinn fékk ég 10 kassa af konfekti. Í annað sinn þrjár krukkur af súkkulaðiáleggi. Kex, kjöt, ávextir, brauð og jógúrt flæðir um allt. Allt í einu eigum við vínber og mangó og appelsínur og epli eins og við getum í okkur látið og pressum nýkreistan safa í öll mál. Hvernig útskýri ég þetta fyrir börnunum? Ef ég segi þeim að ég rusli, á ég þá á hættu að þau segi skólafélögum sínum frá? Verði fyrir aðkasti? Má ég eiga von á að barnavernd banki upp á daginn eftir? Kærandi mig fyrir að gefa þeim ruslmat? Bókstaflega. Segja þau afa sínum frá? Munu þau skammast sín og ekki þora að segja neinum? Ætti ég að segja þeim en biðja þau um að segja engum? Eða gríp ég til hvítra lyga? Ég hef gert það hingað til og segi að vinkona mín hafi gefið mér þennan mat. Þau eru nú aldeilis ánægð með hana, skal ég segja ykkur! En hvað svo þegar þau komast að hinu sanna? Þau eru að eldast og fara varla að sofa kl. 20.30 öllu lengur. Hvernig mun þetta leggjast í þau þegar þau eru unglingar? Afneita þau mér? Vilja þau koma með í leiðangra? Verða þau að jakkafatagangandi kapítalistum í uppreisn sinni gegn æskuheimilinu? Þetta eru raunverulegar áhyggjur! Ég á engin svör og þekki engan sem á þau, því það er víst aktívista siður að eignast ekki börn. Ég reyni að spila þetta eftir eyranu frá viku til viku og vona það besta á meðan ég horfi á súkkulaðikámaða fingur háma í sig brauðið.
Athugasemdir