Hvað er þetta? spurði hann og handlék gúmmíið af áhuga. Skrúfaði frá vatninu í vaskinum með áhugaglampa í sjö ára augunum. Sá líklega fyrir sér að fylla þetta undarlega litla gúmmíílát, hella, fylla aftur, leyfa legófígúru að fara í smá bað, leika af guðs náð. Ekki leika með þetta! Ég þríf af honum gúmmístykkið og sting hratt inn í skáp. Er langt úr hófi hvöss í málrómnum. Af hverju ekki? Hvað er þetta, mamma?
Þetta. Er. Þetta. Er. Ég stama. Þetta er.
Femínismi, jákvæðni gagnvart líkamsfúnksjónum, skömm og vandræðalegheit blandast saman við þá staðreynd að átta ára gamall drengur er spyrjandinn og ég þarf að svara strax. Einn stór hrærigrautur í hausnum á mér. Hverjir eru valmöguleikarnir? Færast undan. Þú kemst að því seinna. Þú veist það er verðurðu stór. Ljúga. Þetta er desilítramál. Sem ég geymi inni á baði … Segja sannleikann. Á leifturhraða vel ég það. Þetta er álfabikar. Fyrir konur sem eru á túr.
„Femínismi, jákvæðni gagnvart líkamsfúnksjónum, skömm og vandræðalegheit blandast saman við þá staðreynd að átta ára gamall drengur er spyrjandinn og ég þarf að svara strax.“
Fyrirsjáanlega opnar það á 10 spurningar í viðbót. Álfa? Túr? Blóð? Í marga daga? Úr píkunni? (sem hann hefur nýlega hætt að kalla pípu, það var fallegur misskilningur). Ég tek á öllu sem ég á. Allri menningunni sem hefur kennt mér að tala ekki um túr. Og ALLS EKKI við karlmenn, jafnvel þótt þeir séu bara átta ára.
Ég rifja upp bóluefnið við þessari þöggunarmenningu. Vitneskja mín um tilvist sænska túrfélagsins sem selur eyrnalokka sem líta út eins og blóðugir túrtappar og hafa það að markmiði að efla umræðu um blæðingar hjálpar til. Og frelsun geirvörtunnar. Útskýri rólega tíðahringinn og hinar ýmsu túrvörur sem til eru. Reyni að láta ekki sjá á mér hversu vandræðalegt þetta er.
Aðkomu álfanna að málinu er erfiðara að útskýra. Sú markaðsfræði bíður seinni tíma. Vona að þetta verði til þess að systir hans upplifi túr ekki sem tabú á heimilinu þegar þar að kemur. Vona að þetta verði til þess að túr verði ekki tabú á hans framtíðarheimili. Sný við þöggunartilburðum menningarinnar. Eitt barn í einu. Ein umræða í einu. Einn álfabikar í einu.
Höfundur er húsmóðir í Reykjavík, femínisti, róttæklingur, aktívisti og umhverfisverndarsinni. Hún elur upp tvö börn í samfélagi sem almennt er ekki femínískt, lítur niður á aktívisma og róttæklinga og finnst umhverfisvernd barnaleg. Pistlarnir „Af raunum róttæks foreldris“ taka á þeim núningi, vandræðalegheitum og vangaveltum sem skapast í þessum aðstæðum.
Athugasemdir