Hver vann kosningarnar, mamma?
Mje, það er svolítið erfitt að svara því.
En er Sigmundur Davíð ennþá þingmaður?
Já.
En hvað með Bjarna Ben?
Já.
En konan sem vill stytta skólann og að unglingar fari sem fyrst út að vinna? (honum líst EKKERT á það)
Já.
En þeir sem vilja bara taka við nokkrum flóttamönnum en vísa öllum hinum í burtu?
Já, svona slatti af þeim líka.
Af hverju, mamma? Af hverju voru svona margir sem kusu þau? Verða þau þá ráðherrar eða hvað það kallast nú aftur?
Kannski.
Mamma, þegar Sjálfstæðisflokkurinn er í viðtali segja þau þá bara í alvörunni að það sé ekki pláss á Íslandi fyrir allt flóttafólkið? Því það er ekki satt, ég hef alveg keyrt bara rétt fyrir utan bæinn og það er alveg rosalega mikið pláss. Bara gras og allt tómt. Við eigum pláss fyrir alla.
Nei, þau segja að við höfum tekið við nokkrum og það sé nóg.
Ég skil, þau snúa sumsé útúr – eins og þú bannar mér alltaf að gera.
Ég reyni eftir mætti að halda í trú á lýðræðið. Á kosninganótt héldum við partí. Svona partí eins og maður heldur þegar maður er langt kominn í fertugt. Smá víndreitill, snakk, súkkulaði, nýjasta eðluuppskriftin, 10–12 vinir. Börnin fengu leyfi til að vaka fram eftir og vera með. Mér finnst eitthvað fallegt við það að þau fái að vaka á gamlársdag, jólunum og yfir kosningasjónvarpinu. Sumsé á öllum helstu hátíðisdögunum. Ég geri mitt besta við að hafa trú á lýðræðinu og því að það hafi sigrað. Að við höfum mótmælt spillingu í vor og það hafi skilað einhverju.
Hvaða gagn gerðu mótmælin, mamma, ef Sigmundur og Bjarni eru kannski ennþá ráðherrar?
Kannski fáum við ríkisstjórn sem er ekki með öllu spillta fólkinu innanborðs. Kannski. En til vara þá fáum við allavega aftur að kjósa eftir fjögur ár. Þegar þú ert að verða 13 ára. Ef eitthvert spillingarmálið kemur upp í millitíðinni reynum við kannski að mótmæla aftur. Eða safna undirskriftum. Eða skrifa í blöðin ...
Ég brosi og reyni að sýnast vongóð, nær buguð af andlegri þynnku eftir þessi kosningaúrslit. Inni í mér kraumar anarkistinn. Er fulltrúalýðræðið í alvöru besta þjóðskipulagið? Það býr efasemdapúki á öxlinni á mér. Hvenær verður barnið nógu stórt til að við getum rætt alls konar aðrar útfærslur á þjóðfélögum? Anarkí? Beint lýðræði? Kommúnur?
Ókei, mamma, þeir ráða þá kannski í fjögur ár. Þeir ná varla að stytta skólann á þessum fjórum árum því það er svo mikið vesen að gera það, er það ekki?
Nei, það næst varla.
Svolítil þögn.
En, mamma, á fjórum árum ná þeir að vísa alveg helling af flóttafólki í burtu.
Já. Helling.
Athugasemdir