Það er undarleg tilfinning sem fylgir því að sjá börnin bergmála skoðanir mínar. Við ræðum margt við eldhúsborðið, femínisma, hinsegin málefni, flóttafólk, stjórnmál, völd og fátækt. Þeim finnst það áhugavert. Þau spyrja og spekúlera. Þau biðja mig um að útskýra fréttirnar í dagblöðunum. Það er auðvitað ekki alveg rétt að segja að þau bergmáli skoðanir mínar. Þau mynda sínar eigin skoðanir, draga sínar eigin ályktanir. Þau eru skynsöm og klár. En á sama tíma eru þau börn og skoðanir þeirra og ályktanir eru verulega litaðar af mínum skoðunum. Ályktanir þeirra eru undir verulegum áhrifum framsetningar minnar á málinu.
Ég fæ stundum ofsalega undarlega tilfinningu sem er sambland af stolti, ótta og samviskubiti þegar þau svo halda út í heiminn og ræða þessi mál sem við ræddum við eldhúsborðið. Þegar ég heyri þau leiðrétta vini sína sem segja að strákar geta ekki verið með sítt hár. Þegar ég heyrði þau segja við fullorðna frænku sína að flestar stelpur séu með píku en ekki allar (hinsegin umræðan sko). Þegar þau spyrja mig hversu mörgum flóttamönnum sé nú búið að vísa úr landi. Ég verð auðvitað stolt af því að mér sýnist ég vera að ala upp réttsýn og meðvituð börn sem láta sig málefni samfélagsins varða og neita að fara að grútmygluðum reglum feðraveldisins. En ég verð líka hrædd um að þau lendi í leiðindum, fordómum eða óþægilegum aðstæðum vegna þessara pælinga sinna. Og svo enda ég á að fá samviskubit yfir því að hafa rætt þessi mál. Ég heyri íhaldsröddina á öxlinni á mér ásaka mig um að vera að heilaþvo börnin mín. Um að vera að leggja þeim of miklar byrðar á herðar. Um að ég sé að gera þau að óalandi og óferjandi róttæklingum og ekkert gott muni leiða af því.
„Ég heyri íhaldsröddina á öxlinni á mér ásaka mig um að vera að heilaþvo börnin mín.“
Svo man ég að það að tala ekki um þessi mál er nákvæmlega jafn mikil afstaða og það að tala um þau. Og að íhaldsfólkið varpar sínum skoðunum einnig á börnin sín, hvort heldursem er með afstöðuleysi eða opnum umræðum. Það að tala ekki við börn um femínisma eða flóttafólk er nefnilega líka afstaða. Það er sú afstaða að annaðhvort komi börnum femínismi og flóttafólk ekki við eða að femínismi og flóttafólk sé ekki þess virði að ræða. Hvort tveggja er afstaða. Pólitísk afstaða sem þjónar valdinu og feðraveldinu. Þegar þetta rennur upp fyrir mér man ég að tilgangur uppeldis er einmitt að innræta börnum ákveðin gildi. Það er bókstaflega kjarninn í öllu uppeldisstarfi. Ef þessi gildi sem við kennum eru í samræmi við ríkjandi þjóðfélagsskipulag og á bandi valdhafa þá tökum við ekki einu sinni eftir innrætingu okkar. En ef gildin sem við kennum börnunum eru í andstöðu við ríkjandi þjóðfélagsskipulag og valdhafa þá köllum við það heilaþvott og óæskilega innrætingu sem aðeins klikkaðir foreldrar stundi. Og þegar ég er komin á þennan stað í mínu innra samtali gegn samviskubitinu þá hellist yfir mig fullkomin sátt við að vera klikkaða foreldrið.
Athugasemdir