Það er auðvitað fullkomlega galin hugmynd að leikföngin sem þú færð, fötin sem þú klæðist, maturinn sem þú borðar, námið sem þú ferð í … að bókstaflega allt sé með einum eða öðrum hætti markað út frá kynfærum þínum. Þessi hugmynd gefur svo grátlega lítið svigrúm til sköpunar og sjálfstæðis! Við sem mannkyn erum svo miklu fjölbreyttari en svo að þetta kerfi gangi upp. Ég hreinlega get ekki að því gert að andúð mín á þessu kerfi birtist stundum í skæruhernaði.
Þegar ég mæti kunningjakonunni, sem er með nýfætt barn í vagni, bleik sæng, bleik húfa, bleikt snuð, bleikur bangsi og bleikir vettlingar gægjast upp úr vagnopinu, lítill bleikur böggull, sætari en allt sem sykursætt er, spyr ég iðulega, blíðlega og einlæglega og án nokkurs háðs: Er þetta stelpa eða strákur? Bara til að kanna viðbrögðin. Ég ræð ekki við mig.
Þegar börnin fæddust sá ég sæng mína uppreidda í að rugla í fólki. Það leiddi til þess að ég var meðal annars sökuð um tilraun til skjalafals þegar ég fór með, þá 4 mánaða, son minn í myndatöku fyrir vegabréfið hans. Hann var klæddur í bleik föt. Konan í afgreiðslunni ætlaði trauðla að hleypa okkur í myndatöku því þetta væri augljóslega stelpa.
Annar skæruhernaður átti sér stað á skautasvelli síðastliðinn vetur. Ég hafði keypt fallega, loðfóðraða, hvíta skauta á son minn sem hann skartaði glaður á svellinu. Þá kom aðvífandi bekkjarfélagi hans sem var ekki lítið hneykslaður á að sonurinn væri í stelpuskautum. Hvítir eru fyrir stelpur, svartir eru fyrir stráka – fullyrti hann háum rómi og benti auðvitað um leið á sína svörtu strákaskauta máli sínu til stuðnings.
Ég byrjaði á léttu nótunum. – Skiptir liturinn nokkuð máli?
En vinurinn lét ekki segjast. Já, hann skiptir máli og hann er í stelpuskautum!
Eru skautarnir ekki alveg eins fyrir utan litinn? Mega ekki allir bara vera í friði í skautum sem þeim finnast flottir?
Nei, hann er í stelpuskautum! Af ákefðinni að dæma mætti halda að einhver náttúrulögmál hefðu verið brotin.
Jæja, sagði ég, en eru stelpur og strákar ekki með alveg eins fætur og þar af leiðandi eru skautarnir alveg eins og þetta skiptir ekki máli …?
Nei, hann er í stelpuskautum, strákaskautar eru svartir! galaði vinurinn áfram og lét ekki segjast. Það ætti að senda hann í einhverja kjarasamningsnefnd.
Hlustaðu nú, sagði ég ákveðin. Ég veit ekki með þig en við setjum skautana okkar ekki á kynfærin og okkar skautar eru ekki sérhannaðir fyrir píkur eða typpi. Þar af leiðandi geta allir verið í þeim skautum sem þeim finnast flottir, alveg sama hvaða kynfæri fólk er með.
Vinurinn hló taugaveikluðum hlátri, sagðist heldur ekki setja sína skauta á typpið og skautaði sína leið. Á svörtu skautunum sínum.
Athugasemdir