„Ég er ekki spilltur“ segir Bernhardt Esau sjávarútvegsráðherra Namibíu í afsagnarbréfi sínu sem hann sendi út til fjölmiðla í Namibíu nú fyrir skemmstu. Hann segir enn fremur að engar sannanir hafi verið færðar fram um að hann hafi þegið mútur né að hann hafi á nokkurn hátt dregið taum nokkurra aðila á óeðlilegan hátt í ráðherratíð sinni. Þrátt fyrir þetta ákvað Esau að segja af sér ráðherraembætti vegna þess að „herferð fjölmiðla“ á hendur honum kynni að skaða flokk hans, SWAPO.
Fullyrðingar Esau um að hann sé hvorki spilltur né að hann hafi þegið mútur fá holan hljóm þegar horft er á myndband fréttastöðvarinnar Al Jazeera af fundi fréttamanna stöðvarinnar með Esau í tálbeituaðgerð þar sem hann samþykkir að útvega þeim ódýran kvóta gegn greiðslu. Myndbandið má sjá neðst í þessari frétt.
Segir engin sönnunargögn um mútur
Í afsagnarbréfi Esau segir hann að eins og vitað sé hafi fjölmiðlar haldið úti herferð gegn honum og sakað hann um spillingu í embætti sjávarútvegsráðherra. Um þetta segir Esau:
1. Ég er ekki spilltur, og mun aldrei mæla spillingu bót nokkurs staðar;
2. Enginn hefur borið á borð fyrir mig nokkur sönnunargögn um að Bernhardt Esau hafi þegið peninga eða greiða frá nokkrum manni í skiptum fyrir verk mín sem ráðherra, og
3. Enginn hefur sýnt fram á að gefin hafi verið loforð um greiða gegn greiða, hvorki skriflega eða með öðrum hætti, sem ég á hefði gefið nokkrum á meðan að á störfum mínum sem ráðherrra stóð.
Þrátt fyrir þessa málsvörn sína segir Esau að vegna fjölmiðlaherferðarinnar á hendur sér, sem nú sé einnig beint gegn SWAPO flokknum og gegn Hage Geingob forseta, hafi hann farið fram á það við forsetann að fá að víkja sem ráðherra nú þegar. Það geri hann til að hægt verði að rannsaka ávirðingar sem á hann hafi verið bornar.
Tengdasonur sjávarútvegsráðherrans, Tamson „Fitty“ Hatuikulipi, þáði mútur frá Samherja og Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja, hefur einnig greint frá því að Tamson hafði milligöngu um að Esau fengi 18 milljónir í reiðufé greiddar frá Samherja. Allt var þetta gert til þess að tryggja Samherja hestamakrílkvóta við strendur Namibíu.
Forseti Namibíu, Hage Geingob, samþykkti afsögn Esau og einnig dómsmálaráðherrans Sacky Shanghala í dag. Namibískir miðlar greindu frá því í morgun að forsetanum væri misboðið vegna málsins og vildi reka ráðherrana tvo en ítrekað var fjallað um mútuþægni þeirra í Stundinni og Kveik í gær. Þeir virðast þó hafa fengið rými til að segja sjálfir af sér.
Athugasemdir