Útgerðarfélagið Samherji reyndi að fá Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, til að tala fyrir starfsemi fyrirtækisins í Marokkó árið 2010, en sjálft hafði útgerðarfélagið gert ráð fyrir því í rekstraráætlunum að greiða mútur í landinu.
Þetta má lesa út úr kostnaðaráætlunum Samherja í Marokkó frá þessum tíma sem og fundargerð frá fundi starfsmanna útgerðarfélagsins með Ólafi Ragnari.
Aðalsteinn Helgason, framkvæmdastjóri Kötlu Seafood á Kanaríeyjum, og Jóhannes Stefánsson, sem þá var framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja í Marokkó, sátu fundinn með Ólafi Ragnari auk eins starfsmanns til.
Skjölin um starfsemi Samherja í Marokkó og fundurinn með forsetanum eru hluti þeirra gagna um starfsemi Samherja sem Stundin vinnur úr í samstarfi við Wikileaks, Kveik og Al Jazeera.
Tekið skal fram og það undirstrikað að ekkert í gögnunum bendir til að Ólafur Ragnar hafi með nokkrum hætti vitað af því að Samherji liti á mútugreiðslur sem kostnaðarlið í starfsemi sinni í Afríku.
Athugasemdir