Forseti Namibíu hyggst víkja sjávarútvegsráðherranum Bernhardt Esau og dómsmálaráðherranum Sacky Shanghala úr ríkisstjórninni vegna tengsla þeirra við mútugreiðslur Samherja sem Stundin greindi frá í gær ásamt Kveik, samkvæmt Namibian Sun.
Þar er greint frá því að forseti landsins, Hage Geingob, telji að ráðherrarnir tveir verði að víkja, hvort sem þeir verða reknir úr ríkisstjórninni eða með einhvers konar tilfærslum. Samkvæmt heimildum blaðsins er forsetanum nóg boðið vegna ásakana í garð ráðherranna tveggja og hefur tekið ákvörðun.
Ítrekað var fjallað um mútuþægni þeirra í Stundinni og Kveik í gær, auk þess sem fjallað var um málið á forsíðu The Namibian í morgun. Umfjöllunin er unnin í samstarfi við Al Jazeera og Wikileaks.
Dómsmálaráðherrann Shangala þáði mútur frá Samherja og félögum þess. Tengdasonur sjávarútvegsráðherrans, Tamson „Fitty“ Hatuikulipi, þáði einnig mútur. Fyrrverandi starfsmaður Samherja, Jóhannes Stefánsson, hefur einnig greint frá því að Tamson hafði milligöngu um að Bernhard Esau fengi 18 milljónir í reiðufé. Allt var þetta gert til þess að tryggja Samherja hestamakrílkvóta við strendur Namibíu.
Tálbeituaðgerð Al Jazeera
Al Jazeera hefur undanfarið unnið að tálbeituaðgerð í Namibíu, þar sem Bernhard Esau samþykkti að útvega ódýran sjófrystikvóta gegn greiðslu og bauð ráð við að komast hjá skattagreiðslum. Upptakan var fyrst birt í Kveik í gærkvöldi.
Í tvígang hafnaði hann beiðni Kveiks um viðbrögð, en ræddi við fréttamenn Kveiks á ráðstefnu í Noregi. Þar hafnaði hann því alfarið að haft vitneskju um mútugreiðslur. „Farið að rannsaka eitthvað annað,“ sagði hann.
Í fyrstu sagðist hann ekki þekkja til forsvarsmanna Samherja en viðurkenndi síðan að hafa átt fund með Þorsteini Má Baldvinssyni á búgarði í Namibíu.
Aðalsteinn skellti á
Í viðtali við Stundina lýsti Jóhannes, sem ákvað að stíga fram og ljóstra upp um vafasama viðskiptahætti Samherja í Namibíu, því þegar Samherji var að hefja veiðar í Namibíu árið 2012. Greindi hann frá því að þegar Tamson „Fitty“ Hatuikulipi fór fram á greiðslur til sjávarútvegsráðherrann hefði hann hringt í Aðalstein Helgason, framkvæmdastjóra Kötlu Seafood, sem var hans næsti yfirmaður.
„Ég hringdi í Aðalstein og sagði honum að það hafi komið ósk um að borga sjávarútvegsráðherranum 500 þúsund Namibíudollara,“ sagði Jóhannes, en það eru tæplega 10 milljónir íslenskra króna. „Þá sagði Aðalsteinn við mig að alltaf þegar gæfist tækifæri til að borga sjávarútvegsráðherra þá ætti ég að borga sjávarútvegsráðherra, hann orðaði þetta einhvern veginn svona. Ég tók þetta út í peningum og lét Tamson hafa þetta. Tamson var milliliður í þessu. Ég gerði þetta tvisvar,“ segir Jóhannes, en alls námu greiðslurnar um 18 milljónir króna.
Aðalsteinn sagði í samtali við Stundina að þetta væru „lygar“ án þess að útskýra það nánar. Aðalsteinn sem er sjötugur, hætti að vinna fyrir þremur árum síðan og kemur margítrekað fyrir í gögnum málsins, hafnaði því að svara fyrir aðkomu sína á þeim forsendum að hann væri „bara gamall maður“ og vildi vera í friði. „Vandamálið er að ég þarf ekki að ræða við þig. Hvað gerum við þá?“ sagði Aðalsteinn, og samtalinu lauk þegar hann skellti á blaðamann.
Athugasemdir