Kannski er hann með six-pakk þótt hann fari aldrei í ræktina. Kannski fær hún alltaf mörg hundruð læk, alveg sama hvað hún birtir lélegar myndir. Kannski veiðir hann alltaf stærsta laxinn og deilir fimm glaðhlakkalegum myndum af sér með fenginn, eins og til að nudda þér upp úr því. Kannski er hún alltaf að klífa fjöll eða er umvafin kláru og fallegu fólki sem þú vildir óska að þú þekktir. Kannski eru þau óþolandi fullkomin og eiga óaðfinnanlegan garð og börn sem kúka aldrei á stofuteppið. Glansmyndafólkið.
Hagnast á vanlíðan þinni
Við virðumst hafa miklar áhyggjur af þessu fullkomna fólki og erum búin að gera það ábyrgt fyrir hinum ýmsu hörmungum. Á mbl.is má sjá að samfélagsmiðlar og glansmyndunum sem þar bregður fyrir séu „eitur“, í Vísi stendur að þeir hafi „slæm áhrif á íslensk pör“ og þeir „skapi kvíða“ samkvæmt RÚV. Ég ætla ekki að véfengja að samanburður við óraunhæfar fyrirmyndir geti valdið minnimáttarkennd. Það er löngu staðfest að lestur tískutímarita gerir konur óánægðari með eigið útlit og minnkar til dæmis sjálfstraust þeirra, enda á meðalmanneskjan erfitt með að samsama sig því sem þar sést. Fólk með lélegt sjálfstraust er betri neytendur, því það reynir að kaupa sér lausnir í formi krema, megrunarlyfja og aðhaldsfatnaðar, svo dæmi séu nefnd. Ýmis stórfyrirtæki hagnast beinlínis á því að láta þér líða illa í eigin skinni.
Allt fyrir góða selfie
En víkjum okkur aftur að fullkomnu týpunni sem þú elskar að hata á samfélagsmiðlum. Hún er kannski ekki að reyna að selja þér neitt, en samt langar þig að kaupa þér annað líf eftir að hafa flett í gegnum albúmið hennar. Þess má geta að orðin „glansmyndir samfélagsmiðla“ skila hundruðum niðurstaðna á Google, með boðskap um að ekki sé allt gull sem glóir. Það er enginn með svona six-pakk, hann var bara með góða lýsingu og flottan filter. Hún keyrði kannski langleiðina upp fjallið og labbaði síðasta spölinn til að ná góðri selfie. Helvítis glansmyndafólkið.
Samhliða glansmyndunum eru margir að nota samfélagsmiðla til að sýna aðrar hliðar á mannlegri tilvist sem hingað til hefur verið hulin skömm eða þögn. Þannig hafa mikilvægar herferðir átt sér stað þar sem fólk hefur opnað sig um til dæmis geðsjúkdóma, til að draga úr fordómum og auka skilning. Sama má segja um #túrvæðinguna, sem vakti athygli á tíðablæðingum og #Metoo-byltingin fór ekki framhjá neinum, en hún rauf þögnina um kynferðislega áreitni og ofbeldi karla í garð kvenna, sem fyrri kynslóðir ýmist þögðu yfir eða álitu óhjákvæmilegan hluta tilverunnar. Allt er þetta gott og hjálpar okkur að sjá blæbrigðin í lífinu, draga úr einangrun og breyta viðhorfum til hins betra.
Þegar þögnin er betri kostur
Það eru þó ekki allir í aðstöðu til að opna sig um þær áskoranir sem við þeim blasa, sérstaklega ef það ógnar friðhelgi og einkalífi. Foreldri unglings með persónuleikaröskun þjáist kannski í einrúmi, fremur en að tjá sig opinskátt um vandamálið með tilheyrandi berskjöldun fyrir unglinginn. Stelpu sem var nauðgað er beinlínis óheimilt að tala um það opinberlega, fyrir það gæti hún verið sökuð um ærumeiðingar.
Strákur sem á bróður með hegðunarvandamál deilir engu um hversu flókið systkinasamband þeir eiga
Strákur sem á bróður með hegðunarvandamál deilir engu um hversu flókið systkinasamband þeir eiga, af ótta við að draga úr framtíðar atvinnumöguleikum bróðurins. Kona sem varð fyrir því að nektarmyndum af henni var dreift á netinu ber harm sinn fremur í hljóði en að taka áhættuna á því að fólk fari að leita að myndunum, fyrir forvitni sakir.
Öll heyjum við bardaga
Sjálf er ég á samfélagsmiðlum og ég spurði fylgjendur mína á Instagram hvað þeim fyndist um glansmyndafólkið. Þá svaraði mér kona, sem á eiginmann sem glímir við alvarlegt krabbamein. Hún sagði mér að líf hennar einkenndist af stöðugum ótta, áhyggjum og þunglyndi. Sálfræðingurinn hennar hefði ráðlagt henni að vega upp á móti þessu með því að finna jákvæða fleti tilverunnar og einbeita sér að þeim. Stoltinu yfir því að eiga fallegan garð, nautninni sem felst í góðu vínglasi, hlýjunni í faðmlagi góðs vinar. Þessum litlu augnablikum safnaði konan samviskusamlega á síðuna sína, eins og til að púsla saman eigin geðheilsu. „Ég bjó til glansmynd,“ sagði hún, „en ekki til að vekja öðrum öfund, heldur til að vekja sjálfri mér von um að lífið sé þess virði að lifa því, þrátt fyrir allt.“
Öll erum við að heyja bardaga sem aðrir vita lítið sem ekkert um – og varðar ekkert um. Við skuldum engum að segja alla sögu okkar, alltaf, alls staðar. Í heimi þar sem við getum verið hvað sem er, verum góð við hvert annað, líka við glansmyndafólkið. Hver veit nema einmitt þau þurfi mest á því að halda.
Athugasemdir