Fimm af tíu yfirstjórnendum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gegna stjórnunarstöðu sem þeir fengu án auglýsingar. Flestir voru fluttir úr einu embætti í annað á grundvelli 36. gr. starfsmannalaga sem veitir stjórnvöldum undanþágu frá auglýsingaskyldunni.
GRECO, samtök ríkja gegn spillingu, hafa gagnrýnt að ítrekað sé „handvalið“ í stöður innan íslensku lögreglunnar og lagt til að gert verði að meginreglu að lausar stöður innan lögreglunnar séu auglýstar og skipað í þær á grundvelli gagnsæs fyrirkomulags. Þá brýndi dómsmálaráðuneytið fyrir lögreglustjórum landsins í bréfi þann 20. maí síðastliðinn að fylgja þeirri meginreglu starfsmannalaga að laus embætti séu auglýst.
Hvergi á vef lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eru birtar upplýsingar um hverjir tilheyra yfirstjórn embættisins. Stundin óskaði eftir upplýsingum um skipan yfirstjórnar og hvernig stöðuveitingu hvers og eins hefði verið háttað. Sjá má upplýsingar um yfirstjórnina, byggðar á svörum lögreglu, hér að ofan. Um er að ræða sex karla og fjórar konur, fólk sem hefur mikla reynslu að baki innan lögreglunnar.
Athugasemdir